laugardagur, 29. nóvember 2008

Ofurhetjumynda-extravaganza, fyrsti hluti

Um daginn var ég að hugsa um hvaða myndir ég var búinn að horfa upp á síðkastið og tók eftir því að ég hafði horft á slatta af ofurhetjumyndum og ákvað þá upp á djókið að sjá allar ofurhetjumyndir sem hafa verið gerðar. Það er alls ekki ómögulegt verkefni þar sem það eru ekkert til það mikið af ofurhetjumyndum. Það væri annað ef ég ætlaði að sjá allar kung-fu myndir sem gerðar hafa verið eða allar film noir myndir sem gerðar hafa verið (þó Siggi Palli hefði eflaust meira gaman að því), enda eru ofurhetjumyndir ekki beint genre út af fyrir sig heldur eiga þær bara allar það sameiginlegt að fjalla um ofurhetjur. Myndir þurftu að standast ákveðnar kröfur frá mér til þess að ég taldi þær með sem ofurhetjumyndir. Grínmyndir voru ekki taldar með eins Orgazmo (frá höfundum South Park þáttana) eða Superhero Movie (Er skelfingin Scary Movie hryllingsmynd? Nei.). Teiknimyndir voru ekki taldar með heldur, eins og hin stórgóða Batman: Gotham Knight sem fjallar um atburði sem gerast á milli Batman Begins og The Dark Knight. Síðan leyfði ég mér að telja sumar myndir sem ofurhetjumyndir og sumar ekki eins og mér sýndist, ég beilaði t.d. á Barb Wire með Pamelu Anderson í aðalhlutverki því hún hefur enga ofurkrafta og engin af megin einkennum ofurhetja og eina ástæðan fyrir að telja hana með sem ofurhetjumynd er vegna þess að hún er byggð á myndasögukarakter, en taldi The Punisher með jafnvel þó hann sé alveg jafnlítil ofurhetja og Barb Wire, en hann er gefinn út af Marvel sem er einn af tveimur myndasögurisunum (hinn er DC Comics) þannig að hann fær að fljúga með. Hvort að myndin sé byggð á myndasögu eða ekki skipti mig líka máli, myndir eins og Hancock og Darkman fjalla um menn með ofurmennska krafta en eru ekki byggðar á myndasögum, ég tel þær þó alveg með sem ofurhetjumyndir. Ég ætla samt ekki að fjalla um þær í þessari færslu, en það er aðeins öðruvísi að gagnrýna þær þar sem leikstjórinn þurfti ekki að vera trúr neinum fyrirfram sköpuðum aðalkarakter. Í þessari færslu ætla ég þó að einblína á myndir sem gerðar voru á þessum áratug þar sem það er að mörgu leyti ósanngjarnt að bera saman myndir sem voru gerðar fyrr þar sem ofurhetjumyndir snúast svo mikið um tæknibrellur. Það er líka hentugt að miða við X-Men sem kom út árið 2000 og má segja að hún hafi hrundið af stað flóði ofurhetjumynda á fyrsta áratug þessarar aldar sem stendur enn yfir og ekkert virðist lát á vinsældum manna í glans-búningum á hvíta tjaldinu.

Eins og ég var búinn að nefna þá er ofurhetjumyndin ekki beint sér genre sem gerir myndirnar ansi ólíkar, bæði að uppbyggingu og gæðum. Það mætti kannski gróflega skipta ofurhetjumyndum í tvo flokka, léttar ofurhetjumyndir og myrkar ofurhetjumyndir. Dæmi um létta ofurhetjumynd er Fantastic Four þar sem aðallega er lagt upp með að skapa skemmtilega afþreyingu, dæmi um myrka ofurhetjumynd er The Dark Knight (sjá titil) þar sem andrúmsloftið er þrungið og minna um létt grín og meira um þunga dramatík. Ég ætla að fjalla stuttlega um hverja mynd fyrir sig og gefa henni stig á nokkrum ákveðnum flokkum ásamt því að gefa henni heildareinkunn. Gaman hefði verið að hafa death count og aðra tölfræði en ég lagði ekki svo mikinn metnað þegar ég var að horfa á þessar myndir. Einkunnirnar eru gefnar á hinum klassíska skala 1-10 (ef mynd er of leiðinleg til þess að ég klári hana fær hún 0 stig en það á ekki við um neina mynd í þessari færslu). Flokkarnir eru:

