miðvikudagur, 28. janúar 2009

C'est arrivé près de chez vous (Á tæpasta vaði)

Ég missti af þessari mynd af óhjákvæmilegum ástæðum og hefði auðvitað frekar viljað sjá hana með krökkunum með tilheyrandi kaldhæðnum athugasemdum frá Magga Erni og nammipokakrafsi frá Helgu, en ég þurfti að sætta mig við gamla góða stólinn heima, vonandi að ég fái mætingu fyrir tímann fyrir þessa færslu. Þar sem allir ættu að vera búnir að sjá Man Bites Dog ætla ég ekkert að reyna að passa upp á spilla ekki neinu. Halli glans var búinn að segja við mig að hún væri frekar ógeðsleg þannig að ég var undir öllu búinn. Myndin fjallar um raðmorðingja, alveg ótrúlega kaldrifjaðan, en maður tekur fljótt eftir því að hann frábrugðinn mörgum öðrum raðmorðingjum sem maður sér á hvíta tjaldinu að því leyti að hann virðist ekki fá neitt út úr því að myrða fólk. Hann drepur fólk án þess að pæla í því neitt sérstaklega og vill helst bara fá peningana þeirra. Frægir raðmorðingjar eins og t.d. Norman Bates (Psycho) og góðvinur okkar allra Dexter Morgan myrða af djúpum sálrænum ástæðum þannig að maður kaupir frekar geðveiki þeirra. Benoit er reyndar sýndur ásamt fjölskyldu og vinum þar sem hann er mjög vinalegur, en það gefur manni þó engar hugmyndir um af hverju hann er að myrða. Kannski kaldhæðnislegt þar sem þetta á að vera heimildarmynd um morðingjann. Benoit er kannski eins og Jókerinn að því leyti að við vitum ekkert hvernig hann varð svona og það gerir hann mun óhugnarlegri og ómannlegri og það var kannski markmið leikstjórans (Siggi Palli, þetta var cue-ið þitt um að ranghvolfa augunum).

Það er áhugavert að sjá hvernig leikstjórinn (gæjinn með síða hárið, vinstra megin á mynd neðar) breytist í gegnum myndina og verður alltaf sífellt spilltari af siðleysingjanum Benoit. Snemma í myndinni sést hann gráta og syrgja vinn sinn hljóðmanninn, seinna myndinni nauðgar hann síðan saklausri konu og er farinn að taka þátt í geðveikinni. Eina skiptið sem Benoit sýnir einhverjar tilfinningar var þegar hann fann flautustelpuna dauða í rúminu, hann blikkaði ekki einu sinni auga þegar hann skaut gamla kallinn í afmælinu sínu, og allt þetta harðgerða tilfinningaleysi magnaði upp atriðið þegar loksins sást að honum var annt um eitthvað í lífinu. Benoît Poelvoorde fannst mér vera virkilega góður sem sérvitri morðinginn og mörg atriði í myndinni eru mjög skemmtileg eins og þegar hann drepur gömlu konuna með því að öskra á hana. Endirinn var semi ódýr, en ég get ekki ímyndað mér hvernig hún hefði frekar átt að enda miðað við þær skorður sem formatið á henni setur hana í. Maður á líklegast að halda að ítalski gæjinn sem sendi honum rottuna (eða hvar það var) hafi drepið hann til að hefna bróður síns.

Myndin á að vera svört kómedía og hún er vissulega svört en það eru nú ekki mörg atriði sem eru sérstaklega fyndin, myndin er eiginlega ekki nógu lúmsk til þess að geta púllað þennan vandmeðfarna svarta húmor, en jújú, sum atriði eru alveg fyndin eins og þegar hann drepur svarta manninn. Ef ég ætti að gefa myndinni stjörnur væri það líklega bara öruggar þrjár af fjórum. Það er skemmtilegt að sjá hvað hægt er
að gera góða mynd fyrir litla peninga ef þeir sem eru að gera myndina eru bara nógu hugmyndaríkir, og þá er ég að tala um að setja mynd um raðmorðingja upp sem heimildarmynd (og í svarthvítu) þannig að þeir þurfa ekki að pæla í krönum og lýsingu og tónlist etc., vel gert kappar, mjög frumlegt. Eitt sem ég vil nefna er að afmælissöngurinn (á ensku af einhverri ástæðu) er í myndinni, en það er frekar sjaldgæft að hann er í heild sinni í kvikmynd þar sem það þarf að borga himinhá höfundarréttagjöld til einhverra gráðugra hunda í hvert sinn sem það er notað í mynd. Til dæmis í Rocky Horror þá eru sérstaklega gefin fyrirmæli um að klára hann ekki, á kómískan hátt að sjálfsögðu, en þar sem Man Bites Dog var bara eitthvað útskriftarverkefni bjuggust kvikmyndagerðarmennirnir líklega ekki við að þurfa að pæla í þessu.

