miðvikudagur, 15. apríl 2009

Lokamynd: Op. nr. I

Þar sem Sigurður er búinn að gefa einkunn er komin tími til þess að fjalla um lokamyndina í kvikmyndagerðaráfanganum og með því færist ég nær 100 stigunum fyrir önnina. Eins og þegar ég fjallaði um örmyndina ætla ég bæði að tala um sögu myndarinnar og vinnuna sem lá á bakvið hana.

Þegar hóparnir voru settir saman þá ætluðum bara ég, Héðinn og Haraldur að vera saman í hóp. Ég ítrekaði það við Harald að það væri best að vera bara þrír, minnugur um vesenið með gerð örmyndarinnar. Helga og Bjölverinn voru ekki mætt í tímanum sem hóparnir voru ákveðnir þannig að Siggi Palli spurði þá “Björn Ívar er ekki í neinum hóp, geta ekki einhverjir tekið hann?”. Haraldur sagði auðvitað “jájá, við getum það!”. Síðan spurði Siggi “Helga er ekki heldur í neinum hóp, hver vill fá hana?” og auðvitað tók Haraldur frumkvæðið “Við getum alveg tekið hana sko!”. Þar með var kominn sami babarahópur sem drjólaðist aldrei til þess að gera örmyndina fyrr en á síðustu stundu, þetta leit ekki vel út. Reyndar er þessi fimm manna hópur einstaklega hugmyndaríkur og óhræddur við að prufa eitthvað skemmtilegt, það eru bara allir svo miklir skúnkar og enginn sem drífur hina áfram.

Við fengum myndavélina á miðvikudegi en byrjuðum ekki að taka upp fyrr en daginn eftir. Ég hafði brotið hugann um hvað myndin gæti fjallað um og í hvernig stíl hún ætti að vera, en var frekar tómur satt að segja. Héðinn og Haraldur komu með hugmynd að splatter mynd sem átti að heita “Á tæpasta vaði” (nema hvað!) og hún átti að vera algjörlega bein merking síns eigin titils. Myndin átti að fjalla um fjóra stráka sem fara í einhvers konar útileigu við vað og síðan fara tæpir hlutir að gerast. Haraldur lýsti fyrir mér með mikilli nákvæmni nokkrum atriðum og voru ýmsir metnaðarfullir hlutir á pallborðunum eins og skuggamyndaatriði, blóðslettur og epískt lokaatriði sem mundi gerast í á. Mér leist einstaklega vel á þetta allt saman enda splatter líklega með þeim skemmtilegri myndum sem hægt er að gera. Helga átti að leika morðingjann og fengum við ansi óhugnalega hana-grímu að láni frá Rúnari Má, bekkjarfélaga okkar. Ef það var ekki nógu týpískt að nota ekkert fyrsta daginn með myndavélina þá lögðum við af stað daginn eftir upp í Öskjuhlíð eftir skóla og þegar við vorum komin á staðinn áttuðum við okkur á að við vorum ekki með gerviblóð, ekki með tjald (sem átti að spila nokkuð stórt hlutverk í myndinni) og verst af öllu þá vorum við ekki með spólur í myndavélina! Ég hafði gleymt þeim heima hjá mér svo við þurftum að snúa til baka. Heima hjá mér tókum við þó upp fyrsta atriði myndarinnar og náðum í hálffulla BBQ flösku. Glöggir taka eftir því að í einu sjónarhorni í byrjunaratriðinu er Haraldur klæddur mokkajakka en úr öðru sjónarhorni er Haraldur hvergi sjáanlegur og það er ég sem er í mokkajakkanum. Þetta átti sem sagt að vera gegnumgangandi þema í myndinni að hafa mjög augljósa svokallaða “continuity errors”. Það var þó hætt við þessa pælingu frekar snemma í upptökum. Þetta gaf líka Haraldi tækifæri til þess að vera í myndinni en hann þurfti að fara á skylmingaæfingu (nema hvað!).

