fimmtudagur, 30. apríl 2009

Kvikmyndagerð 2008-2009

Ég ákvað að fara í kvikmyndagerð vegna hásterkra lofa frá vinum mínum sem voru í henni í fyrra og líka þar sem ég hef mikinn áhuga á kvikmyndum. Áfanganum mætti kannski skipta í fjóra hluta. Kennslutímarnir, kvikmyndaáhorf, verklegi hlutinn og bloggið.

Kennslutímarnir
Oftast voru þeir bara nokkuð skemmtilegir og afslappaðir. Allar þessar reglur og trikk sem maður lærði um fá mann til þess að horfa á kvikmyndir í aðeins öðru ljósi og það er vel hægt að horfa á leiðinlega mynd ef maður skemmtir sér við það að pæla í öllum tæknilegu hlutunum. Ég er sammála einhverjum í áfanganum að það hefði ekki sakað að hafa eitt skyndipróf einhvern tímann á vorönn svo maður vissi hvað maður væri að fara út í í prófinu. Skemmtileg viðbót við kennslutímanna var heimsókn leikstjóra. Þá fékk maður að heyra hvernig bransinn virkaði og hafði ég mest gaman að Valdísi þar sem hún fór kannski breiðast um völl af þeim sem komu. Ég hefði t.d. viljað sjá Friðrik Þór tala meira almennt um kvikmyndir og það sem hann hefur gert enda gífurleg reynsla sem hann býr yfir.

Bíótímarnir
Eins og flestir hafa sagt er 14:40 á föstudögum kannski ekki besti tíminn til að vera með þessa tíma. Mér persónulega fannst það alveg fínt þó ég sé kannski ekki rétti maðurinn til að dæma um það enda þurfti ég ekki að mæta í skólann fyrr en kl. 12:40 á föstudögum og þ.a.l. mjög ferskur þegar myndin var sýnd. Ég held ég mundi meira að segja velja föstudaganna til að sýna mynd, þá er aldrei neitt próf daginn eftir eða neitt og því ættu allir að geta einbeitt sér að myndinni, en ég veit ekki. Myndirnar sem voru sýndar voru æði misjafnar. Jóhanna talaði um að hún hafi haldið að myndir eins og Shawshank Redemption og the Godfather yrðu sýndar, en mér finnst frekar að myndir sem maður hefði annars ekki horft á væri skemmtilegra að sýna. Oftast var ég tiltölulega sáttur með þær myndir sem voru sýndar og sumar voru alveg stórgóðar, svo sem Cats of Mirikatani, Man Bites Dog og hin alræmda Come and See. Come and See var þó mynd sem maður kunni bara að meta eftir á og hún stendur alveg upp úr þegar ég hugsa um þær myndir sem við horfðum á, frekar djarft múv hjá Spalla verð ég að segja að sýna svona langa og leiðinlega (hún var mögnuð en samt leiðinleg) mynd, en það skilaði sér allavega hjá einhverjum í áfanganum. Síðasta myndin sem horft var á var The Thing sem var nokkuð góð. Ég hefði alveg viljað sjá fleiri myndir úr svipaðri átt, eins og t.d. Invasion of the Body Snatchers eða kannski Barbarella eða eitthvað, það allavega bar lítið á hressum og furðulegum sub-genres í myndavalinu og hefði mátt sýna eina eða tvær þannig myndir. Það var t.d. engin Sci-fi mynd sýnd.

Verklegi hlutinn
Þetta er skemmtilegasti og mikilvægasti hlutinn. Leiðinlegt hvað ég og mínir hópar voru slappir í honum. Ég hefði t.d. mjög mikið vilja gera heimildarmynd og fá einkunn fyrir örmynd. Ég veit ekki hvað ég get sagt meira um þennan hluta en bara að láta hópana fá myndavélina þegar þeir eiga að fá hana af fyrra bragði. Síðan er pælingin hans Magga (eða einhvers annars) um að láta kennarann hjálpa til við kvikmyndagerðina alveg fín.

Bloggið
Þetta er skemmtilegur hluti af áfanganum og sá hluti sem ég hef kannski lagt mestan metnað í. Ég náði þó ekki að gera allt sem ég ætlaði mér á blogginu og í byrjun árs. Ég ætlaði t.d. að horfa á allar Body Snatchers myndirnar (þær eru fimm, þessi fyrsta og síðan fjögur remake) og skrifa eina bombu færslu um hvernig myndin breytist eftir tímanum sem hún gerð á o. s. frv.. Ég ætlaði mér líka að sjá allar þær myndir sem ég skrifaði um í fyrstu færslunni, en náði því ekki. Ég efast þó ekki um að ég nái því í sumar, ég er t.d. með Seven Samurai á tölvunni og aðrar myndir eru bara handan við hornið. Ég ætlaði líka að hafa video blog en það misheppnaðist eitthvað. Þrátt fyrir þetta náði ég flestum 10 stiga færslum áfgangans og er ég mjög sáttur með það. Það var líka gaman að lesa færslur hjá öðrum og ræða um þær næst þegar maður hitti viðkomandi og skapaði bloggið nokkuð hressilegt andrúmsloft hjá hópnum (bíótímarnir reyndar líka, kostir og gallar myndanna voru títt ræddir). Ég reyndi að hafa blogg sem væri sem skemmtilegast aflestrar og því sleppti ég eins og ég gat að skrifa um endursögn sögu myndarinnar, en mér fannst alltof margir bloggarar missa sig í henni og því finnst mér að Siggi ætti frekar að gefa færslunum einkunn eftir innihaldi þeirra frekar en orðafjölda. Ég veit líka að ég skrifaði færslu um sjónvarpsþætti en mér fannst heldur tæpt þegar hver færslan á fætur annarri um anime og grínþáttakaraktera fór að fljóta inn, kannski pæling að segja krökkunum á næsta ári að blogga bara um kvikmyndir og hluti tengda þeim. Ég veit ekki með þessar skyldufærslur, að gefa mínus finnst mér dálítið harkalegt og kannski skemmtilegri pæling að gefa plúsa fyrir þá sem gera skyldufærslunnar (eins og mér sýndist vera gert við frönsku kvikmyndahátíðarfærslunnar).

Þegar allt kemur til alls var þessi áfangi líklega sá skemmtilegasti í MR (ásamt stærðfræði) og mikið sem ég lærði sem mun annað hvort ekkert nýtast mér eða talsvert nýtast mér í komandi framtíð. Takk fyrir mig!

Bónus: Bynysjan.

miðvikudagur, 15. apríl 2009

Lokamynd: Op. nr. I

Þar sem Sigurður er búinn að gefa einkunn er komin tími til þess að fjalla um lokamyndina í kvikmyndagerðaráfanganum og með því færist ég nær 100 stigunum fyrir önnina. Eins og þegar ég fjallaði um örmyndina ætla ég bæði að tala um sögu myndarinnar og vinnuna sem lá á bakvið hana.

Þegar hóparnir voru settir saman þá ætluðum bara ég, Héðinn og Haraldur að vera saman í hóp. Ég ítrekaði það við Harald að það væri best að vera bara þrír, minnugur um vesenið með gerð örmyndarinnar. Helga og Bjölverinn voru ekki mætt í tímanum sem hóparnir voru ákveðnir þannig að Siggi Palli spurði þá “Björn Ívar er ekki í neinum hóp, geta ekki einhverjir tekið hann?”. Haraldur sagði auðvitað “jájá, við getum það!”. Síðan spurði Siggi “Helga er ekki heldur í neinum hóp, hver vill fá hana?” og auðvitað tók Haraldur frumkvæðið “Við getum alveg tekið hana sko!”. Þar með var kominn sami babarahópur sem drjólaðist aldrei til þess að gera örmyndina fyrr en á síðustu stundu, þetta leit ekki vel út. Reyndar er þessi fimm manna hópur einstaklega hugmyndaríkur og óhræddur við að prufa eitthvað skemmtilegt, það eru bara allir svo miklir skúnkar og enginn sem drífur hina áfram.

Við fengum myndavélina á miðvikudegi en byrjuðum ekki að taka upp fyrr en daginn eftir. Ég hafði brotið hugann um hvað myndin gæti fjallað um og í hvernig stíl hún ætti að vera, en var frekar tómur satt að segja. Héðinn og Haraldur komu með hugmynd að splatter mynd sem átti að heita “Á tæpasta vaði” (nema hvað!) og hún átti að vera algjörlega bein merking síns eigin titils. Myndin átti að fjalla um fjóra stráka sem fara í einhvers konar útileigu við vað og síðan fara tæpir hlutir að gerast. Haraldur lýsti fyrir mér með mikilli nákvæmni nokkrum atriðum og voru ýmsir metnaðarfullir hlutir á pallborðunum eins og skuggamyndaatriði, blóðslettur og epískt lokaatriði sem mundi gerast í á. Mér leist einstaklega vel á þetta allt saman enda splatter líklega með þeim skemmtilegri myndum sem hægt er að gera. Helga átti að leika morðingjann og fengum við ansi óhugnalega hana-grímu að láni frá Rúnari Má, bekkjarfélaga okkar. Ef það var ekki nógu týpískt að nota ekkert fyrsta daginn með myndavélina þá lögðum við af stað daginn eftir upp í Öskjuhlíð eftir skóla og þegar við vorum komin á staðinn áttuðum við okkur á að við vorum ekki með gerviblóð, ekki með tjald (sem átti að spila nokkuð stórt hlutverk í myndinni) og verst af öllu þá vorum við ekki með spólur í myndavélina! Ég hafði gleymt þeim heima hjá mér svo við þurftum að snúa til baka. Heima hjá mér tókum við þó upp fyrsta atriði myndarinnar og náðum í hálffulla BBQ flösku. Glöggir taka eftir því að í einu sjónarhorni í byrjunaratriðinu er Haraldur klæddur mokkajakka en úr öðru sjónarhorni er Haraldur hvergi sjáanlegur og það er ég sem er í mokkajakkanum. Þetta átti sem sagt að vera gegnumgangandi þema í myndinni að hafa mjög augljósa svokallaða “continuity errors”. Það var þó hætt við þessa pælingu frekar snemma í upptökum. Þetta gaf líka Haraldi tækifæri til þess að vera í myndinni en hann þurfti að fara á skylmingaæfingu (nema hvað!).