Bullshit faktor: Þessi flokkur snýst um hversu vel maður “kaupir” það sem er verið að bjóða manni og hversu trúanlegir hlutirnir eru á bíómyndaskala (því annars væru myndirnar allar með 10 í bullshit faktor). Ég er með mjög háan þröskuld fyrir bullshiti í myndum en sumir hafa svo lágan þröskuld að þeir fá grænar bólur við að horfa á Star Wars.

Töffarastig: Lýsir sér sjálft.

Tryggðarstig: Stundum þarf að breyta hinu og þessu þegar verið er að færa annan miðil á kvikmyndaformið, myndirnar sem eru tryggastar upprunalegu myndasögunum skora hátt hér. Ég hef þó ekki lesið næstum því allar myndasögurnar sem myndirnar eru gerðar eftir þannig að ég get ekki alltaf gefið stig í þessum flokki með góðri samvisku.

Maggastig: Þið kannist nú öll við þau.

Einkunn: Það sem skiptir öllu.

Útgáfuár og útgáfa myndasagnanna sem myndirnar eru byggðar á eru í svigum.

X-Men (2000, Marvel)
Það mætti segja að þessi mynd hafi komið ofurhetjumyndaæðinu af stað. Þó væri líka hægt að skrifa það á Blade sem kom út tveimur árum áður, en hún er byggð á myndasögu (ég fjalla þó ekkert um Blade-trílógíuna í þessari færslu, þó þær myndir teljast til ofurhetjumynda, tæknilega séð). Í mynd eins og X-Men, sem fjallar um mjög margar aðalpersónur, er reynt að kynna sem flesta til sögunnar og gefa þeim einhvern karakter. Það tekst ágætlega til en stundum er ekki gefið nógu mikla innsýn í persónurnar til þess að skilja ákvarðanir þeirra og hugsunarhátt. Samband Magneto og Dr. X er áhugaverðast við þessa mynd, en þeir eru gamlir vinir sem verða síðan aðal góði og aðal vondi kallinn í stökkbreytingarsamfélaginu. Bardagasenurnar eru flottar (en verða þó flottari með hverri X-Men mynd) og handritið, þrátt fyrir nokkra vankanta, er ágætt. X-Men stendur sig ágætlega í að rýma veginn fyrir þær myndir sem áttu eftir að koma, en sem stök heild er hún bara fínasta skemmun.

Bullshit faktor: 6/10
Töffarastig: 3/10
Tryggðarstig: Pass
Maggastig: 3
Einkunn: 7/10

Spider-Man (2002, Marvel)
Fyrsta Spider-Man myndin af þremur og Tobey Maguire hefur samþykkt að leika í tveimur í viðbót, sem er skrýtið þar sem réttilega ætti nýr leikari að vera í hverri Spider-Man mynd því í myndasögunum er Peter Park eilíflega unglingur (eða allt að því). Í myndum þar sem uppruni ofurhetjna er útskýrður er stundum farið hálf hratt og brösulega að því en í Spider-Man er nánast allir fyrri hluti hennar tileinkaður hvernig Spider-Man verður að Spider-Man (og einnig hvernig Green Goblin verður að Green Goblin). Myndin er hress og skemmtileg og nær að blanda vel saman unglingadrama og hasar. Willem Dafoe er frábær sem illmennið, enda lítur hann út fyrir að vera frekar illur, kallinn, sama hvað hann er að leika (þó það sé oftar en ekki einhvers konar óþokki). Töff mynd og góður vísir fyrir það sem koma skyldi…