Við fórum síðan upp í Öskjuhlíð og tókum upp fyrri helming myndarinnar. Svo ég úrskýri ofbirtu atriðin tvö þá vorum við hreinlega ekki búin að fatta að hægt væri að fiffast í irisinu á myndavélinni, og við lögðum ekki í það að taka atriðin upp aftur þar sem þau gerðust í einhverja kílómetra fjarlægð frá hvor öðru. Við vorum enn með það hugarfar að við vorum að taka upp splatter mynd en ekki listræna og torræða svarthvíta mynd eins og hún endaði á að vera. Við vorum ekki með tjald og við vorum ekki við vað þannig að við vorum strax byrjuð að fjarlægast upprunalegu hugmyndina þó. Í staðinn fyrir að strákarnir væru í útileigu virðast þeir bara vera eitthvað að chilla út í skóg, skiptir kannski ekki öllu. Ég held að það var hugmynd Héðins að snarbreyta allt í einu almennt frekar hressu og gauralegu andrúmslofti myndarinnar þegar (persónan) Björn Ívar þurfti að fara að pissa. Splatter myndin var dálítið hugarfóstur Haraldar og hann var hvergi nálægur til þess að passa upp á hugmyndina sína. Mér fannst þetta fáránlega fyndið þar sem áhorfendur mundu alls ekki búast við rosalegum andlits nærmyndum, svipuðum og í Idi I smotri, sem er líklega mesti áhrifavaldur myndarinnar. Fyrsta takan af því þegar Helga gengur upp að Birni og drepur hann þá gerði hún bara nákvæmlega það, gengur upp að honum og drepur hann. Það atriði var frekar langdregið þar sem Helga átti í vandræðum með að labba á hrjúfu yfirborði skógarins enda ekki hægt að líta niður fyrir sig með þessa grímu. Þá stungum við upp að því að eftir nokkur skref mundi hún skyndilega snúa sér við og horfa beint í myndavélina með hröðu zoomi. Við ætluðum aldrei að reyna fela hver morðinginn var enda má sjá tenginguna við fyrsta atriði myndarinnar þegar Helga kreppir hnefann, en það átti að vera einkenni morðingjans og alltaf þegar áhorfandinn sæi það mundi hann vita að eitthvað slæmt væri að fara að gerast.

Þetta var hluti af annarri pælingu sem fór, svipað og með “continuity errors” pælinguna, ekki mjög langt. Ég var einna helst spenntastur fyrir því að gera mjög sjálfsmeðvitaða mynd, svona mynd þar sem allir karakterar vita að þeir eru í stuttmynd. Ég vildi jafnvel að einhverjir karakterar mundu tala beint við áhorfendur um hvað væri að fara að gerast. Einu leifarnar af þessum pælingum sem lifðu af inn í lokaafurðina er þegar það heyrist “action!” í upphafsatriði myndarinnar (það var sem sagt ekki óviljandi!) og þegar Héðinn gefur kamerunni þumalinn upp í atriðinu þar sem strákarnir keyra í burtu.

Við þurftum að finna upp á frumlegri aðferð til þess að sýna drápið á Birni án þess að láta það sjást (enda ekki með fjármuni til þess að láta morð í mynd lúkka vel) og pælingin sem við komum með gekk ekki alveg þar sem BBQ-sósan var ekki alveg nógu raunsætt blóð og það var of lítið af henni. En jæja. Síðan sögðum við það gott og ætluðum að halda áfram næsta dag og þá mundi Haraldur koma aftur og sýnd viðbrögð míns og Héðins við drápinu á Birni og fleira skemmtilegt. Þegar á tökum stóð í Öskjuhlíðinni var mikið tekið upp af efni sem var fyrir utan meginsögu myndarinnar og ekkert endilega tekið upp til þess að vera notað í lokaútgáfu myndarinnar, heldur meira svona til gamans. Þessar upptökur áttu þó eftir að vera mikið notaðar þegar allt kom til alls, sérstaklega þá skotið þar sem Helga gægist á bakvið tré með hana-grímuna á sér, en það var upprunalega bara eitthvað flipp með myndavélina.