Við fórum síðan upp í Öskjuhlíð og tókum upp fyrri helming myndarinnar. Svo ég úrskýri ofbirtu atriðin tvö þá vorum við hreinlega ekki búin að fatta að hægt væri að fiffast í irisinu á myndavélinni, og við lögðum ekki í það að taka atriðin upp aftur þar sem þau gerðust í einhverja kílómetra fjarlægð frá hvor öðru. Við vorum enn með það hugarfar að við vorum að taka upp splatter mynd en ekki listræna og torræða svarthvíta mynd eins og hún endaði á að vera. Við vorum ekki með tjald og við vorum ekki við vað þannig að við vorum strax byrjuð að fjarlægast upprunalegu hugmyndina þó. Í staðinn fyrir að strákarnir væru í útileigu virðast þeir bara vera eitthvað að chilla út í skóg, skiptir kannski ekki öllu. Ég held að það var hugmynd Héðins að snarbreyta allt í einu almennt frekar hressu og gauralegu andrúmslofti myndarinnar þegar (persónan) Björn Ívar þurfti að fara að pissa. Splatter myndin var dálítið hugarfóstur Haraldar og hann var hvergi nálægur til þess að passa upp á hugmyndina sína. Mér fannst þetta fáránlega fyndið þar sem áhorfendur mundu alls ekki búast við rosalegum andlits nærmyndum, svipuðum og í Idi I smotri, sem er líklega mesti áhrifavaldur myndarinnar. Fyrsta takan af því þegar Helga gengur upp að Birni og drepur hann þá gerði hún bara nákvæmlega það, gengur upp að honum og drepur hann. Það atriði var frekar langdregið þar sem Helga átti í vandræðum með að labba á hrjúfu yfirborði skógarins enda ekki hægt að líta niður fyrir sig með þessa grímu. Þá stungum við upp að því að eftir nokkur skref mundi hún skyndilega snúa sér við og horfa beint í myndavélina með hröðu zoomi. Við ætluðum aldrei að reyna fela hver morðinginn var enda má sjá tenginguna við fyrsta atriði myndarinnar þegar Helga kreppir hnefann, en það átti að vera einkenni morðingjans og alltaf þegar áhorfandinn sæi það mundi hann vita að eitthvað slæmt væri að fara að gerast.

Þetta var hluti af annarri pælingu sem fór, svipað og með “continuity errors” pælinguna, ekki mjög langt. Ég var einna helst spenntastur fyrir því að gera mjög sjálfsmeðvitaða mynd, svona mynd þar sem allir karakterar vita að þeir eru í stuttmynd. Ég vildi jafnvel að einhverjir karakterar mundu tala beint við áhorfendur um hvað væri að fara að gerast. Einu leifarnar af þessum pælingum sem lifðu af inn í lokaafurðina er þegar það heyrist “action!” í upphafsatriði myndarinnar (það var sem sagt ekki óviljandi!) og þegar Héðinn gefur kamerunni þumalinn upp í atriðinu þar sem strákarnir keyra í burtu.

Við þurftum að finna upp á frumlegri aðferð til þess að sýna drápið á Birni án þess að láta það sjást (enda ekki með fjármuni til þess að láta morð í mynd lúkka vel) og pælingin sem við komum með gekk ekki alveg þar sem BBQ-sósan var ekki alveg nógu raunsætt blóð og það var of lítið af henni. En jæja. Síðan sögðum við það gott og ætluðum að halda áfram næsta dag og þá mundi Haraldur koma aftur og sýnd viðbrögð míns og Héðins við drápinu á Birni og fleira skemmtilegt. Þegar á tökum stóð í Öskjuhlíðinni var mikið tekið upp af efni sem var fyrir utan meginsögu myndarinnar og ekkert endilega tekið upp til þess að vera notað í lokaútgáfu myndarinnar, heldur meira svona til gamans. Þessar upptökur áttu þó eftir að vera mikið notaðar þegar allt kom til alls, sérstaklega þá skotið þar sem Helga gægist á bakvið tré með hana-grímuna á sér, en það var upprunalega bara eitthvað flipp með myndavélina.

Næsta dag gerðum við samt ekki neitt, heldur tókum upp örmyndina. Við höfðum talað við hópinn sem átti að fá myndavélina á eftir okkur að við mættum vera með myndavélina um helgina og því var ákveðið að við ætluðum að klára myndina á sunnudeginum enda var enginn upptekinn þá og því kjörið að gera þetta almennilega. Þegar sunnudagurinn gekk í garð hringdi samt enginn í neinn (ég hringdi reyndar í Héðinn og hann svaraði ekki) og ekkert gerðist. Þegar við komum í skólann á mánudaginn þurftum við að skila myndavélinni en þá vorum við samt bara búin að taka upp helminginn af myndinni! Þá ætluðum við að fá að importa því efni sem við vorum komin með og klippa það og þegar Breki og co. væru búin að nota myndavélina mundum við fá hana aftur og taka upp restina af myndinni. Ég og Héðinn fórum á Amtmannsstíg til þess að importa en… við lentum í ótrúlega miklu basli og veseni sem fól í sér að okkur vantaði firewire snúru. Við reyndum fáránlega margar og langsóttar leiðir til þess að tengja myndavélina og flakkarann en allt kom fyrir ekki og þetta bara virkaði engan veginn! Seinna kom í ljós að téð snúra var heima hjá mér. Ég og Suðu-Hyðjan ákváðum þó að snúa þessum leiðinlega atburð í eitthvað jákvætt. Þetta plan var hvort sem er gjörsamlega vonlaust og langbest að drífa bara af að gera myndina.

Ég stakk upp á að við mundum taka upp nokkur atriði af sjálfum okkur sem við sjálfir þar sem við tölum við áhorfendur um það sem væri að gerast í myndinni og síðan útskýra af hverju hún kláraðist ekki. Eins konar útgáfa af sjálfsmeðvitundar pælingunni sem ég var svo hrifinn af. Héðinn stakk þá upp á því að við færum upp Hljómskálagarð og kláruðum sögu myndarinnar. Þar væru tré og við tveir vorum einmitt einu eftirlifandi persónur myndarinnar (fyrir utan morðingjann). Við fórum út í Bónus og keyptum risastóra krukku af extra chunky salsa sósu sem þjónaði sem einstaklega gróteskt blóð. Þegar við vorum að ganga að Hljómskálagarði duttum við á þá hugmynd að fara frekar í gamla kirkjugarðinn sem er þar nálægt, þar væru engir á ferli og garðurinn er þar að auki mjög myndrænn og mikið af stórum trjám og drungalegum legsteinum.

Við tókum upp helling af efni í kirkjugarðinum af hinu og þessu, margt af því var síðan ekki notað í myndinni en þó sumt. Við hugsuðum það sem tekið upp var í kirkjugarðinum sem annan hluta í myndinni sem tengdist ekki fyrri hlutanum alveg beint, en samt þó. Minnin úr fyrri hlutanum má sjá í seinni hlutanum eins og furðulega tréið í Öskjuhlíðinni er ritað á lófa í seinni hlutanum. Blóð sem lekur út úr trjám má sjá í báðum hlutunum. Við fengum síðan góðvin okkar sem býr nálægt kirkjugarðinum til þess að birtast í cameo hlutverki í myndinni, Guðmund Egil Árnason, en hann lék einmitt aðalhlutverkið í myndinni Syndir feðranna sem var lokamynd hjá einum hópi í fyrra. Það er von okkar að hann muni birtast í fleiri lokamyndum í kvikmyndagerðaráfanganum í MR. Við vildum fyrst að hann mundi taka af sér hana-grímuna, en þar sem við vorum ekki með hana þá létum við það nægja að láta hann segja “Haninn, er ég” og var það líklega betra en hitt. Hann þurfti þó talsverða leikstjórn frá mér og Héðni, sem var mjög gaman. Í einu atriði í fyrri hluta myndarinnar þegar haninn birtist kemur einn rammi af Guðmundi Agli skyndilega, maður tekur varla eftir því í fyrsta skiptið en það ætti að vera hægt að skynja það ef maður fylgist vel með.