Bullshit faktor: 2/10 Allt mjög trúanlega útskýrt. Flott hvernig þeir létu köngulónna sem bítur Parker vera genabreytt en ekki stökkbreytt, sem er meira í takt við tíðarandann.
Töffarastig: 3/10
Tryggðarstig: Pass.
Maggastig: 09
Einkunn: 7/10

Daredevil (2003, Marvel)
Daredevil finnst mér mjög góður karakter og vel hægt að gera almennilega mynd um hann. Blindur maður sem getur “séð” með ofurheyrninni sinni og vinnur sem lögfræðingur á daginn. Daredevil er frekar myrk ofurhetja og jafnvel nokkurs konar anti-hero þar sem hann hikar ekki við að drepa óþokka, eitthvað sem Batman og Superman mundu aldrei aldrei gera. Þessi mynd nær samt engan veginn að gefa Dardevil því sem hann verðskuldar. Í fyrsta, öðru og þriðja lagi er allur leikur í myndinni alveg einstaklega lélegur og fer þar, hinn annars ágæti, Colin Farrell fremstur í flokki sem vondi kallinn Bullseye. Ben Affleck og Jennifer Garner eru líka mjög ósannfærandi og ekki hjálpar að handritið er glatað. Einnig tel ég ekki ráðlegt að casta stórstjörnur í ofurhetjumyndir því þá á maður til að hugsa “þarna er Ben Affleck í Daredevil búningi” en ekki “Þarna er Daredevil!”. Það gæti virkað að ráða einhvern sem er tiltölulega þekktur, eins og t.d. Tobey Maguire fyrir Spider-Man, en ekki A-List stjörnu eins og Ben Affleck. Lítið heillar við þessa mynd nema kannski Michael Clarke Duncan, sem stórlaxinn Kingpin, sem er eini leikarinn sem stendur sig með prýði.

Bullshit faktor: 3/10
Töffarastig: 5/10 Vil taka það fram að öll þessi stig skrifast á Michael Clarke Duncan (og eitt á Colin Farrell fyrir Harald), ekki Ben Affleck.
Tryggðarstig: 8/10 Engar major breytingar, nema bara að myndin sökkar og ekki myndasögurnar.
Maggastig: 3 1/2
Einkunn: 2/10

X2 (2003, Marvel)
Framhaldsmynd X-Men og er almennt talin meðal betri ofurhetjumynda, er t.d. með 87% á Rotten Tomatoes. Plottið er þannig að einhver gæji ætlar að útrýma öllum stökkbreytingum á jörðinni með græjunni hans Professor Xavier. Þessi mynd er ágæt, en skildi þó lítið eftir sig eftir allar 133 mínúturnar sem hún er. Nýr X-Maður er kynntur til sögunnar sem er frekar óáhugaverður og plottið í heild sinni fannst mér ekkert sérstakt. Þessi mynd rennur samt ágætlega í gegn og hasaratriðin eru vel af hendi leyst, sérstaklega eitt atriði sem gerist í sjálfu Hvíta húsinu þar sem forsetinn er næstum því drepinn. En eins og ég segi, fín mynd, ég sá samt ekki það sem allir elskuðu svona rosalega við hana.

Bullshit faktor: 7/10 Ég er ekki endilega að tala um konseptið um stökkbreytinga, heldur aðallega plottið sem mér fannst mjög langsótt.
Töffarastig: 2/10 Litlir töffarataktar hér á ferð, Jackman fær tvö.
Tryggðarstig: Pass.
Maggastig: 77
Einkunn: 6/10