Næsta dag gerðum við samt ekki neitt, heldur tókum upp örmyndina. Við höfðum talað við hópinn sem átti að fá myndavélina á eftir okkur að við mættum vera með myndavélina um helgina og því var ákveðið að við ætluðum að klára myndina á sunnudeginum enda var enginn upptekinn þá og því kjörið að gera þetta almennilega. Þegar sunnudagurinn gekk í garð hringdi samt enginn í neinn (ég hringdi reyndar í Héðinn og hann svaraði ekki) og ekkert gerðist. Þegar við komum í skólann á mánudaginn þurftum við að skila myndavélinni en þá vorum við samt bara búin að taka upp helminginn af myndinni! Þá ætluðum við að fá að importa því efni sem við vorum komin með og klippa það og þegar Breki og co. væru búin að nota myndavélina mundum við fá hana aftur og taka upp restina af myndinni. Ég og Héðinn fórum á Amtmannsstíg til þess að importa en… við lentum í ótrúlega miklu basli og veseni sem fól í sér að okkur vantaði firewire snúru. Við reyndum fáránlega margar og langsóttar leiðir til þess að tengja myndavélina og flakkarann en allt kom fyrir ekki og þetta bara virkaði engan veginn! Seinna kom í ljós að téð snúra var heima hjá mér. Ég og Suðu-Hyðjan ákváðum þó að snúa þessum leiðinlega atburð í eitthvað jákvætt. Þetta plan var hvort sem er gjörsamlega vonlaust og langbest að drífa bara af að gera myndina.

Ég stakk upp á að við mundum taka upp nokkur atriði af sjálfum okkur sem við sjálfir þar sem við tölum við áhorfendur um það sem væri að gerast í myndinni og síðan útskýra af hverju hún kláraðist ekki. Eins konar útgáfa af sjálfsmeðvitundar pælingunni sem ég var svo hrifinn af. Héðinn stakk þá upp á því að við færum upp Hljómskálagarð og kláruðum sögu myndarinnar. Þar væru tré og við tveir vorum einmitt einu eftirlifandi persónur myndarinnar (fyrir utan morðingjann). Við fórum út í Bónus og keyptum risastóra krukku af extra chunky salsa sósu sem þjónaði sem einstaklega gróteskt blóð. Þegar við vorum að ganga að Hljómskálagarði duttum við á þá hugmynd að fara frekar í gamla kirkjugarðinn sem er þar nálægt, þar væru engir á ferli og garðurinn er þar að auki mjög myndrænn og mikið af stórum trjám og drungalegum legsteinum.

Við tókum upp helling af efni í kirkjugarðinum af hinu og þessu, margt af því var síðan ekki notað í myndinni en þó sumt. Við hugsuðum það sem tekið upp var í kirkjugarðinum sem annan hluta í myndinni sem tengdist ekki fyrri hlutanum alveg beint, en samt þó. Minnin úr fyrri hlutanum má sjá í seinni hlutanum eins og furðulega tréið í Öskjuhlíðinni er ritað á lófa í seinni hlutanum. Blóð sem lekur út úr trjám má sjá í báðum hlutunum. Við fengum síðan góðvin okkar sem býr nálægt kirkjugarðinum til þess að birtast í cameo hlutverki í myndinni, Guðmund Egil Árnason, en hann lék einmitt aðalhlutverkið í myndinni Syndir feðranna sem var lokamynd hjá einum hópi í fyrra. Það er von okkar að hann muni birtast í fleiri lokamyndum í kvikmyndagerðaráfanganum í MR. Við vildum fyrst að hann mundi taka af sér hana-grímuna, en þar sem við vorum ekki með hana þá létum við það nægja að láta hann segja “Haninn, er ég” og var það líklega betra en hitt. Hann þurfti þó talsverða leikstjórn frá mér og Héðni, sem var mjög gaman. Í einu atriði í fyrri hluta myndarinnar þegar haninn birtist kemur einn rammi af Guðmundi Agli skyndilega, maður tekur varla eftir því í fyrsta skiptið en það ætti að vera hægt að skynja það ef maður fylgist vel með.

