þriðjudagur, 24. mars 2009

Myndir af Topp 10 listum kvikmyndagerðarkrakkana (Jei!)

Smá athugasemd í byrjun, en þessi færsla er skrifuð á alveg þriggja mánaða tímabili (þó aðallega í desember) þannig að kannski er sumt sem er fullyrt í henni ekki alveg rétt en ég nenni ekki að vera breyta einhverjum litlum smáatriðum. Njótið.

Klassískt vandamál sem allir kvikmyndaáhugamenn standa einhvern tímann fram í fyrir við er: “Hvaða mynd á ég að horfa á næst?”. Ég einmitt glímdi við þetta lúxusvandamál um daginn og ákvað að tékka á topp 10 listunum hjá okkur krökkunum í kvikmyndagerð til þess að fá hugmyndir um hvaða mynd ég ætti að horfa á. Síðan fór ég að stúdera listana aðeins betur og ýmislegt skemmtilegt kom í ljós, ég læt nokkrar tölfræðilegar staðreyndir fylgja þar sem ég hef svo gaman að slíku.

Það eru 23 nemendur í áfanganum en aðeins 11 nemendur hafa skilað frá sér lista af uppáhalds kvikmyndum í einhverju formi. 97 kvikmyndir eru nefndar (hér tel ég kennarann líka með) og 13 af þeim eru á fleiri en einum lista. Þær kvikmyndir sem eru á tveimur listum eru 10 en þær eru Dead Man, American Beauty, The Royal Tenenbaums, Mallrats, Oldboy, The Rocky Horror Picture Show, The Lord of the Rings þríleikurinn, Forrest Gump, Suspiria og Sin City. Síðan mætti líka nefna Lion King, en hún er á listanum hans Árna og í upphafi færslu Gísla um myndina segir hann að hún sé ein af hans uppáhalds myndum, en Gísli er því miður ekki enn búinn að gera topp 10 lista (furðulegt miðað við hvað hann er duglegur að blogga). Þrjár myndir eru á þremur listum, en þær eru Love Actually, Pulp Fiction (jee!) og Fight Club. Sú síðastnefndna er í fyrsta sæti á tveimur listum og í öðru sæti á einum svo að það mætti kannski kalla hana uppáhalds mynd kvikmyndargerðaráfangans, en það er þó fullmikið að fullyrða slíkt þar sem, eins og áður segir, aðeins 11 nemendur búnir að gera lista og sumir af þeim eru í engri sérstakri röð eða ókláraðir. Hver veit t.d. hvort Pulp Fiction sé á toppnum á listanum hennar Írisar sem mundi þá skjóta henni yfir Fight Club, en við höfum bara fengið að vita um 6.-10. uppáhalds myndir hennar. Aðeins einn nemandi var með lista af myndum sem voru eingöngu á þeim lista, en það var Jóhanna, sem gæti þýtt að hún sé með lélegasta smekkinn af okkur eða þann sérstæðasta.

Þegar ég var að skoða þessa lista taldi ég 31 mynd sem ég var búinn að sjá. Ég var búinn að sjá hlutfallslega flestar af listum Ragnars (4/5) og Helgu (8/10). Enginn listi samanstóð bara af myndum sem ég hafði ekki séð (þó að ég viðurkenni að hafa horft einu tvær myndirnar sem ég hafði séð á listanum hans Sigga Palla í skólanum). Þar sem myndirnar sem voru nefndar eru tæplega hundrað og ég hef séð tæplega þriðjung þeirra, gefur auga leið að það er heilmikið af góðum myndum sem ég á eftir að sjá og samnemendur mínir eru alveg eins marktækir kvikmyndagagnrýnendur og hver annar þannig að ég ákvað að horfa á að minnsta kosti eina mynd sem ég hafði ekki séð af hverjum lista í jólafríinu. Í þessari færslu ætla ég að skrifa aðeins um þessar myndir og spyrja mig hvort þær stóðu væntingar og þar sem meira er, hvort þær eigi mögulega séns á að komast á topp 10 listann minn! Hljómar nógu galið til að virka (hljómar reyndar ekkert galið) og ég hef líka gaman að skrifa færslur með fyrirfram settum takmörkunum.