Hulk (2003, Marvel)
Á þessu ári kom út myndin The Incredible Hulk sem er svokallað reboot, sem er svo vinsælt í dag (t.d. Batman Begins, Battlestar Galactica þættirnir og tilvonandi Superman og Star Trek myndir), á seríunni um Hulk og er ekki framhald af þessari mynd hér. Ég sá þessa mynd þegar hún kom í bíó og í minningunni var hún alveg ágæt og þegar ég hafði horft á nýju Hulk myndinna hugsaði ég “mér fannst nú Ang Lee myndin vera miklu betri”. Boy, was I wrong! Ég horfði á þessa mynd aftur til að lappa upp á minnið og það verður að segjast að hún er alveg skelfilega slök. Fyrstu hálftíminn er alveg ágætur en síðan fer myndin bara niður á við og sérstaklega er átakanlegur síðasti klukkutíminn eða svo því myndin heldur bara áfram og áfram og ÁFRAM og virðast engan endi taka. Þessi mynd er einfaldlega leiðinleg. Leikurinn er alveg ágætur, leikstjórnin fín, handritið er engin snilld en ég hef séð betri myndir með lélegri handrit, þessi mynd er bara svo leiðinleg einhvern veginn og það er ekki hægt að skrifa það á einhvern einn hlut. Klippingin er allsérstök, en hún reynir að viðhalda myndasögublænum með því að skipta skjánum stundum upp í ramma þannig að margir hlutir geta verið að gerast í einu eða í framhaldi af hvorum öðrum. Ég gef Ang Lee 10 fyrir viðleitni og stundum gengur þessi tilraun upp og stundum er hún fremur þvinguð. Þetta er mynd sem er léleg en langtfrá því að vera það léleg að hægt er að hafa gaman af henni. Bara leiðinleg og léleg mynd sem er leiðinleg.

Bullshit faktor: 5/10
Töffarastig: 4/10
Tryggðarstig: Pass
Maggastig: 90°
Einkunn: 2/10

Hellboy (2004, Dark Horse)
Hellboy er ekki beint ofurhetja með double-identity og allt það. Hann er skratti sem komst til jarðar í gegnum víddarhlið (sem Rasputin opnaði) þegar hann var lítill og var alinn upp af góðum manni á bandarískum herbúðum og ákveður að nota “illu” krafta sína til góðs. Meginplottið í myndinni fannst mér frekar slappt, en hins vegar þýðir það ekki að handritið sé það. Samtölin í myndinni eru mörg hver fín og það kemur ágætlega út þegar kafað er aðeins í Hellboy sjálfan og hans tilfinningar, en hann er skotinn í mennskri gellu (sem reyndar getur kveikt í sér) sem bíður upp svona Beauty and the Beast aðstæður. Bardagaatriðin eru fín, ekkert sérstök, það besta við þau eru Hellboy sjálfur og one-linerar hans og einnig samband hans við fágaða kollega sinn, Abe Sapien, sem nokkurs konar fullkomin andstæða Hellboy. Ron Perlman finnst mér frábær sem Hellboy og leikurinn í myndinni er almennt góður. Lítil atriði eins og að leyfa Perlman að halda sinni venjulegu röddu jafnvel þó hann sé að leika djöful frá helvíti (einhverjir mundu detta í hug að dýpka röddina og gera hana óhugnarlegri) gerir Hellboy viðkunnarlegri og trúanlegri sem persónu. Flott mynd og fínasta upphitun fyrir seinni Hellboy myndinni sem er enn betri. (Eruði líka að tékka á þessu awesome Indiana Jones/Star Wars legu Hellboy plakati sem ég fann, fáránlega töff)

Bullshit faktor: 10/10 Rasputin á lífi 1943 að vinna með nasistunum, gæji sem er með tálkn, djöfull frá helvíti, gella sem stendur í ljósum logum þegar hún verður reið, verðskuldar alveg 10 í bullshit faktorinum.
Töffarastig: 9/10 Ó fokking já.
Tryggðarstig: Pass.
Maggastig: 8
Einkunn: 7/10