Merking myndarinnar vil ég ekki gefa frá mér en hún er vissulega til staðar og það er undir hverjum og einum að finna sína eigin merkingu. Ég er ekki að segja hvert einasta skot þjóni einhverjum dýpri tilgangi en það var alltaf ákveðið plan í gangi og við sáum alltaf strax þegar eitthvað skot passaði ekki inn í stemmninguna í myndinni. Það var að mestu Héðinn sem klippti myndina, þó að við klipptum hana stundum í sameiningu á Amtmannsstíg eftir skóla. Þegar ég sá fyrri hluta myndarinnar fullklipptan af Héðni var ég ótrúlega hissa með hvað hann náði að gera flotta hluti með myndefninu og þetta heppnaðist miklu betur en ég þorði að vona. Seinni hlutinn var meiri klipptur í sameiningu og gekk samstarfið einstaklega vel fyrir sig og flestir á sama máli um hvernig ætti að tækla klippinguna. Þegar myndina var fullklippt var lagt í hljóðvinnsluna sem var næstum því jafnmikið verk og myndvinnslan enda spilar hljóðið talsvert stórt hlutverk í myndinni. Héðinn samdi tónlistina, undir listamannsnafninu Bbar, og var hún mjög óhlustendavæn og óþægileg sem var einmitt markmiðið með henni. Hann var að mestu í skipstjórastólnum þegar við unnum hljóðið og lítið hægt að setja út á ákvarðanir hans í þeim efnum.

Við ákváðum að hætta við “Á tæpasta vaði” titilinn á myndinni enda vorum við á því að myndin væri orðin það góð að svona djók titill mundi ekki hæfa henni. Því var hið mjög svo opna heiti “Op. Nr. I” gefið myndinni, eða Ópus númer eitt. Sem er í rauninni ekki titill heldur bara lýsing á því sem myndin er og það er von mín að þetta verði fyrsti ópusinn í röð margra.

Þegar myndin var frumsýnd var sólarljósið einstaklega leiðinlegt og lýsti upp 1/3 af myndtjaldinu og þegar myndin var hálfnuð kom skært ljós á mitt tjaldið sem var í laginu eins og upphrópunarmerki og þetta skemmdi mjög mikið stemmninguna. Einnig fannst okkur hljóðið ekki nógu hátt stillt því að það á að vera mjög óþægilegt en á svona lágum styrk var það of áhlustanlegt. Vonandi munu nemendur og kennarinn njóta myndarinnar betur þegar við fáum mynddiskinn og getum þá horft á myndina heima hjá okkur. Ég var allavega virkilega ánægður með útkomuna og er stoltur af myndinni.

Bónus: Bara smá forvitni, hvernig fannst þér myndin vera undir áhrifum frá David Lynch, Siggi? Idi i smotri homage-ið var alveg meðvitað en við pældum ekki í Lynch-áhrifum við gerð myndarinnar nema Björn Ívar hafi smeygt einhverjum "easter eggs" í myndina sem ég hef ekki tekið eftir, enda annálaður Lynch aðdáandi.

mánudagur, 6. apríl 2009

Örmynd: Á hverfandi hveli

Hvað gerist þegar fimm manna hópur sem samanstendur bara af fallistum og utanskólaliði eru látin gera verkefni saman? Ekkert. Þannig var það hjá okkur sem áttu að gera örmyndina, sem við loksins drjóluðumst til þess að gera einhvern tímann eftir skóla og það tók síðan ekkert svo langan tíma að taka hana upp. Fyrst var þetta auðvitað þannig að við áttum að gera heimildarmynd, og það var svo langt síðan að júlíanska tímatali hafði ekki einu verið innleitt þá. Við vorum með nokkrar hugmyndir um hvernig sú mynd gæti verið. Ég vildi gera stutta heimildarmynd um “vandræðalega hornið” í MR. Ég er að tala um hornið hjá aftari innganginum að Gamla skóla. Maður sér aldrei fyrir hornið þegar maður gengur út um hurðina og því gerist það ósjaldan að fólk rekst á hvort annað á leiðinni inn eða út úr skólanum. Þetta, held ég, hefði getað orðið mjög fyndin mynd og hafði ég hugsað hana sem samblöndu af heimildarmynd og mockumentary. Ég var búinn að ímynda mér að við gætum fengið að taka smá viðtal við Yngva rektor og Hannes portner um þetta horn og fá þá til þess að taka þátt í gríninu. Síðan hefði verið gaman að sviðsetja einhvern rosalega dramatískan árekstur hjá horninu og nota slow-mo fítusinn og eitthvað. T.d. hefðu Bívarinn og Helga getað leikið par sem kynntust við að rekast á hvort annað hjá horninu og hjálpað hvor öðru að tína upp bækurnar sínar. Þetta hefði verið snilldarmynd og ég er mjög leiður að allt þetta náði engu flugi. Það var líka önnur pæling að gera heimildarmynd um Íslandsmeistarann í Guitar Hero. Síðan voru nokkrar aðrar pælingar í gangi en allt kom fyrir ekki og við gerðum ekki jack shit fyrir jól.

Eftir jól kom Siggi Palli með þessa örmynd/auglýsingu/tónlistarmyndband/hvaðsemer pælingu. Þá hafði Breki bæst í hópinn eftir misserisdvöl utanskóla. Þá vorum við að tala um að gera dramatíska tryggingarfélagsauglýsingu a la VÍS. Búa til eitthvað epískt montage með einhverju rosalegu íslensku lagi undir eins og “Þinn fyrsti koss” eða eitthvað. En, eins og einkenndi starfsemi hópsins frá byrjun, þá var mikið talkað en ekkert walkað. Breki fór síðan yfir í hópinn með bekkjarfélögum sínum og gerði mynd með þeim. Ég man ekki alveg hvernig þetta var en við tókum einhvern veginn aldrei við myndavélinni þegar við áttum að vera með hana, af engri alvöru ástæðu nema bara almennum skúnkshætti. Tíminn leið og við gerðum aldrei þessa mynd. Það kom upp pæling að gera myndina bara á kamerunni minni og klippa hana síðan í “Spallanum”, eins og við kölluðum klippitölvuna síðar. Kameran mín er þó ekki næstum því jafngóð og hin og frekar úrelt (fékk hana í fermingargjöf 2001). Gerðum við myndina á minni myndavél? Svarið er að sjálfsögðu: nei. Við gerðum ekki, eins og áður hefur komið fram, jack shit. Á þessum tíma fékk ég hugmyndina að myndinni eins og hún er í dag. Ég hafði upprunalega hugsað mér að taka hana upp í myrkri göngugötu sem er rétt hjá heimili mínu og síðan í eldhúsinu heima hjá mér. Pælingin var að byggja upp rosalega spennu og láta áhorfandann verða rosalega forvitinn og áhugasaman um það sem væri að fara að gerast en síðan mundi þetta bara enda á algjöru and-klímaxi og vera ekki neitt. Ég vildi fyrst hafa Harald eldandi í staðinn fyrir lærandi þar sem það er fjölbreyttari iðja en að læra. Skotin af honum hefðu þá getað verið aðeins skemmtilegri: Haraldur að skera grænmeti, Haraldur að steikja, Haraldur að kveikja á eldavélinni etc. etc., en eins og myndin er þá eru skotin af Haraldi nokkurn veginn bara: Haraldur að reikna, Haraldur að reikna, Haraldur að reikna. Ég hafði líka hugsað mér að taka fyrstu persónu skotin hans Héðins að nóttu til, enda nóttin drungalegri en dagurinn. Það kom líka önnur hugmynd að örmynd frá Héðni Finns en ekkert varð úr henni nema titillinn “Á hverfandi hveli” sem hélst á örmyndinni og líka stemmningin sem átti að vera í þeirri mynd yfirfærðist dálítið á lokamyndina. Myndin átti sem sagt að vera þannig að Héðinn væri að reykja (mínútu langt skot) síðan mundi koma víðari skot og þá sést að hann situr á stól ofan á hvali. Síðan kastar hann sígarettunni í hvalinn og við það vaknar hvalurinn og lætur sig hverfa niður í sjóinn og Héðinn drukknar. Myndin hefði samt frekar átt að heita “Á hverfandi hvali”, en allavega, storyboard var gert fyrir þessa mynd og allt en nei… ekkert varð úr því.