Bónus: Ég gleymdi að nefna það í 2008 færslunni minni að ég sá Sex & the City: The Movie og mér fannst hún bara virkilega góð og fékk mjög ánægjulega gæsahúð af "For the next fifty" línunni í lok myndarinnar, og líka fleiri góðum línum eins og "Carried away", klassík. Mér fannst þó viðbrögð Carrie við öllu brúðkaupsdæminu vera fáránlega mikil. Ókei, skil að hún hafi verið á smá bömmer en aðeins að slaka á að flýja land og aldrei vilja sjá Mr. Big aftur, SÆLAR.

mánudagur, 26. janúar 2009

Heimsókn Friðriks Þórs

Ég hef nú alltaf reynt að halda ákveðnum gæðastaðalli á blogginu hérna og reynt að fá allvega 7+ fyrir hverja færslu, en maður vill nú ekki fá mínusstig þannig að ég hendi í þessa færslu með talsverðum skorti af metnaði og venjulega. Var búinn að plana að fá 30 stig með þremur færslum í janúar mánuði, en jæja.

Friðrik Þór að leika öllum illum látum í kennslustofu í myndinni Direktøren for det hele eftir Lars von Trier. Hann var þó mun vingjarnlegri þegar hann kom í okkar kennslustofu.

Ég verð líka að viðurkenna að ég fór aldrei á Sólskinsdreng. Ég ætlaði með Haraldi en síðar var hann í potpriksbúðum þegar Frikki kom þannig að hann beilaði og ég vildi ekki fara einn í bíó á mynd um einhverfu. Ég var þó í tímanum þegar Friðrik Þór kom og get skrifað eitthvað um það. Bara það að hann skuli hafa viljað koma finnst mér magnað, að mæta snemma á miðvikudagsmorgni til að tala við örfáa menntaskólakrakka er eitthvað sem ég hélt að stórt nafn eins og hann mundi ekki nenna. Props til Spalla að fá hann (er Spalli eitthvað nýtt gælunafn eða eitthvað djók hjá Magga... eða Merni?). Hann talaði heilmikið um myndina og gerð hennar og jafnvel þó ég hafði ekki séð hana var áhugavert að hlusta á hann. Ég hefði þó viljað heyra hann tala um kvikmyndagerð almennt og kannski áhrifavalda og þannig. Hérna kemur smá golden moments upptalning...
  • Fannst fyndið að hann mundi ekki hvað Jim Carrey hét.
  • Hann sagði að Rain Man væri fín mynd.
  • Hann talaði um að sex tíma gróf klipping af Sólskinsdrengi svínvirkaði og það væri alveg áhugavert að sjá hana, hann gæti kannski gefið hana út sem fjögurra þátta mini-seríu á RÚV eða eitthvað.
  • Fannst líka merkilegt það sem hann sagði um að Keli væri myndarlegur strákur, en það er alveg satt að maður nennir frekar að horfa á kvikmyndir með fallegu fólki en ljótu fólki, eða svona, nokkurn veginn.
  • Fílaði líka hvernig hann talaði um Hollywood, hann sagði að hann gæti alveg farið þangað en þá mundi hann missa listræna frelsið og hið alræmda "final cut".
  • Fannst skandall hvað Jói mætti seint. Legg til að hann fái mínusstig og helst ávítun.
  • Væri samt alveg til í að sjá hann leikstýra Hollywood mynd.
  • Síðan var líka gaman að sjá eina frægustu mottu Íslands svona með berum augum.