Merking myndarinnar vil ég ekki gefa frá mér en hún er vissulega til staðar og það er undir hverjum og einum að finna sína eigin merkingu. Ég er ekki að segja hvert einasta skot þjóni einhverjum dýpri tilgangi en það var alltaf ákveðið plan í gangi og við sáum alltaf strax þegar eitthvað skot passaði ekki inn í stemmninguna í myndinni. Það var að mestu Héðinn sem klippti myndina, þó að við klipptum hana stundum í sameiningu á Amtmannsstíg eftir skóla. Þegar ég sá fyrri hluta myndarinnar fullklipptan af Héðni var ég ótrúlega hissa með hvað hann náði að gera flotta hluti með myndefninu og þetta heppnaðist miklu betur en ég þorði að vona. Seinni hlutinn var meiri klipptur í sameiningu og gekk samstarfið einstaklega vel fyrir sig og flestir á sama máli um hvernig ætti að tækla klippinguna. Þegar myndina var fullklippt var lagt í hljóðvinnsluna sem var næstum því jafnmikið verk og myndvinnslan enda spilar hljóðið talsvert stórt hlutverk í myndinni. Héðinn samdi tónlistina, undir listamannsnafninu Bbar, og var hún mjög óhlustendavæn og óþægileg sem var einmitt markmiðið með henni. Hann var að mestu í skipstjórastólnum þegar við unnum hljóðið og lítið hægt að setja út á ákvarðanir hans í þeim efnum.

Við ákváðum að hætta við “Á tæpasta vaði” titilinn á myndinni enda vorum við á því að myndin væri orðin það góð að svona djók titill mundi ekki hæfa henni. Því var hið mjög svo opna heiti “Op. Nr. I” gefið myndinni, eða Ópus númer eitt. Sem er í rauninni ekki titill heldur bara lýsing á því sem myndin er og það er von mín að þetta verði fyrsti ópusinn í röð margra.

Þegar myndin var frumsýnd var sólarljósið einstaklega leiðinlegt og lýsti upp 1/3 af myndtjaldinu og þegar myndin var hálfnuð kom skært ljós á mitt tjaldið sem var í laginu eins og upphrópunarmerki og þetta skemmdi mjög mikið stemmninguna. Einnig fannst okkur hljóðið ekki nógu hátt stillt því að það á að vera mjög óþægilegt en á svona lágum styrk var það of áhlustanlegt. Vonandi munu nemendur og kennarinn njóta myndarinnar betur þegar við fáum mynddiskinn og getum þá horft á myndina heima hjá okkur. Ég var allavega virkilega ánægður með útkomuna og er stoltur af myndinni.

Bónus: Bara smá forvitni, hvernig fannst þér myndin vera undir áhrifum frá David Lynch, Siggi? Idi i smotri homage-ið var alveg meðvitað en við pældum ekki í Lynch-áhrifum við gerð myndarinnar nema Björn Ívar hafi smeygt einhverjum "easter eggs" í myndina sem ég hef ekki tekið eftir, enda annálaður Lynch aðdáandi.

3 ummæli:

Unknown sagði...

Nennti ekki að lesa þennan babar, en bledzig þó!

Gísli Guðlaugsson sagði...

Ég hélt fyrst að þetta væri athugasemd frá mér, frekar skrítið málfar. Þetta er víst einhver annar...

Siggi Palli sagði...

Fín færsla. 10 stig.