Aftur að langri fæðingu myndarinnar. Þegar við höfðum ekki gert neitt þegar við áttum að gera eitthvað og þar sem þetta gildir 20% af námseinkunninni þá vildi maður nú gera eitthvað því það er skelfilegt að fá 0 í einhverju sem gildir svona mikið og er svona skemmtilegt. Þegar við fengum myndavélina til þess að gera lokamyndinni ákváðum við að taka upp örmyndina meðfram henni. Við vorum auðvitað fáránlega lengi að drjóla okkur til þess að taka upp eitthvað og fyrsti tökudagurinn okkar var á daginn eftir að við fengum myndavélina. Við tókum upp efni í fyrri hluta lokamyndarinnar og mun ég skrifa sér færslu fyrir hana svo að sagan af því ævintýri verður að bíða. Næsta dag ætluðum við að halda áfram að taka upp lokamyndina og hittumst eftir skóla á föstudegi. Ég er ekki frá því að við höfum skrópað í kvikmyndafræðibíói eftir skóla, sem er skandall í sjálfu sér. Þegar við hittumst kom í ljós að við vorum öll voða bissí (nema ég samt) og Haraldur var að fara á potpriksæfingu, Héðinn var að fara að vinna, Bívarinn var að fara að skoða íbúðir og Helga var að fara að djamma. Við höfðum engan bíl svo að önnur ferð í Öskjuhlíðina var úr myndinni. Við ákváðum þá að drífa það af að gera þessa örmynd á þeim stutta tíma sem allir voru ekki uppteknir. Því gerist myndin ekki í eldhúsinu hjá mér heldur á Amtmannsstíg, heimili Jóns Erlings. Þess vegna er Haraldur líka að reikna en ekki elda. Við byrjuðum á að taka upp skotin af “skrímslinu”, sem reyndist síðan vera Héddi Finnstone. Ég hafði hugsað mér sú skot eins og lokaatriðið í Evil Dead. Haraldur var á kamerunni í þeim atriðum og leysti hann það verkefni vel af hendi. Það var líka einstaklega gaman að horfa á hann hlaupa um hokinn með myndavélinna og skemmti það restinni af hópnum á meðan á tökum stóð. Það helsta sem var ekki að virka við kvikmyndatökuna hans var að stundum stoppaði hann og leit í kringum sig og annað slíkt, líklega til þess að gefa myndinni meiri realisma, en þegar kom að því að klippa myndinna þá gekk ekki að stoppa því að það hefði skemmt fyrir spennunni sem átti að magnast upp. Skemmtilegasta atvikið við gerð myndarinnar var líklega þegar Helga og Björn Ívar sýndu stórleik þegar þau hlupu frá “skrímslinu”. Björn Ívar sem sagt hljóp beint á einhvern strák sem var að labba heim frá skólanum og var það tiltölulega fyndið.

Skotin af Haraldi að læra voru síðan að mestu tekin upp af mér og við reyndum að hafa þau sem fjölbreyttust og vil ég meina að það hafi tekist bara ágætlega þar sem þetta var nú ekki mjög fjölbreytt iðja sem hann var að stunda í atriðunum. Atriðið sem við tókum upp oftast var lokaatriði myndarinnar enda var það það langmikilvægasta í myndinni, eins konar punchline brandarans. Við prufuðum nokkrar mismundandi útgáfur og að lokum var “blessaðuuur” útgáfan notuð í myndina. Það atriði hefði samt mátt vera betra og ég hafði ímyndað mér það öðruvísi. Aðallega er ég að tala um tímasetninguna á línunni hans Héðins en hún kom örlítið of fljótt… en maður getur ekki unnið allt. Ég gleymdi líka að hækka í hljóðinu í því atriði þegar ég var að klippa myndina.

Já, ég sem sagt klippti myndina. Ég braut hugann oft um það hvaða lag skyldi vera notað. Það þyrfti að vera nokkuð spennuþrungið, frekar hratt og magnast eftir því sem leið á lagið. Ég fann fyrir algjöra tilviljun slíkt lag á safnplötu af elektró-dans tónlist (mér til mikillar furðu) sem ég hlustaði á um þetta leiti. Lagið er remix af Justice laginu “Stress” og var það fullkomið að öllu leyti nema að það var teknó trommutaktur undir fiðludramatíkinni, en ég veit ekki um neitt annað lag sem hefði getað virkað betur í fljótu bragði. Það hefði auðvitað verið lame að nota Jaws theme-ið eða eitthvað annað lag sem hefur verið í bíómynd. Ég var ekki alveg sáttur með tímasetningarnar á því hvernig lagið byrjar í Héðins-skotunum, en þannig fínstillingar koma bara með tímanum held ég. Það var heilmikið basl fyrir mig að klippa þetta enda í fyrsta sinn sem ég vinn eitthvað í Final Cut og því algjör byrjandi. Þegar ég setti lagið fyrst inn heyrði ég ekkert nema “bíp bíp bíp” og það tók alveg klukkutíma af “AAAAAAAAHHHH AF HVERJU VIRKAR ÞETTA EKKI!!!!!!!!” þangað til að ég fattaði ég þurfti að fokking rendera lagið svo það mundi hljóma… hvað sem “render” þýðir.

Þetta gekk þó allt á endanum og nú kann ég allvega öll helstu grundvallaratriðin í Final Cut. Þegar ég var búinn að klippa allt myndefnið og setja inn hljóð og alles þá átti ég samt eftir að setja inn titilspjaldið og credit listann í lokin. Þetta gerði ég síðan í miklum flýti þar sem Tryggvi & co. þurftu að fá “Spallann”. Ég færði því mynda-tímalínuna til hægri til þess að rúma fyrir titilspjaldinu í byrjun myndarinnar sem entist í ca. 5 sekúndur. Það sem ég klikkaði þó á var að ég færði ekki hljóð-tímalínuna líka þannig að þegar ég var búinn að skila frá mér klippitölvunni horfði ég á myndina og hvað haldiði? Hljóð og mynd var algjörlega úr synci, heill 5 sekúndna munur þar á ferð. Þess vegna gátum við ekki sýnt myndina um föstudagsmorguninn. Í klukkutíma hléinu frá því að við vorum búnir í skólanum klukkan 14 og þangað til að tíminn byrjaði klukkan 15 settum við titilspjaldið inn í myndina þannig að hún syncaði og því má segja að lagt var lokahönd á myndina nokkrum mínútum áður en hún var sýnd, nokkuð töff. Frumsýningin var skemmtileg þó var dagsbirtan mjög leiðinleg og skemmdi smá fyrir (þó miklu meira í lokamyndinni, meira um það síðar). Viðtökurnar voru góðar og var það einna helst Gunnar Snær, “Gasyljan”, sem kunni að meta hana hvað mest.

Hugmyndin að myndinni varð fyrst til í kollinum mínum og var það einstaklega skemmtilegt að sjá hugdettuna verða að veruleika. Ég verð þó að taka undir orð Alfred Hitchcock um að þegar handrit að mynd er komið þá er hún fullkomin (þó við gerðum nú ekkert handrit þar sem myndin var það stutt) en síðan þegar hún er tekin upp er hún í mesta lagi svona 60% af því sem maður hafði upprunalega hugsað sér. Engu síðar var þetta mjög skemmtilegt og ég er ánægður með verkið.

þriðjudagur, 31. mars 2009

Carnival of Souls

Ég horfði á myndina Carnival of Souls fyrir nokkru síðan en hún er B-mynd frá 1962. Myndin fjallar um konu sem keyrir fram af brú í á ásamt tveimur vinkonum sínum og þær tvær deyja en hún lifir af og skrýtnir hlutir fara að gerast. Hún flytur í afskekktan bæ og fær vinnu sem organisti í lítilli kirkju. Síðan er hún alltaf að sjá einhver spúkí kall út um allt með hvítt andlit og svart í kringum augun. Myndin er ekkert brútal og nákvæmlega ekkert ofbeldi né blóð í henni. Myndin snýst öll um andrúmsloftið og stemmninguna. Tónlist spilar stórt hlutverk í myndinni en hún er öll spiluð á orgel og getur verið ansi ógnvekjandi. Konan er með sífellda köllun til þess að fara í eitthvað yfirgefið tívolí sem stendur fyrir utan bæinn. Myndin endar þannig að hún fer í þetta tívolí (karnival) og þar eru hellingur af zombie-um sem eru eins og kallinn sem hún er alltaf að sjá. Uppvakningarnir elta hana og ná henni loks og þá er klippt á atriði þar sem verið er að draga bílinn upp úr ánni og þá sjást allar konurnar þrjá látnar inn í bílnum, þar á meðal hún. Þannig hún var í raun dauð allan tímann. Það er líka eitt atriði í myndinni þar sem hún labbar um og reynir að tala við fólk en enginn tekur eftir henni. Þetta er örugglega fyrsta myndin með svona plotti en sú frægasta er auðvitað The Sixth Sense með Bruce Willis. Ef ykkur finnst þetta illa skrifuð færsla þá er það alveg rétt en ég skrifa hana í mikilli fljótfærni þar sem ég gerði video-blogg um hana fyrst en tæknilegir örðuleikar gerðu það að verkum að ég gat ekki sett það inn. Það var sjúklega skemmtilegt og hresst video blogg btw. Allavega. Þetta var ekkert það góð mynd en þó áhugaverð. Sem betur fer náði ég samt að setja eitt annað video inn fyrir alla til að njóta.

Bónus:

Af hverju fá grínleikarar aldrei Óskarinn?

Á tiltölulega nýlegri færslu sinni fjallar Birta um myndirnar sem við höfum verið að horfa á eftir skóla á þessari önn. Ég er ekki frá því að minn listi mundi vera nákvæmlega eins en það sem vakti helst athygli mína var lýsing hennar á rússnesku myndinni Komdu og sjáðu.

... í hlutanum þar sem þorpið er gjöreyðilagt og öllum gjörsamlega slátrað þá sat ég bara frosin í sætinu, hálfóglatt og langaði eiginlega ekki til að sjá meira. Samt vildi ég sjá meira. Þetta var skrítið. Er þetta ekki draumur kvikmyndagerðarmannsins, að vekja upp svona rosalega sterkar tilfinningar hjá áhorfanda?