Bónus: Spurning til Sigga Palla, get ég bloggað um myndirnar sem ég missti af á föstudögum fyrir jól og fengið mætingu fyrir þá tíma?

laugardagur, 17. janúar 2009

2008 í kvikmyndum

Ef ég ætla að fara að skrifa um bestu myndirnar sem ég sá á síðasta ári þá þarf ég fyrst að pæla aðeins í því hvaða myndir ég sá á síðasta ári. Ég get auðveldlega sagt að ég hafi aldrei horft á fleiri myndir á einu ári en 2008. Árið á undan horfði ég á kannski 10-12 myndir allt árið, sem voru örugglega fæstar myndir sem ég hef séð á einu ári síðustu tíu árin eða svo. Ég held að mikil aukning í kvikmyndaáhuga mínum kviknaði strax 1. janúar á síðasta ári þegar ég horfði á Pulp Fiction í góðra vina hópi og síðan þá hef ég alltaf verið að leita mér að góðum myndum til að horfa á. Síðan kviknaði áhuginn enn glaðar þegar kvikmyndaáfanginn byrjaði í ágúst. Í jólafríinu var ég með það að markmiði að horfa á eina mynd á dag, ég náði auðveldalega að standa við það og ég horfði líklega að meðaltali á 2,25 myndir á dag í jólafríinu. Á árinu horfði ég á (nánast) allar ofurhetjumyndir síðustu ára, horfði á nokkrar myndir sem tilheyra kvikmyndagreinum sem ég hafði aldrei séð áður (blaxploitation, propaganda, women in prison og fleira) og þar að auki horfði ég á margar klassískar myndir sem hafa verið lofaðar bak og fyrir síðan þær komu út. Ég ætla að reyna að setja bestu myndirnar sem ég sá 2008 í hinn klassíska topp tíu lista, ég fjalla auðvitað bara um þær myndir sem ég sá í fyrsta sinn á þessu ári, og síðan tala ég aðeins um þær myndir sem ég sá sem komu út árið 2008, þær eru nú ekki það margar að ég geti ekki skrifað smá um þær allar.

10. Sleuth (1972, Joseph L. Mankiewicz)
Þessa mynd ákvað ég að horfa á því pabbi minn fór mjög fögrum orðum um hana og ég skrifaði um að ég ætlaði að horfa á hana í fyrstu færslunni minni (ég er búinn að strika yfir þær myndir sem ég er búinn að sjá ef einhver hefur áhuga á því). Þessi mynd er byggð á leikriti og það sést strax á sviðsmyndinni og samtölunum. Einnig fannst mér leikurinn vera full leikhúslegur, sérstakega hjá Sir Laurence Olivier. Hins vegar eru góðu hlutirnir við myndina miklu fleiri en þeir slæmu. Plottið er alveg frábært, alveg dásamlega flókið með ófáum óvæntum fléttum. Myndin er í rauninni bara eitt tveggja tíma langt samtal og lítið sem ekkert um einhvern hasar, en það er samt alltaf verið að örva huga manns þannig að athyglin helst auðveldlega í gegnum alla myndina. Virkilega góð mynd ef maður er í stuði til að hugsa aðeins. Ég veit þó ekki alveg hvað mér á að finnast um endinn, ég er eiginlega ennþá að velta því fyrir mér hvort mér finnist hann algjör snilld eða algjör skelfing.

Michael Caine leikur unga manninn og Laurence Olivier leikur gamla manninn. Myndin var endurgerð árið 2007 og þá leikur Michael Caine gamla manninn og Jude Law unga manninn.

9. Titanic (1997, James Cameron)
Sjá hér.

"I can fly!". Mér er sama hvað fólk segir, þetta er geðveikt atriði.

8. There Will Be Blood (2007, Paul Thomas Anderson)
Það væri jafnvel hægt að segja að þessi mynd hafi komið út árið 2008 þar sem hún var ekki sýnd á Íslandi fyrr en þá. Ég vissi nákvæmlega ekkert um þessa mynd þegar ég horfði á hana, nema bara að Daniel Day-Lewis léki í henni. Af titlinum að dæma mætti halda þetta væri einhver thriller, en þetta er hinsvegar næstum þriggja tíma drama mynd um olíujöfur í Bandaríkjunum á seinni hluta 19. aldar. Það þarf varla að taka fram að Daniel Day-Lewis á algjöran stjörnuleik eins og honum einum er lagið, enda snatchaði hann eitt stykki Óskar fyrir þetta helvíti. Ég veit ekki hvað ég get meira sagt um myndina að hún er bara rosalega GÓÐ, allt í henni er pottþétt, leikurinn, leikstjórnin, myndatakan, útlitið, handritið etc. etc.. Leikstjórinn er Paul Thomas Anderson og þegar ég lít yfir filmógrafíuna hans þá sé ég að mér finnst allar myndirnar hans geðveikar og á bara eftir að sjá þá fyrstu, Hard Eight, ætli maður verði ekki drjólast til að spekka hana við tækifæri.