The Punisher (2004, Marvel)
Önnur óhefðbundin ofurhetja, í rauninni er hann ekkert ofurhetja, bara gæji sem er geðveikt reiður og á geðveikt mikið af vopnum. En Batman hefur nú ekki ofurmennska krafta heldur og The Punisher er gefinn út af Marvel þannig að hann fær að fljóta með. Þegar ég var að horfa á myndina hugsaði ég að þetta væri svona þrista mynd, en endirinn fannst mér alveg magnaður og hún hækkaði upp í fjarkann við það. Plottið er einfalt, vondir gæjar myrða alla fjölskyldu Punisher og hann ætlar að hefna sín. The Punisher sem persóna finnst mér lítið áhugaverður, það er ekkert gefið innsýn í hann (nema með cheesy flashback atriðum) og manni stendur eiginlega á sama um karakterinn. Það sem hífur myndina upp eru hasaratriðin sem eru nokkuð töff og hinn áðurnefndi endir. Ég ætla að spoila honum í hvítu letri, highlightið ef þið viljið lesa: hann sem sagt nær að plata gæjann sem lét drepa fjölskylduna hans (leikinn af John Travolta) til þess að myrða besta vin sinn og konuna sína, ég nenni ekki að fara út í hvernig hann gerði það, en talandi um að HEFNA sín almennilega. Vel gert, Punisher, vel gert. Síðan drepur hann gæjann með því að binda hann við bíl sem keyrir hægt áfram í gegnum skara af öðrum bílum sem sprengjast hver af öðrum á meðan hann fer framhjá og það kviknar síðan í honum og eitthvað. Frekar badass. En já, frekar slöpp mynd en sleppur fyrir horn.

Bullshit faktor: 4/10 Aðallega yfir því að einn gæji getur drepið svona ógeðslega marga án þess að deyja sjálfur.
Töffarastig: 3/10 Maður mundi halda að svona mynd biði upp á meiri töffaraskap, en Thomas Jane er bara ekkert góður sem Punisher og gefur honum lítinn töffarabrag.
Tryggðarstig: Pass
Maggastig: π
Einkunn: 5/10

Spider-Man 2 (2004, Marvel)
Önnur myndin í Spider-Man seríunni og hefur verið kölluð besta ofurhetjumynd allra tíma (áður en The Dark Knight kom út, reyndar). Ég sá hana fyrst í bíó þegar hún kom út og olli hún mér vonbrigðum eftir fyrstu myndina. Ég horfði síðan aftur á hana um daginn og fannst hún bara mjög góð. Það sem gerir þessa mynd áhugaverða er að aðalmálið í henni er Peter Parker, ekki Spider-Man. Hvað honum finnst um að vera Spider-Man og hvaða áhrif það hefur á lífið hans. Hann er auðvitað ástfanginn af Mary Jane en annað líf hans sem Spider-Man hindrar að hann geti gert eitthvað í því. Vondi kallinn í þessari mynd er brjálæði vísindamaðurinn með 8 útlimina, Doctor Octopus. Mér finnst Alfred Molina ekki sannfærandi sem óþokkinn Doc Ock, en hann er fínn sem vísindamaðurinn Dr. Octavius sem verður síðan Doc Ock, aðrir í myndinni standa sig með prýði. Bardagaatriðin eru mjög góð, húmorinn er sjaldan langt undan í myndinni og dramað er vel skrifað og trúanlegt og síðast en ekki síst er myndatakan algjörlega til fyrirmyndar og allt útlit á myndinni. Vel gert, Sam Raimi.

Bullshit faktor: 2/10
Töffarastig: 2/10 Spider-Man hefur aldrei verið sérstaklega svöl ofurhetja.
Tryggðarstig: Pass.
Maggastig: 21
Einkunn: 8/10