Ein af mörgum senum sem eru óþægilegar áhorfs í Come and See.

Ég er viss um að Birta hafi ekki verið sú eina sem varð hálfóglatt yfir þessari mynd enda er hún algjör hryllingur og er almennt talin ná að lýsa hryllingnum sem stríð getur verið mjög vel. Myndin er líka talin vera einstaklega góð. Því til stuðnings má benda á að hún er með 8.1 í einkunn á imdb og 93% á Rotten Tomatoes. Það mætti spyrja hvernig hægt er að telja mynd góða sem lætur áhorfandanum líða illa. Ætti myndin ekki að teljast hræðileg í samræmi við hversu hræðilega hún lætur áhorfandanum líða? Nei, málið er að þetta var markmið leikstjórans. Í myndum eins og Saving Private Ryan, sem er talin lýsa seinni heimsstyrjöldinni nokkuð vel, er samt langt frá því gefin rétt mynd hvernig stríð eru í raun og veru. Maður fylgist með Tom Hanks, andlit sem allir kannast við, að blammera nasista með geðveikt spennandi og hröðum klippingum og maður heldur með honum og hvetur hann áfram. Í Come and See heldur maður ekki með neinum, manni langar bara að þetta endi sem fyrst því þetta er svo hræðilegt. Það er nákvæmlega það sem leikstjórinn vildi gera. Hann gekk meira segja svo langt að hætta að búa til kvikmyndir því honum fannst hann hafa náð að gera allt sem hann vildi gera á sviði kvikmyndagerðar eftir að hann gerði Come and See.

Ég tek Come and See til greina þar sem við erum öll nýbúin að sjá hana og ég held að flestir hafi verið á sama máli um að myndin var ansi truflandi. Ég hef nefnilega stundum velt fyrir mér að ef markmið leikstjórans næst við gerð einhverjar myndar er hún þá fullkomin? Og enn fremur, ættu allar myndir að vera metnar eftir því hversu vel þau ná þeim áhrifum sem þær leggja upp með? Svo ég einfaldi, markmið Elem Klimov var að gera mynd sem sýnir hvað stríð er ógeðslegt og Come and See sýnir óumdeilanlega hvað stríð er ógeðslegt, er hún þá sjálfkrafa góð mynd?

Það er augljóst að markmið Tom Shadyac þegar hann gerði Liar Liar var allt annað en markmið Lasse Hallström þegar hann gerði Chocolat. Ég býst við að markmiðið með Liar Liar var að fá fólk til þess að hlæja og markmið Chocolat var að fá fólk til þess að væla yfir því hversu væmin hún er. Ætti þá að bera þessar myndir saman eftir því hversu vel þau ná markmiðunum sínum?

Allavega, punkturinn sem ég er að reyna að koma með er að grínmyndir og sérstaklega grínleikarar finnst mér vera vanmetnir hjá kvikmyndaspekúlöntum. Mér finnst hlutverk grínleikarans vera miklu erfiðara en dramaleikarans. Dramaleikarinn þarf 'bara' að vera sem raunsæastur í því hlutverki sem hann leikur í svo fólk taki hann trúanlega, á meðan grínleikarinn þarf að fá fólk til þess að hlæja sem mér finnst mun erfiðara (og jafnvel göfugra) verkefni. Tökum Tom Hanks sem dæmi þar sem ég er búinn að nefna hann einu sinni áður í þessari færslu. Hversu fáránlegt væri ef hann hefði leikið hlutverk Jim Carrey í Dumb & Dumber? Ég gæti miklu betur ímyndað mér Jim Carrey í hlutverki hans í Saving Private Ryan. Ég hef einmitt séð grínmynd með Tom Hanks sem heitir The Money Pit og hún sökkaði babar. Einu grínmyndirnar sem eru hampaðar sem meistaraverk eru a.m.k. hálfrar aldar gamlar eins og Some Like It Hot (sem var valin besta grínmynd allra tíma einhvern tímann). Some Like It Hot er vissulega fín mynd en segjum að hún hefði verið framleidd árið 2008 en væri að öðru leyti alveg eins nema kannski í lit og staðfærð í nútímann, þá held ég að hún mundi ekki vekja mikla athygli. Það er kannski ósanngjarnt að segja svona, en samt. Bara eitthvað sem ég hef stundum pælt í.

Snilld. Epík. Meistaraverk.

Bónus: Ég sá tvær myndir í röð á RÚV einhvern tímann fyrir stuttu. Þær voru Bratz: The Movie og The Last Samurai. Þær voru báðar svo gjörsamlega út í hött en munurinn var að Bratz myndin var mjög meðvituð um það á meðan The Last Samurai var það ekki. Þar af leiðandi fannst mér Bratz vera miklu betri og skemmtilegri, Tom Cruise í einhverju samúræjasloppi bara gengur ekki.

þriðjudagur, 24. mars 2009

Myndir af Topp 10 listum kvikmyndagerðarkrakkana (Jei!)

Smá athugasemd í byrjun, en þessi færsla er skrifuð á alveg þriggja mánaða tímabili (þó aðallega í desember) þannig að kannski er sumt sem er fullyrt í henni ekki alveg rétt en ég nenni ekki að vera breyta einhverjum litlum smáatriðum. Njótið.

Klassískt vandamál sem allir kvikmyndaáhugamenn standa einhvern tímann fram í fyrir við er: “Hvaða mynd á ég að horfa á næst?”. Ég einmitt glímdi við þetta lúxusvandamál um daginn og ákvað að tékka á topp 10 listunum hjá okkur krökkunum í kvikmyndagerð til þess að fá hugmyndir um hvaða mynd ég ætti að horfa á. Síðan fór ég að stúdera listana aðeins betur og ýmislegt skemmtilegt kom í ljós, ég læt nokkrar tölfræðilegar staðreyndir fylgja þar sem ég hef svo gaman að slíku.

Það eru 23 nemendur í áfanganum en aðeins 11 nemendur hafa skilað frá sér lista af uppáhalds kvikmyndum í einhverju formi. 97 kvikmyndir eru nefndar (hér tel ég kennarann líka með) og 13 af þeim eru á fleiri en einum lista. Þær kvikmyndir sem eru á tveimur listum eru 10 en þær eru Dead Man, American Beauty, The Royal Tenenbaums, Mallrats, Oldboy, The Rocky Horror Picture Show, The Lord of the Rings þríleikurinn, Forrest Gump, Suspiria og Sin City. Síðan mætti líka nefna Lion King, en hún er á listanum hans Árna og í upphafi færslu Gísla um myndina segir hann að hún sé ein af hans uppáhalds myndum, en Gísli er því miður ekki enn búinn að gera topp 10 lista (furðulegt miðað við hvað hann er duglegur að blogga). Þrjár myndir eru á þremur listum, en þær eru Love Actually, Pulp Fiction (jee!) og Fight Club. Sú síðastnefndna er í fyrsta sæti á tveimur listum og í öðru sæti á einum svo að það mætti kannski kalla hana uppáhalds mynd kvikmyndargerðaráfangans, en það er þó fullmikið að fullyrða slíkt þar sem, eins og áður segir, aðeins 11 nemendur búnir að gera lista og sumir af þeim eru í engri sérstakri röð eða ókláraðir. Hver veit t.d. hvort Pulp Fiction sé á toppnum á listanum hennar Írisar sem mundi þá skjóta henni yfir Fight Club, en við höfum bara fengið að vita um 6.-10. uppáhalds myndir hennar. Aðeins einn nemandi var með lista af myndum sem voru eingöngu á þeim lista, en það var Jóhanna, sem gæti þýtt að hún sé með lélegasta smekkinn af okkur eða þann sérstæðasta.

Þegar ég var að skoða þessa lista taldi ég 31 mynd sem ég var búinn að sjá. Ég var búinn að sjá hlutfallslega flestar af listum Ragnars (4/5) og Helgu (8/10). Enginn listi samanstóð bara af myndum sem ég hafði ekki séð (þó að ég viðurkenni að hafa horft einu tvær myndirnar sem ég hafði séð á listanum hans Sigga Palla í skólanum). Þar sem myndirnar sem voru nefndar eru tæplega hundrað og ég hef séð tæplega þriðjung þeirra, gefur auga leið að það er heilmikið af góðum myndum sem ég á eftir að sjá og samnemendur mínir eru alveg eins marktækir kvikmyndagagnrýnendur og hver annar þannig að ég ákvað að horfa á að minnsta kosti eina mynd sem ég hafði ekki séð af hverjum lista í jólafríinu. Í þessari færslu ætla ég að skrifa aðeins um þessar myndir og spyrja mig hvort þær stóðu væntingar og þar sem meira er, hvort þær eigi mögulega séns á að komast á topp 10 listann minn! Hljómar nógu galið til að virka (hljómar reyndar ekkert galið) og ég hef líka gaman að skrifa færslur með fyrirfram settum takmörkunum.