Myndin fjallar mikið um sérstaka sambandið milli olíujöfursins og sonar hans.

7. Glengarry Glen Ross (1992, James Foley)
Sjá hér. Eina sem ég ætla að segja um hana núna er “FUCK YOU! THAT’S MY NAME!”.

"You know what it takes to sell real estate? It takes brass balls to sell real estate."

6. The Dark Knight (2008, Christopher Nolan)
Ég veit ekki alveg hvort ég eigi að skrifa um hana núna eða í seinni hlutanum á ofurhetjumyndafærslunni sem ætti að fara að detta inn annað hvort í þessum mánuði eða þeim næsta. Ætli það sé ekki betra að fjalla um hana í samhengi við aðrar ofurhetjumyndir þar sem hún er allsérstök sem slík.

Ætli þetta verði ekki frægasta skotið úr myndinni þegar fram líða stundir? Maður veit ekki.

5. Once Upon a Time in the West (1968, Sergio Leone)
Ég er reyndar ekki alveg viss um hvort ég hafi séð hana árið 2008, held að 2009 hafi formlega verið dottið inn, en það skiptir ekki öllu. Þessi mynd er leikstýrð af meistaranum Sergio Leone, konung spagettívestrana. Ég hef séð The Good, the Bad and the Ugly og Fistful of Dollars úr Man With No Name-þríleiknum svokallaða sem allar eru með Clint Eastwood í aðalhlutverki. Þegar Leone gerir síðan þessa mynd fannst honum hann vera að gera sinn magnum opus. Það fyrsta sem maður tekur eftir er hvað allt er ótrúlega svalt, allar persónur tala með svo miklum töffarabrag og margir af frösunum sem þær láta út úr sér eru algjört gull. Tek sem dæmi alveg í blábyrjun myndarinnar þegar þrír gæjar ætla að slátra aðalhetjunni eftir að hafa riðið einhvers staðar lengst út í eyðimörk á lestarstöð til að finna hana, þá gantast einn af óþokkunum við hetjuna “Looks like we’re shy one horse”, þá segir hetjan “you brought two too many” og skýtur þá síðan alla með skammhleypunni sinni á augabragði. Tónlistin er auðvitað frábær og spilar mikið hlutverk í myndinni, en goðsögnin Ennio Morricone samdi hana eins og fyrir allar myndir Leone. Handritið er mjög vel skrifað og nánast allar aðalpersónur myndarinnar breytast og þroskast þegar líður á myndina. Endirinn er síðan kirsuberið ofan á tertunni. Algjör snilld.

"Harmonica" stendur frammi fyrir þremur mönnum sem hafa bara eitt í huga: að drepa hann.

4. 2001: A Space Odyssey (1968, Stanley Kubrick)
Ég horfði á sex Kubrick myndir á seinasta ári, að ég held, annaðhvort í fyrsta sinn eða aftur og ég þarf virkilega að sjá þær bara allar. Að minnsta kosti hef ég aldrei séð Kubrick mynd sem er ekki frábær. Ég hef talað um það áður að ég elska góð samtöl í myndum, í þessari mynd er mjög lítið lagt upp með samtöl og myndmálið er mjög mikið. Það hefur verið talað um að þessi mynd sé vísindalega nákvæmasta sci-fi mynd sem hefur verið gerð, en Kubrick lagði mikið upp með að hafa hana sem raunsæasta, t.d. er ekkert hljóð út í geimnum, eitthvað sem margir kvikmyndagerðarmenn hafa klikkað á (Alderaan einhver…). Það er búið að vísa svo mikið í þessa mynd að maður kannast nokkurn veginn við annað hvert atriði, þó kom endirinn mér mjög á óvart. Magnús Örn talaði við mig fyrir stuttu að þessi mynd sé dálítið eins og listaverk, hún er ekki ágeng, maður verður bara að horfa og njóta.

