laugardagur, 21. febrúar 2009

Óskarsverðlaunin: Spáð í spilin

Það er eiginlega síðasti séns fyrir mig að skrifa þessa færslu þar sem Óskarinn verður afhentur næsta kvöld. Ég hef aldrei verið einhver sérstakur Óskarsverðlaunaáhugamaður og þó að ég sjái einhverjar styttur á einhverju kvikmyndaplakati þá gera þær mig ekkert sérstaklega spenntari við að sjá einhverja tiltekna (verðlauna)mynd. Venjulega þegar Óskarinn er afhentur þá hef séð kannski eina mynd af þeim myndum sem eru tilnefndar til bestu myndar, síðan horfi ég venjulega á myndina sem vinnur einhverjum vikum eða mánuðum síðar, ef ég hafði ekki verið búinn að sjá hana fyrir. Hinum tilnefndu myndunum gleymi ég fljótlega. Nú hins vegar tók ég meðvitaða ákvörðun um að horfa á allar myndirnar sem eru tilnefndar og mynda mér skoðun á hvaða mynd ætti skilið að vinna og hvaða mynd ég held að vinni og svo framvegis. Ég tók þessa ákvörðun þó fullseint og mér gafst bara tími á að sjá myndirnar fimm sem eru tilnefndar sem bestu myndir, þannig að ég get t.d. lítið sagt um hverjir vinna verðlaun fyrir leik og þannig. En allavega, hér er mitt álit á þeim fimm myndum sem eru tilnefndar til bestu myndar á komandi Óskarsverðlaunahátíð.

Slumdog Millionaire
Þessa mynd hafði ég heyrt mest um áður en ég sá hana enda er hún búin að sópa að sér verðlaunum út um allan heim. Myndin er byggð á bókinni Viltu vinna milljarð? sem var mest selda bók á Íslandi tvö ár í röð, ekki snautt. Hún fjallar um einhvern götustrák sem kemst í Viltu vinna milljón? þáttinn í Indlandi og nær að svara öllum spurningunum og er að leita að stúlkunni sem hann er ástfanginn af og yadayadayada. Ég get talið upp margt sem er gott við myndina en ætla frekar að telja það sem mér fannst vera miður, enda skemmtilegra að lesa það. Í fyrsta lagi er aðalpersónan í myndinni ekkert sérstök, hún er eiginlega bara leiðinleg. Í rauninni eru flestar ef ekki allar persónurnar í myndinni með öllu óáhugaverðar og manni stendur of mikið á sama um þær en maður á að gera í mynd sem þessari. Söguþráðurinn er samanstendur aðallega af flashböckum af erfiðu lífi götustráksins og stundum er erfitt að finna þráðinn í gegnum allt þetta tímaflakk, sérstaklega þar sem þrír mismunandi leikarar leika þrjár aðalpersónur myndarinnar (þ.e. 9 leikarar leika 3 persónur) og stundum svissast tungumálið sem er talað á milli ensku og hindí. Mesti galli myndarinnar finnst mér þó hverju myndin á að láta áhorfandann trúa, þar sem rauði þráðurinn í gegnum myndina er það að götustrákurinn elskar þess stelpu og þeim var ætlað að vera saman, en það gerist oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að eitthvað í myndinni gerist sem mundi aldrei gerast í raunveruleikanum, hvort sem það eru ótrúlega ólíklegir atburðir eða ótrúlega ósannfærandi viðbrögð eða uppátæki hjá persónunum. Já, myndin er líka dálítið væmin. Einnig fannst mér vera dálítið fyndið að stúlkan skuli ekki hafa farið til piltsins fyrr en hann var búinn að vinna einhverja milljónir í spurningaleiknum, golddigger boðskapur hægri vinstri. Myndin fannst mér þó góð, sagan er falleg þó hún sé ótrúverðug, öll myndataka er til fyrirmyndar og tónlistarval einnig. Ekki veit ég hversu raunsæa mynd maður fær af indverskum stórborgum en það er þó annað umhverfi en í flestum myndum sem maður sér og það er alltaf gaman.
Óskarskandídat: Já. Ég er alveg 90% á því að hún fái Óskarinn fyrir bestu mynd.