Anna, Íris og Árni: Love Actually

Þessi mynd er í sama klassa og Pulp Fiction og Fight Club skv. tölfræðinni, en finnst mér hún jafn góð og þær? Nei. Ekki það að hún sé léleg. Hún í rauninni uppfyllti allar eftirvæntingar sem ég hafði til hennar. Þetta er þessi klassíska rómantíska gamanmynd með Hugh Grant, það er alveg orðið sér genre út af fyrir sig, og hann er alveg jafn bresklega vandræðalegur og hann er alltaf. Hann er þó ekki í aðalhlutverki, en myndin fjallar um nokkra aðskildar persónur sem síðan tengjast allar saman í lokasenunni. Það var viðeigandi að horfa á hana á Þorláksmessu enda gerist hún fimm vikurnar fyrir jól og er klímaxið sjálft á aðfangadag. Þetta er fínasta feel-good mynd og ástin sigrar allt í lokin og maður getur ekki annað en hrifst af síðasta tónlistar montage atriðinu.
Topp 10 kandídat: Nei. Kæmist ekki einu sinni á topp 100 (sorrí krakkar). Samt fín mynd.
















Helga og Birta: The Royal Tenenbaums

Ég hafði séð hluta af þessari mynd einu sinni en nennti ekki að klára hana. Mér fannst myndin einhvern veginn reyna of mikið að vera öðruvísi að ég gat ekki tekið henni trúverðugri. Það var samt um það leyti sem hún kom út og hefur mikið set runnið til sjávar síðan þannig ég gaf henni annan séns. Ég sé alls ekki eftir því. Myndin er vissulega mjög “öðruvísi” en það er mjög vel leyst af hendi og þetta er fyrst og fremst svona karakter-mynd. Hellingur af áhugaverðum og ólíkum persónum eru settar undir sama þak og síðan er bara séð hvað gerist. Þar af leiðandi stendur þessi mynd og fellur dálítið með leikurunum en sem betur fer er valdur maður í hverjum stað og finnst mér Gwyneth Paltrow og Gene Hackman vera skemmtilegust. Paltrow leikur þunglynt leikskáld og flytur alla línurnar sínar alveg deadpan án blæbrigða á meðan Hackman leikur algjöran plebba sem heldur að hann sé snillingur. Virkilega góð mynd um fjölskyldu sem er við það að hrynja, svört kómedía eins og þær gerast bestar. Með því að hafa horft á þessa mynd hef ég séð 9 af 10 myndunum á listanum hennar Helgu og aðeins Virgin Suicides er eftir. Kannski maður tékki á henni á næstunni til að fullkomna listann…
Topp 10 kandídat: Neeeeii, mundi ekki alveg segja það. Samt virkilega góð mynd.


Héðinn og Siggi Palli: Dead Man

Þessi mynd fjallar um endurskoðandann William Blake sem drepur mann í sjálfsvörn og er eftirlýstur sem morðingi, síðan er hann eltur af hausveiðurum á meðan hann reikar um stefnulaust ásamt indjánanum Nobody. Ég hafði miklar væntingar áður en ég sá þessa mynd, hún var á listanum hjá tveimur mikilsvirtum mönnum, Héðni Finnssyni og sjálfum kennaranum Sigga Palla. Þar að auki finnst mér hin Jim Jarmusch myndin á listanum hans Héðins, Ghost Dog, vera virkilega góð, og Johnny Depp í aðalhlutverki er líka oft góður vísir á góða mynd. Því miður, þá fannst mér hún ekki standast þær væntingar sem ég hafði fyrir henni og í rauninni fannst mér hún bara ekkert góð. Ég höndla alveg myndir þar sem ekkert gerist, ég sá Eraserhead fyrir nokkrum dögum og fannst hún mjög góð (ekki það að þetta séu eitthvað svipaðar myndir), ef efniviðurinn í myndinni mundi vera áhugaverður þá hefði hún alveg getað verið góðir, en ég er ekki á þeirri skoðun. Persónurnar fannst mér lítt spennandi, sérstaklega fannst mér fannst indjáninn vera léleg tilraun til þess að búa til skrýtna persónu sem maður á að steinfalla fyrir. Tónlistin sem samanstendur öll af angurværum blús-skotnum gítar-riffum spiluðum af Neil Young fannst mér ekkert sérstök, en hún spilar mjög stórt hlutverk í myndinni.
Mér fannst myndin byrja mjög vel, þegar Blake fer á staðinn þar sem hann hélt að hann ætti að fara að vinna á og síðan þegar hann hittir konuna sem stuttu síðar deyr í fanginu hans, eftir það tók myndin mjög óvænta og langdregna stefnu þar sem Blake og Nobody reika endalaust um lendurnar og samtölin þeirra eru frekar skrýtin (lesist: leiðinleg) og það eina sem lífgar upp á ferð þeirra, og kallið mig Hollywood-heilaþveginn, er þegar Blake drepur einhvern. Það er ekki hægt að kvarta yfir leiknum í myndinni, sem var allur til fyrirmyndar. Ég er svo sem ekki mikill vestra-maður, hef séð örfáa þannig að ég kannski skil ekki hvernig Jarmusch er að snúa út úr gömlum vestrahefðum, síðan er ég ekki heldur fróður um ljóðskáldið William Blake (satt að segja hélt ég að hann væri bara uppskáldaður í myndinni þangað til ég fór að lesa mér aðeins til um hana) þannig að allar tilvísanir í hann hittu ekki í mark. Myndinni hefur verið lýst sem póst-módernískum vestra, sem mér finnst alveg vera viðeigandi þar sem allt sem er skellt undir það óskilgreinanlega hugtak finnst mér óskiljanlegt og leiðinlegt.
Topp 10 kandídat: Nei. Og kids, ekki láta mig horfa á hana aftur á föstudaginn!

Sicko er samt ekki á listanum hans Jóa.
Jóhanna: Sicko

Fólk getur fundist það sem það vill um Michael Moore en ég held að fáir geta ekki verið sammála um að hann er góður kvikmyndargerðarmaður. Áður en ég sá þessa hafði ég séð Bowling for Columbine og Fahrenheit 9/11 og fundist báðar myndirnar góðar en stundum fannst mér hann ganga of langt til þess að láta myndefnið snúast sér í hag. Ég t.d. sá myndina Fahrenhype 9/11 á ókeypis sýningu í Háskólabíó og var hún afar áhugaverð (en þó miklu verri en Fahrenheit 9/11, enda miklu lélegri kvikmyndagerðarmenn á bakvið myndavélina). Viðtalið hans við Charlton Heston í Bowling for Columbine og þegar hann hugsar upphátt fyrir Bush þegar hann frétti af hryðjuverkaárásunum á WTC fannst mér Moore ganga of langt. Þessi mynd, Sicko, fannst mér þó vera laus við allar slíka hagræðingar og finnst mér hún eiginlega sú besta af þeim fjórum myndum sem ég hef séð eftir Moore (sú sem ég hef ekki nefnt er The Big One). Í staðinn fyrir að vera í einhverju attack-mode gegn einhverjum forstjórum og stjórnmálamönnum þá einbeitir hann sér frekar að almúgamanninum og finnst mér sú aðferð virka mun betur, a.m.k. fyrir þetta umfjöllunarefni. Moore nær að búa til margar litlar sögur úr myndefninu sínu (ólíkt t.d. Cats of Mirikatani þar sem öll myndin var saga eins manns) og síðan flétta þær allar saman í endann. Þessi mynd stendur manni þó ekki mjög nærri hjarta þar sem hún fjallar bara um heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum og hversu gallað það er. Þrátt fyrir það fékk hún mig til þess að hugsa um hvað það er fáránlegt og ætli það hafi ekki verið markmiðið hans með þessari mynd.
Topp 10 kandídat: Spá í að slaka. Mér finnst einhvern veginn frekar skrýtið að hafa heimildarmynd í topp 10 listanum, þær lúta öðrum lögmálum en kvikmyndir finnst mér. Dálítið eins og að hafa stuttmynd á topp 10 listanum, það er bara allt annað dæmi. En allavega.


Haraldur: Gattaca

Þessi mynd er dálítið hvíti hrafninn á listanum hans Pryppa þar sem hann kemur manni ekki fyrir sjónir sem mikill sci-fi maður. Þess vegna langaði mig mjög mikið til þess að sjá þessa mynd. Söguþráður myndarinnar finnst mér vera mjög frumlegur og fær mann vissulega til að hugsa. Myndin gerist á hálfgerðri útópíu þar sem örlög allra manna eru ráðin við fæðingu með einhvers konar genagreiningu og aðalpersónan hefur ekki genin til þess að verða lánsamur í lífinu… eða hvað? Myndin flæðir einstaklega vel og aldrei vonar maður hún að hún fari ekki að verða búin. Myndin nær að vera mjög raunsæ þó að allt umhverfið sé mjög framandi. Maður tekur voða lítið eftir öðrum hlutum í myndinni eins og frammistöðu leikaranna enda er aðaláherslan lögð á söguna. Útlitið í myndinni er reyndar allt mjög flott og ég hefði alveg getað trúað því að myndin hafi verið gerð 2009 en ekki 1997.
Topp 10 kandídat: Kannski ekki alveg, en algjörlega á topp 10 vísindaskáldsögumynda sem ég hef séð.