Catwoman (2004, DC)
Eins og Spider-Man 2 er ágætis leiðarvísir um hvernig eigi að gera góða ofurhetjumynd, er Catwoman leiðarvísir um hvernig á EKKI að gera ofurhetjumyndir eða kvikmyndir almennt. Í fyrsta lagi, þá er kattakonan sem myndin fjallar um ekki sú sem er í Batman myndasögunum og var túlkuð af Michelle Pfeiffer í Batman Returns. Þetta er ný kattakona með annan uppruna. Plottið er hrein skelfing en ég ætla að reyna að láta það meika sem mest sens: Patience Phillips vinnur sem auglýsingahönnuður hjá snyrtivörufyrirtæki. Einhvern tímann þegar hún átti að skila einhverri auglýsingahönnun þá fer hún í verksmiðjuna þar sem eigandinn var (af hverju sendi hún ekki bara tölvupóst, kann hún ekki að búa til pdf skjal?) og kemst að leyndarmáli að nýja byltingarkennda yngingar-húðkremið frá fyrirtækinu gerir konur ljótar ef þær hætta að nota það í smá tíma. Þeir taka eftir að hún lá á hleri og elta hana og hún fer í skolpleiðslunar og skolast í sjóinn og rekur á land þar sem helling af köttum eru og einn af þeim andar upp í hana og þá er hún allt í einu komin með katta-krafta. Síðan notar hún krafta sína til að stöðva snyrtivöruþrjótana og lokabardaginn er á milli hennar og Sharon Stone sem er illa eiginkona eiganda fyrirtækisins sem hefur notað húðkremið svo lengi að andlitið hennar er hart eins og stál. Bardaginn er skelfilegur, og alla myndina er ástarsaga í gangi á milli Patience og lögregluþjóns sem auðvitað reynir að klófesta Catwoman. Úff, hvað á maður að segja? Þetta er bara skelfing. Leikararnir standa sig undantekningalaust illa og Sharon Stone er sérstaklega léleg sem bitra eiginkonan. Það er ekkert lagt upp úr því að gefa persónunum einhverja dýpt, allir eru algjörlega bara með eina vídd og ekkert er sýnt hvernig Patience líður með að vera allt í einu með kattakrafta. Einnig er hinn tölvuteiknaða kattakona sem gerir ómennsku kattatilþrifin mjög illa gerð, lítur helst út eins og tölvuleikur þegar hún er að hoppa á milli húsþaka. Youtube myndbandið (fann það ekki í betri gæðum(ef embeddið virkar ekki þá er hægt að smella hér) sem fylgir finnst mér lýsa hugarfari þeirra sem gerðu myndina mjög vel. Það er eins og þeir hafi dottið á þá hugmynd að setja Halle Berry í þröngan leðurgalla og haldið að restin mundi bara sjá um sig sjálft. Tónlistin er líka algjör hörmung, einhvers konar R&B-rúnk eins og heyrist í myndbandinu. Mér finnst nefnilega kattakonan frábær karakter (eins og t.d. í myndasögunni Catwoman: When in Rome) og vel hægt að gera góða mynd þar sem hún er aðalpersónan ef metnaður og hæfileikar væru til staðar. Það er þó ekki um að ræða hér, lélegasta ofurhetjumyndin og almennt séð bara hörmuleg mynd. Halle Berry sá þó við sér að taka við Razzie verðlaununum sem versta leikkonan og kallaði hún myndina “piece of shit awful movie”, orð að sönnu.



Bullshit faktor: 10/10 Húðkrem? Eruði að grínast eða?
Töffarastig: 1/10
Tryggðarstig: 1/10
Maggastig: 14-5
Einkunn: 1/10

