... í hlutanum þar sem þorpið er gjöreyðilagt og öllum gjörsamlega slátrað þá sat ég bara frosin í sætinu, hálfóglatt og langaði eiginlega ekki til að sjá meira. Samt vildi ég sjá meira. Þetta var skrítið. Er þetta ekki draumur kvikmyndagerðarmannsins, að vekja upp svona rosalega sterkar tilfinningar hjá áhorfanda?
Ég er viss um að Birta hafi ekki verið sú eina sem varð hálfóglatt yfir þessari mynd enda er hún algjör hryllingur og er almennt talin ná að lýsa hryllingnum sem stríð getur verið mjög vel. Myndin er líka talin vera einstaklega góð. Því til stuðnings má benda á að hún er með 8.1 í einkunn á imdb og 93% á Rotten Tomatoes. Það mætti spyrja hvernig hægt er að telja mynd góða sem lætur áhorfandanum líða illa. Ætti myndin ekki að teljast hræðileg í samræmi við hversu hræðilega hún lætur áhorfandanum líða? Nei, málið er að þetta var markmið leikstjórans. Í myndum eins og Saving Private Ryan, sem er talin lýsa seinni heimsstyrjöldinni nokkuð vel, er samt langt frá því gefin rétt mynd hvernig stríð eru í raun og veru. Maður fylgist með Tom Hanks, andlit sem allir kannast við, að blammera nasista með geðveikt spennandi og hröðum klippingum og maður heldur með honum og hvetur hann áfram. Í Come and See heldur maður ekki með neinum, manni langar bara að þetta endi sem fyrst því þetta er svo hræðilegt. Það er nákvæmlega það sem leikstjórinn vildi gera. Hann gekk meira segja svo langt að hætta að búa til kvikmyndir því honum fannst hann hafa náð að gera allt sem hann vildi gera á sviði kvikmyndagerðar eftir að hann gerði Come and See.
Ég tek Come and See til greina þar sem við erum öll nýbúin að sjá hana og ég held að flestir hafi verið á sama máli um að myndin var ansi truflandi. Ég hef nefnilega stundum velt fyrir mér að ef markmið leikstjórans næst við gerð einhverjar myndar er hún þá fullkomin? Og enn fremur, ættu allar myndir að vera metnar eftir því hversu vel þau ná þeim áhrifum sem þær leggja upp með? Svo ég einfaldi, markmið Elem Klimov var að gera mynd sem sýnir hvað stríð er ógeðslegt og Come and See sýnir óumdeilanlega hvað stríð er ógeðslegt, er hún þá sjálfkrafa góð mynd?
Það er augljóst að markmið Tom Shadyac þegar hann gerði Liar Liar var allt annað en markmið Lasse Hallström þegar hann gerði Chocolat. Ég býst við að markmiðið með Liar Liar var að fá fólk til þess að hlæja og markmið Chocolat var að fá fólk til þess að væla yfir því hversu væmin hún er. Ætti þá að bera þessar myndir saman eftir því hversu vel þau ná markmiðunum sínum?
Allavega, punkturinn sem ég er að reyna að koma með er að grínmyndir og sérstaklega grínleikarar finnst mér vera vanmetnir hjá kvikmyndaspekúlöntum. Mér finnst hlutverk grínleikarans vera miklu erfiðara en dramaleikarans. Dramaleikarinn þarf 'bara' að vera sem raunsæastur í því hlutverki sem hann leikur í svo fólk taki hann trúanlega, á meðan grínleikarinn þarf að fá fólk til þess að hlæja sem mér finnst mun erfiðara (og jafnvel göfugra) verkefni. Tökum Tom Hanks sem dæmi þar sem ég er búinn að nefna hann einu sinni áður í þessari færslu. Hversu fáránlegt væri ef hann hefði leikið hlutverk Jim Carrey í Dumb & Dumber? Ég gæti miklu betur ímyndað mér Jim Carrey í hlutverki hans í Saving Private Ryan. Ég hef einmitt séð grínmynd með Tom Hanks sem heitir The Money Pit og hún sökkaði babar. Einu grínmyndirnar sem eru hampaðar sem meistaraverk eru a.m.k. hálfrar aldar gamlar eins og Some Like It Hot (sem var valin besta grínmynd allra tíma einhvern tímann). Some Like It Hot er vissulega fín mynd en segjum að hún hefði verið framleidd árið 2008 en væri að öðru leyti alveg eins nema kannski í lit og staðfærð í nútímann, þá held ég að hún mundi ekki vekja mikla athygli. Það er kannski ósanngjarnt að segja svona, en samt. Bara eitthvað sem ég hef stundum pælt í.
Snilld. Epík. Meistaraverk.
Bónus: Ég sá tvær myndir í röð á RÚV einhvern tímann fyrir stuttu. Þær voru Bratz: The Movie og The Last Samurai. Þær voru báðar svo gjörsamlega út í hött en munurinn var að Bratz myndin var mjög meðvituð um það á meðan The Last Samurai var það ekki. Þar af leiðandi fannst mér Bratz vera miklu betri og skemmtilegri, Tom Cruise í einhverju samúræjasloppi bara gengur ekki.
1 ummæli:
8 stig. Fín pæling. Ég held þú getir ekki beitt algjöru afstæði við dóma á kvikmyndum, en vissulega er æskilegt að tekið sé tillit til þess hvert markmið kvikmyndagerðarmannsins sé.
Roger Ebert segist einmitt taka tillit til þessa í dómum sínum. 3ja stjörnu hasarmynd er ekki það sama og 3ja stjörnu listafret. Hins vegar er spurning hvort maður vilji frekar horfa á kvikmynd sem hefur lítinn metnað en nær öllum markmiðum sínum, eða mjög metnaðarfulla kvikmynd sem nær engan vegin markmiðum sínum.
Skrifa ummæli