Fallegt skjáskot úr 2001.

3. Psycho (1960, Alfred Hitchcock)
Maður hefur nú verið lengi til þess að drjólast til þess að sjá þessa. Sé alls ekki eftir því. Ég gæti ímyndað mér að ef ég hefði séð þessa mynd í bíó árið 1960 án þess að vita neitt um hana yrði ég algjörlega orðlaus. Það eru svo stórkostlegar sögufléttur í henni, en því miður vissi ég nokkurn veginn um þær allar, ekki alveg allar þó. Engu síður naut ég þessarar myndar mjög mikið. Bara það að horfa á Hitchcock worka sína kvikmyndagaldra er nóg. Ég var alveg skíthræddur á köflum og allt andrúmsloftið er byggt þannig upp að maður veit aldrei hvað gerist næst og maður er alltaf á tánum. Gus Van Sant endurgerði myndina árið 1998 skot fyrir skot, ég hef ekki séð hana en hún er víst ekkert góð, ég held að það sé vegna þess að það er ekki hægt að endurgera andrúmsloft, það er hægt að skjóta sömu skotin og leika sömu línurnar, en hitt er eitthvað sem gerir myndina einstaka.

Marion Crane í sinni síðustu sturtuferð.

2. 12 Angry Men (1957, Sidney Lumet)
Þriðja myndin á listanum sem er byggð á leikriti og líka önnur myndin með Henry Forda. Eins og Sleuth þá gerist þessi mynd öll á sama stað, Sleuth gerist þó í einu húsi en þessi gerist bara í einu herbergi. Ég vissi ekki mikið um þessa mynd en hún var eina myndin sem ég átti eftir að sjá á af tíu efstu myndunum á imdb-listanum, en mér fannst skrýtið hvað þessi mynd var hátt uppi miðað við hvaða hinar níu myndirnar eru miklu frægari. Tólf manna kviðdómur á að dæma í morðmáli, ellefu eru sannfærðir um að gæjinn sé sekur, einn er ekki alveg viss, sá er Henry Fonda. Fonda sýnir stórleik í þessari mynd og allir aðrir leikarar standa sig líka vel. Þessi mynd snýst voðalega mikið um karaktera, allir karakterarnir hafa sín einkenni og sögur að segja og allt flæðir þetta eitthvað svo óþvingað, virkilega vel skrifað handrit. Þó myndin sé byggð á leikriti þá er kvikmyndalistin nýtt til hins ítrasta til þess að magna áhrifin. Við sáum einhvern tímann brot úr myndinni í tíma þar sem sýnt var hvernig skotin urðu alltaf þrengri og linsurnar víðari þegar leið á myndina til að gefa manni smá innilokunarkenndartilfinningu þar sem myndin verður alltaf magnþrungnari og þyngri þegar á líður. Maður tekur svo sem ekkert sérstaklega eftir þessu, en maður finnur samt fyrir þessu ómeðvitað. Þessi mynd er ekkert nema samtöl, svipað og Sleuth, nema hérna er það ekki á milli tveggja manna heldur samræður tólf manna. Ég held að umfram allt þá er þessi mynd bara ótrúlega skemmtileg, ég elska að sjá ráðgátur leysast smátt og smátt. Þessi mynd fannst mér í alvöru eins og rússibani, eins og skrýtið og það kann að hljóma um svarthvíta mynd sem gerist öll í sama herbergi með engum sprengingum eða bardagaatriðum. Fólk talar oft um myndir sem eru bara “afþreying” eins og það sé eitthvað slæmt sem leiðir okkur toppmyndinni…

Kviðdómendur 2-12 séðir frá sjónarhorni kviðdómanda 1.

