fimmtudagur, 30. apríl 2009

Kvikmyndagerð 2008-2009

Ég ákvað að fara í kvikmyndagerð vegna hásterkra lofa frá vinum mínum sem voru í henni í fyrra og líka þar sem ég hef mikinn áhuga á kvikmyndum. Áfanganum mætti kannski skipta í fjóra hluta. Kennslutímarnir, kvikmyndaáhorf, verklegi hlutinn og bloggið.

Kennslutímarnir
Oftast voru þeir bara nokkuð skemmtilegir og afslappaðir. Allar þessar reglur og trikk sem maður lærði um fá mann til þess að horfa á kvikmyndir í aðeins öðru ljósi og það er vel hægt að horfa á leiðinlega mynd ef maður skemmtir sér við það að pæla í öllum tæknilegu hlutunum. Ég er sammála einhverjum í áfanganum að það hefði ekki sakað að hafa eitt skyndipróf einhvern tímann á vorönn svo maður vissi hvað maður væri að fara út í í prófinu. Skemmtileg viðbót við kennslutímanna var heimsókn leikstjóra. Þá fékk maður að heyra hvernig bransinn virkaði og hafði ég mest gaman að Valdísi þar sem hún fór kannski breiðast um völl af þeim sem komu. Ég hefði t.d. viljað sjá Friðrik Þór tala meira almennt um kvikmyndir og það sem hann hefur gert enda gífurleg reynsla sem hann býr yfir.

Bíótímarnir
Eins og flestir hafa sagt er 14:40 á föstudögum kannski ekki besti tíminn til að vera með þessa tíma. Mér persónulega fannst það alveg fínt þó ég sé kannski ekki rétti maðurinn til að dæma um það enda þurfti ég ekki að mæta í skólann fyrr en kl. 12:40 á föstudögum og þ.a.l. mjög ferskur þegar myndin var sýnd. Ég held ég mundi meira að segja velja föstudaganna til að sýna mynd, þá er aldrei neitt próf daginn eftir eða neitt og því ættu allir að geta einbeitt sér að myndinni, en ég veit ekki. Myndirnar sem voru sýndar voru æði misjafnar. Jóhanna talaði um að hún hafi haldið að myndir eins og Shawshank Redemption og the Godfather yrðu sýndar, en mér finnst frekar að myndir sem maður hefði annars ekki horft á væri skemmtilegra að sýna. Oftast var ég tiltölulega sáttur með þær myndir sem voru sýndar og sumar voru alveg stórgóðar, svo sem Cats of Mirikatani, Man Bites Dog og hin alræmda Come and See. Come and See var þó mynd sem maður kunni bara að meta eftir á og hún stendur alveg upp úr þegar ég hugsa um þær myndir sem við horfðum á, frekar djarft múv hjá Spalla verð ég að segja að sýna svona langa og leiðinlega (hún var mögnuð en samt leiðinleg) mynd, en það skilaði sér allavega hjá einhverjum í áfanganum. Síðasta myndin sem horft var á var The Thing sem var nokkuð góð. Ég hefði alveg viljað sjá fleiri myndir úr svipaðri átt, eins og t.d. Invasion of the Body Snatchers eða kannski Barbarella eða eitthvað, það allavega bar lítið á hressum og furðulegum sub-genres í myndavalinu og hefði mátt sýna eina eða tvær þannig myndir. Það var t.d. engin Sci-fi mynd sýnd.

Verklegi hlutinn
Þetta er skemmtilegasti og mikilvægasti hlutinn. Leiðinlegt hvað ég og mínir hópar voru slappir í honum. Ég hefði t.d. mjög mikið vilja gera heimildarmynd og fá einkunn fyrir örmynd. Ég veit ekki hvað ég get sagt meira um þennan hluta en bara að láta hópana fá myndavélina þegar þeir eiga að fá hana af fyrra bragði. Síðan er pælingin hans Magga (eða einhvers annars) um að láta kennarann hjálpa til við kvikmyndagerðina alveg fín.

Bloggið
Þetta er skemmtilegur hluti af áfanganum og sá hluti sem ég hef kannski lagt mestan metnað í. Ég náði þó ekki að gera allt sem ég ætlaði mér á blogginu og í byrjun árs. Ég ætlaði t.d. að horfa á allar Body Snatchers myndirnar (þær eru fimm, þessi fyrsta og síðan fjögur remake) og skrifa eina bombu færslu um hvernig myndin breytist eftir tímanum sem hún gerð á o. s. frv.. Ég ætlaði mér líka að sjá allar þær myndir sem ég skrifaði um í fyrstu færslunni, en náði því ekki. Ég efast þó ekki um að ég nái því í sumar, ég er t.d. með Seven Samurai á tölvunni og aðrar myndir eru bara handan við hornið. Ég ætlaði líka að hafa video blog en það misheppnaðist eitthvað. Þrátt fyrir þetta náði ég flestum 10 stiga færslum áfgangans og er ég mjög sáttur með það. Það var líka gaman að lesa færslur hjá öðrum og ræða um þær næst þegar maður hitti viðkomandi og skapaði bloggið nokkuð hressilegt andrúmsloft hjá hópnum (bíótímarnir reyndar líka, kostir og gallar myndanna voru títt ræddir). Ég reyndi að hafa blogg sem væri sem skemmtilegast aflestrar og því sleppti ég eins og ég gat að skrifa um endursögn sögu myndarinnar, en mér fannst alltof margir bloggarar missa sig í henni og því finnst mér að Siggi ætti frekar að gefa færslunum einkunn eftir innihaldi þeirra frekar en orðafjölda. Ég veit líka að ég skrifaði færslu um sjónvarpsþætti en mér fannst heldur tæpt þegar hver færslan á fætur annarri um anime og grínþáttakaraktera fór að fljóta inn, kannski pæling að segja krökkunum á næsta ári að blogga bara um kvikmyndir og hluti tengda þeim. Ég veit ekki með þessar skyldufærslur, að gefa mínus finnst mér dálítið harkalegt og kannski skemmtilegri pæling að gefa plúsa fyrir þá sem gera skyldufærslunnar (eins og mér sýndist vera gert við frönsku kvikmyndahátíðarfærslunnar).

Þegar allt kemur til alls var þessi áfangi líklega sá skemmtilegasti í MR (ásamt stærðfræði) og mikið sem ég lærði sem mun annað hvort ekkert nýtast mér eða talsvert nýtast mér í komandi framtíð. Takk fyrir mig!

Bónus: Bynysjan.

2 ummæli:

Siggi Palli sagði...

Takk fyrir veturinn og takk fyrir fínar athugasemdir.

Þú talar um að það hefði skapast umræða um bloggfærslurnar, en það hefði líka verið gaman að sú umræða hefði að eitthverju leyti farið fram á blogginu, þ.e. að fólk hefði verið duglegra að kommenta hvert hjá öðru. Þú varst reyndar manna duglegastur við það.

Siggi Palli sagði...

8 stig.

Bloggeinkunn á vori: 9,1.

Lokaloka bloggeinkunn: 9,6.