mánudagur, 12. janúar 2009

Er 2000-2009 besti áratugur kvikmyndasögunnar?

Ég vil byrja á að taka fram að það er ekkert skýrt markmið með þessari færslu, bara vangaveltur um hitt og þetta. Í nóvember birti Jóhanna lista yfir “20 bestu myndir að mati Frakka” (og fékk heil tvö stig fyrir!) og athygli vekur að enginn mynd á listanum er yngri en 45 ára. Ekki veit ég hvaðan hún koppípeistaði listann en alveg er ég þó viss um að hann endurspegli ekki smekk allra Frakka, heldur örfárra kvikmyndaspekúlanta. Spurðu 1000 Frakka hvað Rio Bravo er og kannski einn muni segja “vestri leikstýrður af Howard Hawks”, kannski munu tveir segja “uppáhalds barinn minn”, restin mun ekki hafa hugmynd. Þessi listi er ekkert einsdæmi, oftast þegar gagnrýnendur gera lista yfir bestu myndir allra tíma er ekki algengt að þeir setji mikið af myndum frá síðustu 20 árum eða svo á listann, sjá t.d. þennan lista úr enska tímaritinu Time Out (endilega tékkið neðst til að sjá hinn mjög sérstaka lista Gus Van Sant). Hins vegar eru svipaðir listar þar sem tekið er mið af áliti fólksins allt öðruvísi en þegar gagnrýnendur eru spurðir, það sést bersýnilega á hinum alræmda Top 250 á imdb. Þar þurfa myndir ekkert sérstaklega að hafa staðið tímans tönn eða reynst vera áhrifamiklar, fólk einfaldlega gefur myndum einkunn eftir því hversu góðar það finnst þær. Þannig eiga glænýjar myndir greiða leið á listann, sem er ekkert nema gott, að mínu mati að minnsta kosti.

Rio Bravo: Vestri eða hommabar?

Þegar The Dark Knight kom út skaust hún beint í fyrsta sætið á imdb-listanum, þegar þetta er skrifað er hún nýbúin að detta úr fjórða sætinu í það fimmta. Það hefur örugglega fengið marga gagnrýnendur til þess að hrista hausinn. Þessi mynd um mann sem dressar sig sem leðurblöku getur ekki verið betri en klassísk meistaraverk á borð við Casablanca eða Citizen Kane, er það?! Mér persónulega finnst The Dark Knight vera betri en Citizen Kane en ekki Casablanca. Hype-ið var auðvitað það rosalegt þegar The Dark Knight kom út og þegar fólk sá að hún stóð undir því rauk það beint heim úr bíóinu til þess að gefa henni 10. Síðast þegar mynd var hæpuð jafn mikið og The Dark Knight var árið 1999 þegar The Phantom Menace kom út, en fólk hraunaði yfir hana eins og hún væri versta mynd allra tíma því hún stóð ekki undir hype-inu, persónulega finnst mér hún fín. Þetta er ákveðið forskot sem nýjar myndir hafa á gamlar þar sem flestar myndirnar á listanum er löngu búið að sýna í kvikmyndahúsum og því geta þær ekki grætt á því ef æði grípur sig. Ég gæti ímyndað mér ef imdb hefði verið til á sjöunda áratugnum að A Hard Day’s Night hefði skotist beint upp í fyrsta sætið árið 1964 og verið þar næstu árin. Forskotið sem gömlu myndirnar hafa á þær nýju er að með tímanum geta þær talist áhrifamiklar eða “klassískar”.

Fimmti, sjöundi, áttundi og níundi áratugurinn eru allir með svipað margar myndir á imdb-listanum.

Ég tók saman frá hvaða áratug myndirnar á topp 250 listanum eru frá og voru niðurstöðurnar mjög áhugaverðar, en niðurstöðurnar má sjá í formi grafs hér fyrir ofan. Í fyrsta lagi finnst mér merkilegt að sjö myndir frá árunum 1920-1929 eru á listanum, en það eru allt þöglar myndir. Allt í allt eru þöglu myndirnar tíu á listanum. Skemmtilegt að fólk geti ennþá haft gaman að þessum myndum þegar kvikmyndagerð hefur farið fram á eiginlega öllum sviðum síðan þær voru gerðar. Persónulega hef ég ekki mikla skoðun á þöglum myndum þar sem ég hef bara séð tvær. Mér fannst Birth of a Nation eiginlega það löng að ég meikaði ekki að horfa á hana alla, vissulega mjög áhugaverð og allt það, en samt sem áður úrelt og náði ekki að halda athygli minni til enda. Síðan var það The General sem er mun styttri og mun skemmtilegri, þó hún sé kannski ekki topp 10 kandídat í mínum augum… Ætli gamanmyndirnar frá þessum tíma eldist ekki betur þar sem líkamlegt grín verður aldrei þreytt og það er ekki hægt að gera það neitt sérstaklega betur núna en á þögla tímabilinu enda reiðir grínið sig ekki á samtöl.