1. Suspiria (1977, Dario Argento)
Það er hægt að rekja ástæðuna fyrir því að ég horfði á þessa mynd beint til kvikmyndagerðaráfangans, en vil ég þakka hópnum sem fjallaði um Dario Argento fyrir mjög skemmtilegan fyrirlestur og klippan sem var sýnd úr þessari mynd gerði útslagið, ég hreinlega varð að sjá hana. Síðan er hún líka á topp 10 listanum hennar Birtu og það skemmdi ekki fyrir. Skemmst er að segja frá því að hún stóð undir öllum væntingum og gott það. Atriðið sem við sáum í tíma er auðvitað fáránlega flott, alveg eitt flottasta atriði sem ég hef séð, ótrúlega brútal en jafnframt mjög fallegt. Birta talar um í topp 10 færslunni sinni að sagan í myndinni sé tómt kjaftæði, því er ég ekki sammála, alveg fínasta ofurnáttúrulegt plott sem heldur manni spenntum og áhugasömum allan tímann, en plottið er þó langt því frá aðalatriðið í myndinni. Aðalatriðið er allt útlitið á myndinni og stemmningin sem skapast, það er allt eitthvað svo sérstakt og dularfullt og fallegt. Síðan er hún líka bara svo skemmtileg að maður gleymir stað og stund þegar maður horfir á hana. Þegar ég byrjaði að horfa á myndina vissi ég ekkert að hún fjallaði um eitthvað ofurnáttúrulegt þannig að ég sá alltaf að eitthvað gruggugt væri á seyði meðfram því sem persónurnar föttuðu það. Það kom margt á óvart í myndinni, sérstaklega þegar * blindrahundurinn bítur barkann úr húsbónda sínum* (ekki highlighta nema þið viljið spoila). Tónlistin er fáránlega góð líka og spilar mikið inn í að gera mann skíthræddan. Ég veit ekki hversu vel þessi kenning stenst, en mér finnst Suspiria dálítið sameina allt það góða úr hinum myndunum af þeim fimm efstu á þessum lista. Tónlistin er frábær og gefur myndinni alveg einstakan blæ svipað og tónlistin gerir í Once Upon a Time in the West, fegurð og myndmál er mikið beitt á kostnað samtala svipað og í 2001: A Space Odyssey, andrúmsloftið lætur hárin rísa og maður veit aldrei hvað gerist næst svipað og í Psycho og loks þá kemst aðalpersónan smátt og smátt að leyndardómum balletskólans svipað og Henry Forda kemst smátt og smátt að sannleika morðmálsins í 12 Angry Men. Eins og vitur maður sagði, ekki snautt.

Fallegt á mjög óhugnalegan hátt.

Nokkrar á þröskuldinum:

Eraserhead (1977, David Lynch)
Þessi mynd var í tíunda sæti á listanum, síðan mundi ég eftir Once Upon a Time in the West og þá datt hún af listanum (ég tala þó um að ég sá OUaTitW árið 2009 þannig að tæknilega séð ætti þessi mynd að vera í tíunda sæti en whatevz). Þessi mynd er voða spes, súrrealísk hryllingsmynd, og maður þarf að vera í ákveðnum stemmara til þess að nenna að horfa á hana, en ef maður er til í að sjá eitthvað skrýtið þá er þessi mynd virkilega góð. Ég get lítið sem ekkert sagt af viti um söguþráðinn enda er hann mjög furðulegur, ég gæti ímyndað mér að handritið að myndinni sé svona ¼ af handriti 12 Angry Men þar sem lítið sem ekkert um hefðbundin samtöl í myndinni. Það er þó alveg einhver söguþráður og þessi mynd stendur ekki af röð af samhengislausum atriðum eins og sumar skrýtnar myndir. Þessi mynd er þó aðallega stemmningin, en þar sem myndin nær að skapa mjög góða stemmningu þá er myndin mjög góð. Síðan má leika sér að því að ráða út úr því hvað David Lynch sé að reyna að segja með þessari mynd.

Þetta er sem sagt strokleðurshaus.

The Big Lebowski (1998, Ethan Coen og Joel Coen)
Mjög fyndin mynd og ég hef lengi ætlað að sjá hana. Ég elska persónuna “The Dude” eins og örugglega allir sem horfa á hana, langt síðan ég hef séð jafn viðkunnalega persónu í kvikmynd. Það kom mér þó á óvart hvað það var mikill söguþráður en ég hélt að myndin fjallaði eiginlega ekki um neitt. Mynd sem fær mann til að hlæja og ófáar skondnu línurnar sem fá að fljúga.