Tryggvi: Die Hard

Ég ákvað að horfa á Die Hard af þeim myndum sem ég hafði ekki séð á listanum hans Tryggva þar sem hún gerist á jólunum og þar að auki skrifaði ég um hana í fyrstu færslunni minni, þannig að ég er nokkurn veginn að slá flugur í einu höggi með að horfa á hana. Ég hafði séð einhver atriði úr Die Hard fyrir þannig að ég vissi alveg að hverju ég var að ganga að. Ég varð alls ekki fyrir vonbrigðum. Þessi mynd gefur manni allt sem maður býst við af alvöru spennumynd, hellingur af drápum, sprengingum og einn rosalegan harðnagla, sjálfan John McClane. Ég var spenntur allan tímann þó ég vissi vel að McClane kallinn mundi alveg komast út úr öllum óförunum á lífi, enda eru til alveg þrjár framhaldsmyndir á eftir þessari. Algjör klassík.
Topp 10 kandídat: Nei, samt awesome.


Ragnar: Braveheart

Þessa mynd hefur maður nú heyrt mikið um og mikið vitnað í hana en aldrei hef ég látið verða af því að horfa á hana, aðallega vegna þess að ég hafði engan sérstakan áhuga á því. Braveheart var þó eina myndin á listanum hans Ragga sem ég var ekki búinn að sjá þannig að ég neyddist til að horfa á hana og ég verð að segja að mér fannst hún skelfileg. Ég nokkurn veit ekki hvar ég á að byrja, myndatakan og öll tæknileg atriði eru mjög flott en þar með eru öll jákvæðu atriðin upptalin við myndina að mínu mati. Myndin er víst reyndar rosalega sögulega ónákvæm, en mér finnst skipta nákvæmlega 0% máli enda er verið að gera kvikmynd ekki fræðslumyndband. Ef þetta væri hins vegar heimildarþáttur með meistara Simon Schama mundi krefjast þess að hann væri sögulega nákvæmur.
Ég náði engri tengingu við aðalpersónuna og sérstaklega fannst mér ástarsamband hans við draumakonu sína í byrjun myndarinnar ósannfærandi og væmið (og ekki væmið á góðan hátt eins og Titanic). Tónlistin er mikið svona þjóðleg skosk tónlist sem virkar líka ótrúlega væmin og kjánaleg. Síðan er myndin bara fyrst og fremst leiðinleg og ég var bara að bíða eftir því að hún mundi ljúka síðasta klukkutímann. Þó gef ég myndinni það að línan “They can take our lives, but they’ll never take… OUR FREEDOM!!!” fær alveg 10 á epík-skalanum.
Topp 10 kandídat: Vægast sagt, nei.

Bónus: Björn Ívar er víst búinn að gera lista núna. Beila bara á honum.

þriðjudagur, 10. mars 2009

Ofurhetjumynda-extravaganza, annar hluti

Þá er komið að seinni hlutanum...uhh... ég meina ÖÐRUM hlutanum af ofurhetjumynda-extravaganza færslunni minni. Ég ætlaði fyrst að bomba seinni hlutanum stuttu á eftir þeim fyrri en síðan dróst það eitthvað á langinn og BAMM það eru komnar þrjár nýjar ofurhetjumyndir sem ég á eftir að sjá (The Spirit, Punisher: War Zone og... wait for it... WATCHMEN!!!). Þannig að ég ákvað að splitta frekar þessari ofurhetju í þrjá hluta og taka 2008-2009 fyrir í síðustu færslunni í þessum epíska þríleik. Síðan spilar auðvitað inn í að maður vill nú fá sem flest stig fyrir orðin sem maður skrifar, ætla ekkert að leyna því. Ég veit að Maggi er (því miður) hættur að gefa Maggastig en ég ætla að halda því áfram í samræmi við fyrstu færsluna. Jæja, við höldum bara áfram þaðan sem ég skildi ykkur eftir síðast og fyrsta myndin sem ég fjalla um í þessari færslu er................

Batman Begins (2005, DC)
Hér er komin fyrsta virkilega góða ofurhetjumyndin síðan tæknibrellur byrjuðu að geta gert hvað sem handritshöfundum duttu í hug, ekki það að þessi mynd reiði sig rosalega mikið á tæknibrellur. Ég horfði á Batman myndirnar eftir Tim Burton og Joel Schumacer í jólafríinu og það verður að segjast að í þeim myndum þá var Batman ekki þessi myrki riddari sem hann á að vera. Í Burton myndunum var hann nokkuð góður en frekar mikill pussi og í Schumacer myndunum var hann eins og skrípó karakter. Svo ekki sé talað um Batman þættina frá sjöunda áratugnum sem var nokkurs konar spæjaraþáttur með tveimur gæjum í asnalegum búningum í aðalhlutverki. Í Batman Begins er Batman nákvæmlega eins og hann á að vera, myrkur og dularfullur. Í staðinn fyrir að romsa áfram um myndina bendi ég á færslu Ingós síðan í fyrra en hún tjáir nokkurn veginn allt það sem mér finnst um myndina og gott betur.

Bullshit faktor: 1/10
Töffarastig: 10/10
FOKKING BATMAN
Tryggðarstig: 9/10

Maggastig: (x-7)(x+4)
Einkunn: 9/10


Fantastic Four (2005, Marvel)
Fantastic Four er fyrst og fremst bara hress og skemmtileg mynd. Ekki er mikið fókuserað á sálar angist aðalpersónanna og frekar er lagt upp úr húmor og gamansemi. Fantastic Four eru líka dálítið þannig, ég hef reyndar bara lesið eina stutta myndasögu um Fantastic Four og hún var mjög tilfinningaþrungin og svo umdeild að Marvel reyndi að hindra útgáfu hennar, en það er önnur saga. Þessir karakterar eru skondnir og svo “týpískir” eitthvað, einn gæji sem getur teygt geðveikt mikið úr sér, einn gæji sem getur kveikt í sér og flogið, stelpa sem er ósýnileg sem kallast einmitt “Invisible Girl” og svo er það líklega áhugaverðasti karakterinn “The Thing” sem er úr steini. Skemmtilegast er samband The Thing og Human Torch sem eru algjörir odd couple og býður upp á skemmtileg atvik. Leiðinlegast er samband Mr. Fantastic og Invisible Girl, segir sig kannski sjálft. Ég var hræddur um hvernig einn allra allra svalasti óþokki í heimi, Dr. Doom, mundi koma út. Julian McMahon er engan veginn nógu svalur og illur til þess að púlla Dr. Doom almennilega, en ég get ekki ímyndað mér neinn sem gæti það þó. Mörg atriði í myndinni, sérstaklega atriðin þar sem fereykið er að vinna að einhverju saman, eru eitthvað svo kjánaleg að manni finnst eins og þau ættu að vera í Hanna-Barbera teiknimynd. Fantastic Four olli mér þó ekki vonbrigðum þar sem hún var nákvæmlega eins og ég bjóst við, ágætis snakk sem skilur lítið eftir sig. Ekkert að því.

Bullshit faktor: 4/10
Töffarastig: 3/10
Þau skrifast öll á Dr. Victor von Doom. Ekki vegna þess að Julian McMahon hafi verið svo góður Doom, heldur því DOOM er svo geðveikt svalur karakter.
Tryggðarstig: 6/10
Maggastig: googolplex
Einkunn: 5/10


X-Men: The Last Stand (2006, Marvel)
Bryan Singer leikstýrði fyrstu tveimur X-Men myndunum og fékk mikið hrós fyrir, en þegar kom að leikstýra þriðju myndinni um stökkbreytingana góðu þá ákvað hann frekar að leikstýra um mynd um aðra miklu þekktari ofurhetju, nefnilega Superman Returns. Þá var fenginn Brett Ratner til þess að leikstýra myndinni, en hann er þekktastur fyrir Rush Hour trílógíuna. Þessi mynd er almennt talin standa hinum að baki, en mér finnst hún betri. Áhugaverðast er konseptið sem myndin snýst um, búið er að finna upp á efni sem breytir stökkbreytingum í venjulegt fólk. Sögurnar um X-Men snúast mikið um það að stökkbreytingar eigi að hafa sömu réttindi og annað fólk og komið fram við það sem jafningja, en þegar þeim býðst að verða venjulegt fólk eiga þeir að taka því? Bardagaatriðin er mjög góð, skemmtilegir nýjir karakterar kynntir sögunnar og ekki er hikað við að láta sumar aðalpersónur deyja, en það er alltaf gaman. Kelsey Grammer er mjög skemmtilegur sem séntilmennið og ófreskjan Beast og ég vissi ekki að hann léki í myndinni fyrr en ég sá credit listann, enda í gríðarlegu miklu make-uppi. Virkilega góð spennumynd með skemmtilegum pælingum og rosalegu final showdown atriði.