The Curious Case of Benjamin Button
Svokölluð lífskeiðismynd þar sem fylgst er með áhugaverðu lífi eins manns frá fæðingu til dauða. Svipuð pæling og í Forrest Gump og Big Fish og fleiri myndum. Gimmickið við þessa mynd er að Benjamin fæðist gamall og verður síðan yngri með tímanum. Þetta er mjög fín mynd en skilur þó lítið eftir sig og það fer líka aðeins að halla undan henni þegar komið er á seinni helminginn, en myndin er í lengri kantinum. Pittarinn er drullugóður í aðalhlutverkinu og það er magnað að fylgjast með brellunum sem láta hann líta út fyrir að vera miklu eldri en hann er í raun og veru. Helsti galli þessarar myndar er hvað hún er eitthvað svo týpísk, línur eins og “That was the only time I saw a hummingbird so far at sea, before or since” hreinlega öskra “gefið mér Óskarsverðlaun!”. Megin saga myndarinnar er rammasaga sem er lesin af dóttur stóru ástarinnar í lífi Benjamins, leikin af Cate Blanchett, þar sem hún liggur á dánarbeðinu. Mér fannst allar senurnar sem gerast við dánarbeðið vera frekar tilgangslausar og ég held að myndin hefði verið betri ef þeim hefði einfaldlega verið sleppt. Ég sé þó ekkert eftir að hafa horft á þessa mynd enda var hún alveg ágæt.
Óskarskandídat: Ef Slumdog vinnur ekki þá vinnur þessi, svo einfalt er það. Þessi mynd er nánast færibandsóskarsverðlaunamynd.

Frost/Nixon
Félagi minn lýsti þessari mynd fyrir mér sem spennandi hasarmynd, nema bara með orðum. Það hljómar einstaklega áhugavert fyrir mig og ég var spenntastur að sjá þessa mynd af öllum fimm myndunum sem voru tilnefndar. Blessunarlega, þá olli hún ekki vonbrigðum. Myndinni er nokkurn veginn skipt þannig að fyrri hlutinn snýst um undirbúning David Frost fyrir viðtölin við Richard Nixon, og seinni hlutinn snýr að viðtölunum sjálfum. Ég vissi lítið sem ekkert um þessi viðtöl fyrir myndina og eflaust er á mörgum stöðum fært í stílinn eins og nauðsynlegt er til að gera kvikmynd skemmtilega. Frank Langella finnst mér fara á kostum sem Tricky Dick og öll samtöl í myndinni eru virkilega flott. Aðalkarekterar myndarinnar eru líklega áhugaverðir, en David Frost er í þeirri stöðu að reyna að vera tekinn alvarlega, en hann var aðallega þekktur sem skemmtikraftur, á meðan að Richard Nixon er að gera andstæðuna. Nixon var þekktur sem einstaklega þunglamalegur maður sem kom sér áfram með rökræðum frekar en kjörþokka, en í viðtölunum reynir hann sitt besta að vera viðkunnanlegur og heillandi svo fólk fyrirgefi honum Watergate-hneykslið. Ron Howard er voða mikill rúnkara-leikstjóri, það segir kannski eitthvað að myndirnar tvær sitthvorum megin við þessa á hans leikstjóraferli eru byggðar á bókum eftir Dan Brown. Í þessari mynd finnst mér hann þó ná að hemja tilfinningarúnkið og einfaldlega skapa einstaklega vel gerða mynd úr áhugaverðum efnivið. Vil endilega sjá meira svona frá honum.
Óskarskandídat: Nei, alveg >1% líkur að hún vinni, held ég, þó mér hafi fundist hún best af þeim fimm. Ég vona þó að hún vinni. Frank Langella gæti þó vel unnið fyrir besta leik í aðalhlutverki.

Milk
Þriðja myndin af tilnefningamyndunum sem er rammasaga og önnur sem er byggð á sögu bandarísks stjórnmálamanns. Harvey Milk var fyrsti samkynhneigði maðurinn sem komst í opinbert embætti í Bandaríkjunum og fjallar myndin um leið hans í borgarstjórn San Francisco og þangað til að hann var myrtur árið 1978 ásamt borgarstjóranum (þetta er ekki spoiler sko, þetta gerðist í alvöru). Þessi fannst mér næstbest á eftir Frost/Nixon. Harvey Milk er einstaklega viðkunnanlegur og trúverðugur karakter og Sean Penn er mjög góður í aðalhlutverkinu. Ég veit auðvitað ekkert hvort Penn nái Milk vel þar sem ég veit ekkert hvernig hann var í raunveruleikanum. Myndin er líka mjög skemmtileg, samband Milk við alla hommana sem eru alltaf að hanga í myndavélabúðinni hans er mjög skemmtilegt og einnig stóra ástarsambandið í myndinni. Maður fræðist líka dálítið um jafnréttisbaráttu samkynhneigðra (eða kannski frekar homma, en mjög lítið er um samkynhneigðar konur í myndinni) á þessum tíma. Það hefur verið kvartað yfir að myndin hoppar yfir ákveðna atburði í lífi Milks og bætir sumu við og blablabla, ég er á því að þegar verið er að gera bíómynd um eitthvað sögulegt þá er fyrst og fremst verið að gera bíómynd, ekki heimildarmynd. Milk er toppmynd.
Óskarskandídat: Nei, eins og ég segi, Slumdog eða Benjamin tekur þetta. Það er samt alveg Óskarsverðlaunabragur á myndinni. Síðan er spurning hvort Milk vinni til að bæta upp fyrir að Brokeback Mountain tapaði árið 2005.