The Evil Dead (1981, Sam Raimi)
Ég veit ekki hvað ég get sagt meira um þessa mynd en að hún er drullu óhugnaleg og þó frekar fyndin, subbuleg, ódýr, en umfram allt er hún geðveik.

Faster, Pussycat! Kill! Kill! (1965, Russ Meyer)
Mig langaði að fjalla um Russ Meyer í fyrirlestrinum fyrir jól en það var því miður ekki boðið upp á það. Þessi mynd er líklega hans frægasta en Meyer var þekktur fyrir að casta bara fáránlega barmmiklum leikkonum í aðalhlutverkum (sjá mynd að neðan!). Það besta við þessa mynd er þó campy díalógið. Það er eins og hver einasta lína sögð af aðalskvísunum þremur var skrifuð með það í huga að vera svalasta lína allra tíma, og leikur þeirra er á svipuðum nótum. Stundum nær díalógið að vera svalt, en þegar það er það ekki þá er hægt að hlæja að því. Þetta getur í rauninni ekki klikkað.

Leikkonur sem voru ráðnar af leikhæfileikum sínum og engu öðru.

Do the Right Thing (1991, Spike Lee)
Núna skil ég svona 100 tilvísanir í þessa mynd í hinum ýmsu rapplögum. Hérna kemur ein: “Feels like summer '89 in Do the Right Thing, got a big ass radio walking down the street/with the Spike Lee nikes on Buggin' Out the streets hand full of gold rings like Radio Raheem” og það er þrefaldur sannleikurinn, Ruth.

Blade Runner (1982, Ridley Scott)
Ég held ég þurfi eiginlega að horfa á hana aftur til að ná almennilega utan um hana. Hún var samt mjög góð. Ég ákvað að horfa á Final Cut útgáfuna sem kom út á síðasta ári, kannski maður horfi á upprunalegu útgáfuna næst.

The Star Wars Holiday Special (1978, Steve Binder/George Lucas)
Horfði á þessa á aðfangadag, hún er svo sem ekkert á þröskuldinum, mig langar bara aðeins og skrifa um hana. George Lucas hefur sagt að ef hann ætti allan tímann í heiminum mundi hann finna hvert einasta eintak af þessu og eyðileggja það með sleggju. Án efa skrýtnasta “mynd” sem ég hef séð. Ef ég hefði gert svona beina textalýsingu af þessari mynd eins og ég gerði með Pulp Fiction þá hefði það bara samanstaðið af athugasemdum eins og “WTF!”. Léttilega miklu skrýtnari en Eraserhead… og ég hef séð hana afturábak…neðansjávar…inn í hvali.

"You're like...family to me". Eitt af mörgum súrum atriðum í myndinni.

Jæja, síðan eru það myndirnar sem ég hef séð frá árinu 2008, held þetta séu allar.

The Incredible Hulk, Iron Man og Hellboy II: The Golden Army
Um allar þessar myndir ásamt The Dark Knight ætla ég bara að fjalla um í seinni hluta ofurhetjumyndafærslunnar. Bíðið spennt!

Quantum of Solace
Vinir mínir hafa talað um að Daniel Craig sé meira James Bourn en James Bond. Ég hef aldrei séð neina Bourne mynd, en það er alveg satt að James Bond í síðustu tveimur myndum hefur ekki verið þessi klassíski Bond eins og í hinum myndunum, ekki það að ég sé einhvern Bond sérfræðingur. Mér fannst þessi mynd þó fínasta skemmtun, ég átti á köflum erfitt með að fylgja plottinu, aðallega vegna þess að það byggir of mikið á Casino Royale. Craig er í toppformi og maður fær allan skammtinn af hasaratriðum eins og maður gerir ráð fyrir í Bond myndum. Mér finnst samt frekar leim að vera að reyna að stokka eitthvað upp í Bondismanum, eins og að láta hann ekki segja “Bond, James Bond” og fleira, sumu á bara ekki að breyta.