Anna, Íris og Árni: Love Actually

Þessi mynd er í sama klassa og Pulp Fiction og Fight Club skv. tölfræðinni, en finnst mér hún jafn góð og þær? Nei. Ekki það að hún sé léleg. Hún í rauninni uppfyllti allar eftirvæntingar sem ég hafði til hennar. Þetta er þessi klassíska rómantíska gamanmynd með Hugh Grant, það er alveg orðið sér genre út af fyrir sig, og hann er alveg jafn bresklega vandræðalegur og hann er alltaf. Hann er þó ekki í aðalhlutverki, en myndin fjallar um nokkra aðskildar persónur sem síðan tengjast allar saman í lokasenunni. Það var viðeigandi að horfa á hana á Þorláksmessu enda gerist hún fimm vikurnar fyrir jól og er klímaxið sjálft á aðfangadag. Þetta er fínasta feel-good mynd og ástin sigrar allt í lokin og maður getur ekki annað en hrifst af síðasta tónlistar montage atriðinu.
Topp 10 kandídat: Nei. Kæmist ekki einu sinni á topp 100 (sorrí krakkar). Samt fín mynd.
















Helga og Birta: The Royal Tenenbaums

Ég hafði séð hluta af þessari mynd einu sinni en nennti ekki að klára hana. Mér fannst myndin einhvern veginn reyna of mikið að vera öðruvísi að ég gat ekki tekið henni trúverðugri. Það var samt um það leyti sem hún kom út og hefur mikið set runnið til sjávar síðan þannig ég gaf henni annan séns. Ég sé alls ekki eftir því. Myndin er vissulega mjög “öðruvísi” en það er mjög vel leyst af hendi og þetta er fyrst og fremst svona karakter-mynd. Hellingur af áhugaverðum og ólíkum persónum eru settar undir sama þak og síðan er bara séð hvað gerist. Þar af leiðandi stendur þessi mynd og fellur dálítið með leikurunum en sem betur fer er valdur maður í hverjum stað og finnst mér Gwyneth Paltrow og Gene Hackman vera skemmtilegust. Paltrow leikur þunglynt leikskáld og flytur alla línurnar sínar alveg deadpan án blæbrigða á meðan Hackman leikur algjöran plebba sem heldur að hann sé snillingur. Virkilega góð mynd um fjölskyldu sem er við það að hrynja, svört kómedía eins og þær gerast bestar. Með því að hafa horft á þessa mynd hef ég séð 9 af 10 myndunum á listanum hennar Helgu og aðeins Virgin Suicides er eftir. Kannski maður tékki á henni á næstunni til að fullkomna listann…
Topp 10 kandídat: Neeeeii, mundi ekki alveg segja það. Samt virkilega góð mynd.


Héðinn og Siggi Palli: Dead Man

Þessi mynd fjallar um endurskoðandann William Blake sem drepur mann í sjálfsvörn og er eftirlýstur sem morðingi, síðan er hann eltur af hausveiðurum á meðan hann reikar um stefnulaust ásamt indjánanum Nobody. Ég hafði miklar væntingar áður en ég sá þessa mynd, hún var á listanum hjá tveimur mikilsvirtum mönnum, Héðni Finnssyni og sjálfum kennaranum Sigga Palla. Þar að auki finnst mér hin Jim Jarmusch myndin á listanum hans Héðins, Ghost Dog, vera virkilega góð, og Johnny Depp í aðalhlutverki er líka oft góður vísir á góða mynd. Því miður, þá fannst mér hún ekki standast þær væntingar sem ég hafði fyrir henni og í rauninni fannst mér hún bara ekkert góð. Ég höndla alveg myndir þar sem ekkert gerist, ég sá Eraserhead fyrir nokkrum dögum og fannst hún mjög góð (ekki það að þetta séu eitthvað svipaðar myndir), ef efniviðurinn í myndinni mundi vera áhugaverður þá hefði hún alveg getað verið góðir, en ég er ekki á þeirri skoðun. Persónurnar fannst mér lítt spennandi, sérstaklega fannst mér fannst indjáninn vera léleg tilraun til þess að búa til skrýtna persónu sem maður á að steinfalla fyrir. Tónlistin sem samanstendur öll af angurværum blús-skotnum gítar-riffum spiluðum af Neil Young fannst mér ekkert sérstök, en hún spilar mjög stórt hlutverk í myndinni.
Mér fannst myndin byrja mjög vel, þegar Blake fer á staðinn þar sem hann hélt að hann ætti að fara að vinna á og síðan þegar hann hittir konuna sem stuttu síðar deyr í fanginu hans, eftir það tók myndin mjög óvænta og langdregna stefnu þar sem Blake og Nobody reika endalaust um lendurnar og samtölin þeirra eru frekar skrýtin (lesist: leiðinleg) og það eina sem lífgar upp á ferð þeirra, og kallið mig Hollywood-heilaþveginn, er þegar Blake drepur einhvern. Það er ekki hægt að kvarta yfir leiknum í myndinni, sem var allur til fyrirmyndar. Ég er svo sem ekki mikill vestra-maður, hef séð örfáa þannig að ég kannski skil ekki hvernig Jarmusch er að snúa út úr gömlum vestrahefðum, síðan er ég ekki heldur fróður um ljóðskáldið William Blake (satt að segja hélt ég að hann væri bara uppskáldaður í myndinni þangað til ég fór að lesa mér aðeins til um hana) þannig að allar tilvísanir í hann hittu ekki í mark. Myndinni hefur verið lýst sem póst-módernískum vestra, sem mér finnst alveg vera viðeigandi þar sem allt sem er skellt undir það óskilgreinanlega hugtak finnst mér óskiljanlegt og leiðinlegt.
Topp 10 kandídat: Nei. Og kids, ekki láta mig horfa á hana aftur á föstudaginn!