Bullshit faktor: 6/10
Töffarastig: 7/10
Skrifast flest á Kelsey Grammer sem Beast
Tryggðarstig: Pass
Maggastig: (54-36)/0
Einkunn: 8/10


Superman Returns (2006, DC)
Myndin sem Bryan Singer leikstýrði í staðinn fyrir X-Men: The Last Stand. Ég hef ekki séð upprunalegu Superman seríuna en þessi mynd er eiginlegt framhald fyrstu tveggja þeirra. Mér hefur aldrei fundist Superman vera það áhugaverður karakter, hann er eitthvað svo gallalaus. Clark Kent er líka enginn Bruce Wayne eða Tony Stark. Eins og Óskar Jóhannesson talaði um þegar hann til okkar, þá þarf alltaf að vera einhver “konfliktur” svo að saga sé þess virði að segja hana. Í þessari mynd er fókuserað á samband Clark Kent og Lois Lane, en Lane er gift einhverjum öðrum gæja eftir að Clark Kent hvarf sporlaust í 5 ár (og Superman líka á nákvæmlega sama tíma!). Það er nokkuð vel unnið úr efninu og myndin er alls ekki jafn action-packed og maður bjóst við, það eru í raun engin bardagaatriði. Vondi kallinn er nefnilega snillingurinn Lex Luthor sem berst með hugvitinu frekar en kröftum. Kevin Spacey er virkilega flottur sem Luthor og maður bíður í rauninni bara eftir næsta Luthor atriði á meðan ástarþríhyrningurinn er í gangi hjá Kent og félögum. Reyndar er ástarsagan alveg fín. Superman er leikinn af kappa sem heitir Brandon Routh sem var algjörlega óþekktur áður en hann fékk hlutverkið þannig að Daredevil-syndrómið er víðs fjarri þar sem maður trúir því frekar að hann sé Superman, en ekki bara leikari í Superman búningi. Myndin er frekar góð, ekki týpísk ofurhetjumynd þó, meiri ástardrama en gengur og gerist í þannig myndum, en Superman hefur alltaf snúist mikið um samband Lois og Clarke, enda eini raunverulega áhugaverði vinkillinn á Superman.

Bullshit faktor: 1/10
Töffarastig: 5/10
Öll á Spacey
Tryggðarstig: 8/10
Maggastig: 123456789

Einkunn: 7/10


Ghost Rider (2007, Marvel)
Ég vildi virkilega að þessi mynd yrði góð því á blaði virkar hún eins og algjört stórslys. Ghost Rider/Johnny Blaze er sem sagt ofurhetja sem seldi sál sína djöflinum, keyrir um á mótorhjóli og hefur hauskúpu í staðinn fyrir höfuð, nefndi ég að hann stendur alltaf ljósum logum og líka mótorhjólið hans? Til að toppa þetta allt saman þá leikur Nicolas Cage aðalhlutverkið. Ekki það að Cage er einhver skelfilegur leikari, en hann að leika ofurhetju er ekki mjög sannfærandi, sérstaklega þar sem hann er orðinn meira en miðaldra núna. Ég vildi virkilega að þessi mynd mundi koma mér á óvart og væri algjör snilld, óslípaður demantur sem gagnrýnendur einfaldlega föttuðu ekki. En, því miður, þá sökkar hún feitan babar. Nick Cage er ekki nógu góður sem Johnny Blaze og Ghost Rider sjálfur er ekki að gera sig á hvíta tjaldinu, sérstaklega er hauskúpan mjög augljóslega tölvugerð. Plottið snýst um skratta og púka sem ætla að taka yfir heiminum en Ghost Rider bjargar síðan öllu fyrir horn. Það eina góða við myndina er hlutir sem snúast að fortíð Johnny Blaze og dramað í kringum samband Nick Cage og Evu Mendes, en það er eini hluti myndarinnar sem snýst ekki um yfirnáttúrulega hluti. Lexían sem kvikmyndagerðarmenn eiga að draga af Ghost Rider er að sumar ofurhetjur eiga bara á heima í myndasögunum, Ghost Rider er bara of svalur fyrir silverscreenið.

Bullshit faktor: 10/10 Já já já já!
Töffarastig: 9/10 Kommon! Mótorhjól! Satan! Eldur! Hauskúpur! Fokking Nicolas Cage!
Tryggðarstig: Pass
Maggastig: e

Einkunn: 3/10


Spider-Man 3 (2007, Marvel)
Þessi mynd var ekki talin halda standardnum sem var á tveimur fyrri Spider-Man myndunum, en fyrir mitt leiti fannst mér hún vera stórgóð. Hún er mjög kjánaleg og stundum aðeins stærri en hún getur höndlað. Í þessari er mynd er Peter Parker orðinn mjög hrokafullur og handviss um eigið ágæti því allir elska Spider-Man svo mikið. Úff, ég pældi í að segja eitthvað meira frá plottinu en það er svo flókið eitthvað að ég meika það ekki. En í þessari mynd eru yfirnáttúrulegir hlutir kannaðir og það hefur kannski truflað fólk. Myndin fylgir þó söguþræði sem var upprunalega í myndasögunum þannig að fólk getur ekki kvartað yfir því hvað myndin sé með fjarstæðukennt plott því þannig eru myndasögurnar sem myndirnar eru gerðar eftir. Tæknibrellurnar eru virkilega flottar, þó ég þurfi varla að taka það fram. Það skemmtilegasta við þessa mynd var þó Peter Parker og ég ætla að henda inn einni youtube klippu af mjög furðulegu atriði, nokkurs konar töffara-dans atriði sem sprettur upp úr engu og hefur örugglega komið fólki í opna skjöldu þar sem þetta er nú bara Spider-Man mynd, ég og Héddi Finns erum þó sammála um að þetta sé meistaraleg snilld. Misskilin mynd og jafnvel sú besta í Spider-Man seríunni.



Bullshit faktor: 9/10 Mjög hár bullshit faktor hefur líklega átt hlut sinn í að myndinni var ekki sérstaklega vel tekið.
Töffarastig: 7/10 Peter Parker er nefnilega töff í þessari mynd, annað en í hinum tveimur.
Tryggðarstig: Pass. En söguþráðurinn er samt byggður á sögu úr upprunalegu myndasögunum.
Maggastig: F(x)=23/8x^3, f(x)=?
Einkunn: 8/10

Fantastic Four: Rise of the Silver Surfer (2007, Marvel)
Fantastic Four var hress og skemmtileg á köflum og reynt er að halda áfram á sömu braut í þessari. Söguþráðurinn ber þó myndina ofurliði, sérstaklega allt tengt Silver Surfer karakternum. Þó má skemmta sér yfir skemmtilega kjánalegum línum eins og þegar Human Torch neyðist til í að kveikja í sér þegar hann var klæddur í fín jakkaföt og segir “Oh man, this is Dolce!”. Gaman að þessu. Silver Surfer er geimvera sem á að eyða jörðinni en hættir síðan við og verður góður og yada yada yada. Hæfilega mikið af væmnum atriðum um ást og vináttu. Hasar atriðin eru fín. Dr. Doom mætir aftur. Ég veit ekki hvað ég á að segja meira um þessa mynd því hún var nokkurn veginn alveg eins og ég ímyndaði mér. Enda var það líklega markmið framleiðandanna. Fínasta skemmtun svo sem.

Bullshit faktor: 7/10 Silfurbrimbrettakappinn fær þessi.
Töffarastig: 2/10 Ekki einu sinni Doom nær að krækja sér í fleiri en tvö.
Tryggðarstig: Pass.
Maggastig: googol^0,000000000000000000000000002346374

Einkunn: 4/10


Bónus:
Zebraman (2004)
Þessi mynd er dálítið á skjön við hinar þar sem hún er ekki byggð á neinum karakter frá myndasögurisunum tveimur, Marvel og DC. Ekki nóg með það þá er hún japönsk en allar hinar bandarískar. Hún er líka örlítið úr takti við þessa færslu þar sem hún kom út árið 2004 en þessi færsla fjallar um ofurhetjumyndir frá 2005 til 2007. Þrátt fyrir það ætla ég að fjalla um hana enda nýbúin að sjá hana og hélt þar að auki hressan fyrirlestur um leikstjóra hennar Takashi Miike ásamt Poppé glens, Suðu-Héðni og Magga uni. Siggi Palli mældi síðan með henni þegar hann gaf fyrri færslunni einkunn. Þessi mynd fjallar sem sagt um kennara sem lifir hálf sorglegu lífi en elskar gamla ofurhetjuþætti um Zebraman sem voru cancellaðir eftir aðeins 14 þætti. Þegar hann fer út úr húsi í heimagerða Zebraman búningnum sínum þá fær hann, sér til mikillar furðu, ofurkrafta. Síðan fer söguþráðurinn mjög sérstakar leiðir sem tengjast krúttlegum geimverum og dularfullum spádómum. Mér fannst myndin mjög skemmtileg í byrjun og Zebraman er alveg dásamlega glötuð ofurhetja. Eftir því sem leið á myndina missti maður þráðinn smátt og smátt og endirinn var algjör vitleysa. Plottið er þó mjög frumlegt og fær Miike prik fyrir það, einnig er cinematografían góð en þó er myndin aðeins of löng fannst mér. Þessi mynd var þó frábrugðin öðrum ofurhetjumyndum sem ég hef séð og því var alveg þess virði að sjá hana.

Bullshit faktor: 6/10
Töffarastig: 2/10
Tryggðarstig: Pass.
Samt ekki beint 'pass' því Zebraman er ekki byggð á myndasögum.
Maggastig: i^2

Einkunn: 6/10