Elektra (2005, Marvel)
Spinoff mynd frá Daredevil, en Elektra var kvonfang Daredevils sem dó í örmum hans í myndinni. En no prob, hún var bara endurlífguð af einhverjum sensei meistara. Elektra fannst mér þó miklu betri en Dardevil og Jennifer Garner er mikið betri í þessari mynd en fyrirrennanum. Elektra sjálf er töff karakter sem var sköpuð af sjálfum Frank Miller, höfundi Sin City bókanna og 300 og er búinn að leikstýra sinni fyrstu mynd, The Spirit, sem kemur í kvikmyndahús 2. janúar. Mér fannst fyrsti hálftími myndarinnar vera mjög góður þar sem meginplott myndarinnar var ekki byrjað og maður fær aðeins að gægjast inn í Elektru karakterinn, en hún er kaldrifjaður leigumorðingi sem smátt og smátt fær samvisku. Síðan byrjar plottið sem er ekki upp á marga fiska og samanstendur af misspennandi bardagaatriðum og óþokkum, sem margir hverjir eru ekki mjög vel leiknir. Útlitið á myndinni er þó flott og Garner heldur myndinni uppi. Það pirraði mig samt að það var reynt að troða einhverri ástarþvælu inn í myndina sem þjónaði nákvæmlega ENGUM tilgangi á neinn hátt og dýpkaði hvorki persónurnar né bjó til einhverja konflikta á handritinu. Týpískt af Hollywood að þurfa að bæta við einhverri svona ástarþvælu bara vegna þess að það er kona í aðalhlutverki, Elektra sjálf varð bara minna töff fyrir vikið. Ellen Ripley hefði t.d. verið miklu minna töff ef hún hefði verið að standa í einhverjum óþarfa væmnum kossaatriðum. En í heildina er Elektra sæmileg og betri en ég bjóst við.

Bullshit faktor: 10/10 Kona deyr. Kona lifnar við. Maður verður að skella tíunni í bullshittið, svo ekki sé minnst á fáránlega vondu kalla í myndinni.
Töffarastig: 7/10
Tryggðarstig: 5/10
Maggastig: P=NP
Einkunn: 5/10

Constantine (2005, DC)
John Constantine í myndasögunum er kaldhæðinn ljóshærður breti. Í myndinni er búið að breyta honum í dökkhærðan bandarískan fýlupúka, leiknum af Keanu Reeves í þokkabót. Þannig að það gaf auga leið áður en ég sá myndina að hún mundi ekki ná að fanga snilld John Constantine úr myndasögunum. Þar að auki nefndi góðvinur minn, Arnar Már Ólafsson, Constantine sem eina af tíu verstu myndum sem hann hafði séð. Þegar myndin byrjaði fannst mér hún þó lofa góðu, Keanu Reeves var hæfilega svalur og framleiðendur myndarinnar höfðu leyft Constantine að halda keðjureykingareinkenni sínu. Atriði með særingu í upphafi myndar var nokkuð töff en eftir það er leiðin bara niður á við. Plottið snýst um, hvorki meira né minna, að sonur Satans ætlar að koma til jarðar og taka yfir heiminum. Fáránlega fjarstæðukennt, en eitthvað sem má alveg búast við þegar kemur að ævintýrum John Constantine. Það sem mér fannst leiðinlegast við myndina er hvað John Constantine er leiðinlegur. Hann á að vera hnyttinn og töff og alltaf með one-linera tilbúna upp í erminni, en í staðinn er hann alvarlegur og einsleitur. Keanu Reeves er einmitt dálítið þannig leikari sem getur bara leikið Keanu Reeves, eins og Valdís Óskarsdóttir talaði um þegar hún kom til okkar.

Bullshit faktor: 10/10
Töffarastig: 6/10
Tryggðarstig: 2/10
Maggastig: 9^0,4
Einkunn: 3/10

Framhald síðar..., en mér fannst við hæfi að byrja seinni hlutann á fyrstu ofurhetjumyndinni sem er virkilega virkilega góð, en það er Batman Begins. Síðan kem ég með einhvers konar niðurlag á þessu öllu saman og raða síðan öllum myndunum á lista eftir því hvað þær eru góðar.

Bónus: Fyrsta ofurhetjumyndin var The Adventures of Captain Marvel frá árinu 1941

1 ummæli:

Siggi Palli sagði...

Sannarlega epísk færsla. Því miður gef ég hæst 10 stig. Annars fengi hún fleiri...

Siggi Palli mælir með: Zebraman í leikstjórn Takashi Miike, skemmtilega öðruvísi ofurhetjumynd.