Sicko er samt ekki á listanum hans Jóa.
Jóhanna: Sicko

Fólk getur fundist það sem það vill um Michael Moore en ég held að fáir geta ekki verið sammála um að hann er góður kvikmyndargerðarmaður. Áður en ég sá þessa hafði ég séð Bowling for Columbine og Fahrenheit 9/11 og fundist báðar myndirnar góðar en stundum fannst mér hann ganga of langt til þess að láta myndefnið snúast sér í hag. Ég t.d. sá myndina Fahrenhype 9/11 á ókeypis sýningu í Háskólabíó og var hún afar áhugaverð (en þó miklu verri en Fahrenheit 9/11, enda miklu lélegri kvikmyndagerðarmenn á bakvið myndavélina). Viðtalið hans við Charlton Heston í Bowling for Columbine og þegar hann hugsar upphátt fyrir Bush þegar hann frétti af hryðjuverkaárásunum á WTC fannst mér Moore ganga of langt. Þessi mynd, Sicko, fannst mér þó vera laus við allar slíka hagræðingar og finnst mér hún eiginlega sú besta af þeim fjórum myndum sem ég hef séð eftir Moore (sú sem ég hef ekki nefnt er The Big One). Í staðinn fyrir að vera í einhverju attack-mode gegn einhverjum forstjórum og stjórnmálamönnum þá einbeitir hann sér frekar að almúgamanninum og finnst mér sú aðferð virka mun betur, a.m.k. fyrir þetta umfjöllunarefni. Moore nær að búa til margar litlar sögur úr myndefninu sínu (ólíkt t.d. Cats of Mirikatani þar sem öll myndin var saga eins manns) og síðan flétta þær allar saman í endann. Þessi mynd stendur manni þó ekki mjög nærri hjarta þar sem hún fjallar bara um heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum og hversu gallað það er. Þrátt fyrir það fékk hún mig til þess að hugsa um hvað það er fáránlegt og ætli það hafi ekki verið markmiðið hans með þessari mynd.
Topp 10 kandídat: Spá í að slaka. Mér finnst einhvern veginn frekar skrýtið að hafa heimildarmynd í topp 10 listanum, þær lúta öðrum lögmálum en kvikmyndir finnst mér. Dálítið eins og að hafa stuttmynd á topp 10 listanum, það er bara allt annað dæmi. En allavega.


Haraldur: Gattaca

Þessi mynd er dálítið hvíti hrafninn á listanum hans Pryppa þar sem hann kemur manni ekki fyrir sjónir sem mikill sci-fi maður. Þess vegna langaði mig mjög mikið til þess að sjá þessa mynd. Söguþráður myndarinnar finnst mér vera mjög frumlegur og fær mann vissulega til að hugsa. Myndin gerist á hálfgerðri útópíu þar sem örlög allra manna eru ráðin við fæðingu með einhvers konar genagreiningu og aðalpersónan hefur ekki genin til þess að verða lánsamur í lífinu… eða hvað? Myndin flæðir einstaklega vel og aldrei vonar maður hún að hún fari ekki að verða búin. Myndin nær að vera mjög raunsæ þó að allt umhverfið sé mjög framandi. Maður tekur voða lítið eftir öðrum hlutum í myndinni eins og frammistöðu leikaranna enda er aðaláherslan lögð á söguna. Útlitið í myndinni er reyndar allt mjög flott og ég hefði alveg getað trúað því að myndin hafi verið gerð 2009 en ekki 1997.
Topp 10 kandídat: Kannski ekki alveg, en algjörlega á topp 10 vísindaskáldsögumynda sem ég hef séð.