Maggi unir sér vel í skammarkróknum ásamt rektorsfrúnni, en Maggi horfði einmitt á The General þaðan.

Í öðru lagi eru 38 frá sjötta áratugnum. Á þessum tíma var hin svokallaða gullöld Hollywoods í fullum gangi og þannig hafa flestar þessara mynda öðlast ákveðins “klassík”-stimpils. Hitchcock á þrjár af efstu sex frá sjötta áratugnum. Í þriðja lagi eru myndirnar frá áratugnum sem við lifum á heilar 52. Þetta er yfirburða margar myndir en á eftir kemur fyrrnefndur sjötti áratugur með 38 myndir og 2009 er bara rétt byrjað þannig að fleiri myndir munu líklegast bætast í hópinn. Þá má spyrja sig, er 2000-2009 besti áratugur kvikmyndasögunnar? Imdb-listinn að minnsta kosti bendir til þess. Hann er þó langt frá því að vera heilagur, þeir sem kjósa á imdb eru langflestir frá Vesturlöndunum og þá sérstaklega Bandaríkjunum enda sést það bersýnilega á myndunum sem eru á listanum. Ef við ráðfærum okkur við annan, og jafnvel marktækari, lista þá komumst við þó að sömu niðurstöðu, en ég er hér að tala um topp 10 lista Sigga Palla. En 5 af 10 myndum á honum eru frá 21. öldinni (og tvær frá 10. áratug 20. aldar). Síðan er líka hægt að líta til einhverja af topp 10 listunum hjá nemendum í áfanganum, en oftast eru myndir frá síðustu 10 árum ríkjandi þar.

Skemmtilega Paramount-laga graf frá They Shoot Pictures, Don't They? Hrapið frá áttunda til níunda áratugarins minnir dálítið á úrvalsvísitöluna frá 2007 til 2008.

Ef við skoðum síðan enn annan lista þá komumst við allt öðrum niðurstöðum. Listinn frá hinni ágætu vefsíðu “They Shoot Pictures, Don’t They?” vegur lista frá hinum ýmsu kvikmyndagagnrýnendum um bestu myndir allra tíma. Listinn er alveg 1000 mynda langur en ég tók bara mið af efstu 250 myndunum þar sem imdb-listinn er ekki lengri en það. Þar kemst 21. öldin ekki einu sinni á blað, en 2. áratugurinn er hins vegar með fjórar myndir, en það er engin mynd frá 2. áratugnum á imdb-listanum. Ef við skoðum grafið af gagnrýnendalistanum þá vex það þangað til það toppar á sjöunda áratugnum, svipað og hjá imdb, en síðan fellur það markvisst niður og endar í aðeins fjórum myndum frá 10. áratugnum, sem er allt annað en hjá imdb. Efsta myndin frá 21. öldinni er í 344. sæti en það er myndin Fa yeung nin wa sem er einmitt á topp 10 lista kennarans. Af þessu mætti gera ráð fyrir að kvikmyndagerðarmenn í dag eru í tómu tjóni og eiga ekkert í gömlu meistaranna sem voru að gera myndir fyrir 40-60 árum, þó það sé svolítið ósanngjörn ályktun þar sem allar myndir sem geta talist "bestu myndir allra tíma" verða að hafa staðist tímans tönn. Ég vil líka bæta við að það er gaman hvað gagnrýnendalistinn er fjölbreyttur þegar kemur að þjóðerni myndanna (þó að ca. helmingur myndanna eru frá Bandaríkjunum, þá er það mun minna hlutfall en á imdb-listanum).

Citizen Kane er besta mynd allra tíma samkvæmt lista sem vó lista frá 1825 gagnrýnendum.