The Reader
Mamma ætlaði á þessa mynd í bíó sem segir kannski meira en margt annað um þessa mynd. Þessi mynd er svona ástardrama sem miðaldra húsmæður í Vesturbænum fíla. Það þarf þó alls ekkert að vera slæmt enda var þessi mynd alls ekki slæm. Hún var eiginlega bara frekar góð. Myndin fjallar um strák sem verður ástfanginn af konu sem er tvisvar sinnum eldri en hann og síðan fer hún fyrir rétti þar sem hún er kærð fyrir stríðsglæpi sem hún framdi sem vörður í útrýmingarbúðum nastista svona eins og gengur og gerist. Myndin er rosalega átakanleg og mikið lagt upp úr dramatíkinni. Kate Winslet sýnir stjörnuleik og vona ég að hún fái Óskarinn fyrir besta leik í aðalhlutverki. Mér fannst þó endirinn vera fullteygður, þegar ég hélt að myndin væri að verða búin hélt hún samt alveg áfram í hálftíma í viðbót. Sá hálftími var reyndar nauðsynlegur upp á það að hnýta lausa enda í sögunni en hann var þó mun leiðinlegri en restin af myndinni. Ástarsamband tveggja aðalpersónanna finnst mér vera mjög vel framkvæmt og það er miklu trúanlegra og raunsærra en t.d. samband stráksins og stelpunnar í Slumdog Millionaire. The Reader er fínasta mynd sem ég hefði líklega aldrei horft á ef hún hefði ekki verið tilnefnd til Óskars.
Óskarskandídat: Ég skal éta hvítu glansderhúfuna hans Sigurðar Orra Guðmundssonar ef þessi vinnur, hún virkar á mig sem hálfgerður filler af þeim fimm tilnefndu. Þeir hefðu átt að bomba The Dark Knight frekar í hóp tilnefndra mynda, alltaf sama tepran í Akademíunni.

Svo ég raði myndunum eftir því hversu góðar mér fannst þær:
1. Frost/Nixon
2. Milk
3. Slumdog Millionaire
4. The Reader
5. The Curious Case of Benjamin Button

Og nú eftir því hversu líklegt ég tel að þær hreppi Óskarinn fyrir bestu mynd:
1. Slumdog Millionaire
2. The Curious Case of Benjamin Button
3. Milk
4. Frost/Nixon
5. The Reader

Þeir sem eru tilnefndir sem besti leikstjóri eru einmitt allir leikstjórar þessara fimm mynda, en ég tippa á að Danny Boyle, leikstjóri Slumdog Millionaire, taki styttuna.

Hvað hin verðlaunin varðar get ég lítið verið að tippa af viti þar sem ég hef ekki séð næstum því allar myndir sem um ræðir, en ég ætla samt að giska bara upp á gamanið:

Besti leikari: Frank Langella (ef ekki, þá Mickey Rourke)
Besta leikkona: Kate Winslet (ef ekki, þá Melissa Leo (hver sem það er))
Besti leikari í aukahlutverki: Heath fokking Ledger (ég þarf ekki einu sinni að koma með runner-up)
Besta leikkona í aukahlutverki: Penélope Cruz (ef ekki, þá Amy Adams)
Besta frumsamda handrit: Wall-E (ef ekki, þá Frozen River)
Besta handrit byggt á öðru verki: Slumdog Millionaire (ef ekki, þá The Curious Case of Benjamin Button)
Besta teiknimynd: Wall-E (þarf ekki að nefna runner-up, Wall-E er með’etta)

Jæja þá er þetta komið, ég mun þó líklega ekki horfa á verðlaunahátíðina sjálfa. Það nægir mér alveg að sjá þetta í Mogganum daginn eftir.

Bónus: Djöfull þarf ég að sjá The Wrestler, og líka Notorious (hina Notorious, sem sagt). Líka eitt sem er dálítið skemmtilegt, Heath Ledger er ástralskur leikari sem tilnefndur er sem besti leikari í aukahlutverki og er sagður hafa tekið hlutverki sínu of alvarlega, Robert Downey Jr. er tilnefndur sem besti leikari í aukahlutverki þar sem hann leikur leikara sem tekur hlutverki sínu sem Ástrali of alvarlega. Gaman að þessu.