Tryggvi: Die Hard

Ég ákvað að horfa á Die Hard af þeim myndum sem ég hafði ekki séð á listanum hans Tryggva þar sem hún gerist á jólunum og þar að auki skrifaði ég um hana í fyrstu færslunni minni, þannig að ég er nokkurn veginn að slá flugur í einu höggi með að horfa á hana. Ég hafði séð einhver atriði úr Die Hard fyrir þannig að ég vissi alveg að hverju ég var að ganga að. Ég varð alls ekki fyrir vonbrigðum. Þessi mynd gefur manni allt sem maður býst við af alvöru spennumynd, hellingur af drápum, sprengingum og einn rosalegan harðnagla, sjálfan John McClane. Ég var spenntur allan tímann þó ég vissi vel að McClane kallinn mundi alveg komast út úr öllum óförunum á lífi, enda eru til alveg þrjár framhaldsmyndir á eftir þessari. Algjör klassík.
Topp 10 kandídat: Nei, samt awesome.


Ragnar: Braveheart

Þessa mynd hefur maður nú heyrt mikið um og mikið vitnað í hana en aldrei hef ég látið verða af því að horfa á hana, aðallega vegna þess að ég hafði engan sérstakan áhuga á því. Braveheart var þó eina myndin á listanum hans Ragga sem ég var ekki búinn að sjá þannig að ég neyddist til að horfa á hana og ég verð að segja að mér fannst hún skelfileg. Ég nokkurn veit ekki hvar ég á að byrja, myndatakan og öll tæknileg atriði eru mjög flott en þar með eru öll jákvæðu atriðin upptalin við myndina að mínu mati. Myndin er víst reyndar rosalega sögulega ónákvæm, en mér finnst skipta nákvæmlega 0% máli enda er verið að gera kvikmynd ekki fræðslumyndband. Ef þetta væri hins vegar heimildarþáttur með meistara Simon Schama mundi krefjast þess að hann væri sögulega nákvæmur.
Ég náði engri tengingu við aðalpersónuna og sérstaklega fannst mér ástarsamband hans við draumakonu sína í byrjun myndarinnar ósannfærandi og væmið (og ekki væmið á góðan hátt eins og Titanic). Tónlistin er mikið svona þjóðleg skosk tónlist sem virkar líka ótrúlega væmin og kjánaleg. Síðan er myndin bara fyrst og fremst leiðinleg og ég var bara að bíða eftir því að hún mundi ljúka síðasta klukkutímann. Þó gef ég myndinni það að línan “They can take our lives, but they’ll never take… OUR FREEDOM!!!” fær alveg 10 á epík-skalanum.
Topp 10 kandídat: Vægast sagt, nei.

Bónus: Björn Ívar er víst búinn að gera lista núna. Beila bara á honum.

3 ummæli:

Siggi Palli sagði...

Skemmtilegt konsept og flott færsla. 10 stig.

Mér finnst pínu leiðinlegt að þér skuli ekki finnast Dead Man góð, en hún er alls ekki allra. Maður þarf kannski að fíla bæði Neil Young (sem ég dýrka) og póstmódernisma (sem ég hef mikið gaman af), til þess að virkilega fíla myndina.

Smá spurning með Gattaca. Var málið ekki að aðalpersónan var getin á hefðbundin hátt, meðan allir aðrir voru búnir til í tilraunaglasi eða klónaðir. Þannig að það var ekki það að hann hefði ekki genin til þess að vinna vinnuna sem hann var í, heldur var hann nokkurs konar útlagi og yfirvöld máttu ekki vita að hann væri til... Það er orðið soldið síðan ég sá hana, en svona man ég eftir henni...

andri g sagði...

Hann var ekki beint útlagi, hann var að þykjast vera náungi sem var með nánast fullkomin gen svo hann gæti farið út í geim og myndin gengur aðallega út á það að enginn mátti komast að því hver var hann var í raun og veru. Yfirvöldin máttu þannig alveg vita að hann væri til, bara ekki að hann væri að þykjast vera Jude Law.

Hugosson sagði...

Í gattaca var ekki bannað að geta börn með eðlilegum hætti, það var bara miklu meiri "áhætta" fólgin í því. Þegar hann fæðist kemur svo í ljós að hann er í áhættuhópi fyrir hjartagalla og eitthvað vesen sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir með genabreytingunum og þar af leiðandi er hann screwed for life.