Svo ég komi nú með eitthvað niðurlag á þessari óreiðukenndu færslu þá ætla ég að reyna að svara spurningunni sem ég set fram í titlinum, bara svona persónulega. Ég mundi segja að, já, fyrsti áratugur 21. aldar er besti áratugur kvikmyndasögunnar, ekkert endilega því það eru miklu betri leikstjórar núna en áður, ekki heldur því að tækni hafi fleytt svo mikið fram síðan á gullöldinni, heldur því kvikmyndagerðarmenn í dag tala okkar máli, ef svo mætti segja. Það er auðveldara að samsvara sig við myndir sem gerast og voru framleiddar í nútímanum en þær sem gerðar voru löngu áður en við fæddumst. En þegar allt kemur til alls, þá er enginn áratugur betri en annar, enda hafa verið gerðar heill hellingur af myndum, frábærum og skelfilegum, frá öllum áratugum.

Bónus: Af 100 efstu myndunum á imdb-listanum hef ég séð 58. Af 100 efstu myndunum á tspdt-listanum hef ég séð 16. Ég er greinilega maður fólksins frekar en spekúlantanna.

5 ummæli:

Jóhanna sagði...

Ég kópí peistaði þessum lista af mbl.is ...

Þetta var bara desperat aðgerð til að ná lokastigum þarna í enda annarinnar =)

Magnús Örn Sigurðsson sagði...

já sæll. klassa færsla - mjög frumleg og skemmtileg. Myndin af mér fín en ég spyr: Ertu búinn að senda Spalla myndina okkar?

andri g sagði...

jújú, búinn að senda meistaraverkið á hann. sæll.

Siggi Palli sagði...

Sniðug færsla. 10 stig.

Af efstu 100 á imdb hef ég séð 95 (og vantar bara myndir frá seinustu tveimur árum).
Af efstu 100 á tspdt hef ég séð 72.

Ég er ekki alveg sammála því að kvikmyndagerð hafi tekið einhverjum stakkaskiptum frá þögla tímanum. Vissulega hefur tæknin breyst, og hljóðið bæst við, en hvað það snertir að segja sögu í myndum, þá hafa framfarirnar orðið furðu litlar. Málið er nefnilega að kvikmyndagerð fór aftur (að mínu mati) á mörgum sviðum með tilkomu hljóðsins. Mér finnst heldur ekki beint að marka Birth of a Nation - hún inniheldur nokkrar mjög góðar senur, en mér finnst Griffith bara ekki mjög spennandi leikstjóri. Hann var frekar gamaldags á sínum tíma hvað snertir að segja sögur. Að mörgu leyti var hann meiri 19. aldar maður. Ef maður lítur á menn eins og Murnau, King Vidor, Victor Sjöström og Dreyer (og svo auðvitað Buster Keaton) þá fær maður allt aðra mynd af kvikmyndagerð þessa tíma.

Hvað imdb listann snertir þá er ég í meginatriðum ánægður með hann nema með alveg glænýjar myndir. Nýjar myndir (yngri en 5 eða 10 ára) eru óhóflega ofarlega á listanum, eins og sannaðist með Dark Knight. Svo skil ég reyndar heldur ekki af hverju Shawshank Redemption er svona rosalega ofarlega...

Gamlar myndir eru "acquired taste". Þær eru yfirleitt hægari en nýjar myndir (raunar á það ekkert endilega við um þöglu myndir 3. áratugarins sem voru miklu hraðari en myndirnar á fyrstu 3 áratugum hljóðsins), og efnistökin eru ekki alveg þau sömu. En eftir að maður venst þessu, þá eru þær síst verri en nýjar myndir.

Ég fékk myndina en er ekki búinn að horfa á hana. Biðst forláts á því...

andri g sagði...

Já, ég var aðallega bara að segja að það sé dálítið merkilegt (og skemmtilegt) að fólk geti notið mynda þar sem búið er að "fjarlægja" heilt skilningarvit úr kvikmyndaupplifuninni (hæpið að nota það orð þar sem það var ekkert hljóð til að byrja með). En eins og ég segi þá get ég voða lítið sagt um þöglar myndir þar sem ég hef bara séð tvær. En þær eru líklega bara eins og flest annað, ef það er vel gert þá er það gott, burtséð frá öllu öðru.

Ég held að Shawshank Redemption sé svona hátt uppi því fólk þorir ekki annað en að gefa henni tíu. Hún er svo fullkomin eitthvað. Það er í rauninni fáránlegt að hún hafi ekki unnið helling af Óskarsverðlaunum því það er eins og hún hafi verið sköpuð fyrir það, en hún tapaði þó fyrir annarri mynd sem var búin til fyrir Óskarinn, Forrest Gump.