JCVD
Þessi mynd fannst mér virkilega góð og frumleg. Jean-Claude Van Damme leikur aðalhlutverkið, en þó er þetta ekki bara heilalaust hasar- og sprengjufest eins og má búast við af honum, heldur leikur hann sjálfan sig. 47 ára semi-útbrunninn leikara, fráskilinn faðir með vandamál í einkalífinu. Hann er nánast guð í heimalandinu sínu Belgíu, en myndin er að mestu leyti á frönsku, og á slæmum degi lendir hann í aðstæðum sem harðnaglarnir sem hann leikur í myndunum sínum gætu auðveldlega komið sér út úr, en Jean-Claude er bara maður. Van Damme fær loksins að sína leikhæfileika sína í þessari mynd og, fjandinn hafi það, hann fer á kostum! Myndin er líka frekar fyndin og Van Damme gerir sífellt grín að sjálfum sér og ferli sínum í myndinni. Hann hefur þó engu gleymt og er alltaf sami töffarinn eins og sést á meistaratöktunum hans í þessu viðtali.


Jean-Claude fer með 7 mínútna dramatískt mónológ sem er beint að áhorfandanum um líf sitt og eftirsjár. Ég er ekkert að djóka.

Wall-E
Góð mynd. Fínasti boðskapur. Ég held ég hafi samt ekki kunnað að meta hana jafn vel og flestir, en hún hefur fengið yfirburða góða dóma frá gagnrýnendum og áhorfendum út um allan heim. Ég held að fólk gefi henni of mikið kredit fyrir að vera ekki með neitt díalóg í fyrri hluta myndarinnar, þeir sem gerðu myndina láta það vissulega virka en það þýðir samt ekkert að það sé sjálfkrafa “snilld meistaraverk snilld!”, og fólk getur líka fallið mikið fyrir myndum ef það er fallegur boðskapur í þeim. En mér finnst þetta tvennt, það að hún sé semi-þögul og hafi fallegan boðskap, ekki hafa neitt að gera með hvort hún sé góð eða ekki. En jújú, hún er góð.

Tropic Thunder
Sæmileg gamanmynd sem…er ekkert fyndin. Ég held ég hafi tvisvar eða þrivar hlegið að einhverju í allri myndinni. Samt fyndið konsept og ég held að það hefði verið skemmtilegra að sjá hana í bíó þar sem hún er með mikið af sprengingum og húllumhæi og ég sá heldur ekki plat-trailerana sem voru sýndir á undan henni í bíó eins og Ísak talar um í færslu sinni um myndina.

Sveitabrúðkaup
Fínasta mynd. Mér finnst leikurinn standa upp úr öllu öðru. Hann er einhvern veginn svo ósvikinn. Líklega vegna þess að leikararnir spunnu flestar línurnar á staðnum frekar en að læra þá utan að af blaði.

Reykjavík-Rotterdam
Besta íslenska spennumyndin, það er ekki spurning. Heldur manni á tánum og sérstaklega fannst mér Jóhannes Haukur Jóhannesson standa sig vel sem skúrkurinn í myndinni, en það draup alveg af honum sleazið og maður leið hálfilla í hvert skipti sem hann birtist á tjaldinu. Toppmynd.

The Amazing Truth About Queen Raquela
Ég fór á þessa mynd en síðan var ég veikur daginn eftir þegar leikstjórinn kom í heimsókn, leiðinlegt með það. Þegar myndin var sirka hálfnuð fór mig að gruna að þetta væri leikin heimildarmynd, sem hún er, þar sem mér fannst skotin vera full góð miðað við heimildarmynd. Ég veit aldrei hvort ég eigi að dæma heimildarmyndir (leiknar eða óleiknar) eftir því hversu mikið þær fræða mann eða hversu vel þær eru gerðar. Þessi allavega tókst að fræða mig um heim sem ég vissi lítið sem ekkert um en sem kvikmynd er hún svo sem ekkert meistaraverk. Alveg sæmileg samt.

Futurama: The Beast with a Billion Backs
Sjá hér.

Futurama: Bender’s Game
Þriðja af fjórum Futurama myndum. Eins og ég sagði um hinar tvær þá hentar kvikmyndaformið bara ekki Futurama, myndin er alltof löng og plottið ber myndina eiginlega ofurliði og er algjör vitleysa. Það skiptir kannski ekki öllu þar sem maður horfir á þetta fyrir djókana og vissulega eru þeir nokkrir helvíti góðir. Mér finnst Bender’s Big Score þó ennþá vera besta Futurama myndin. Sem sannur Futurama aðdáandi bíð ég þó spenntur eftir næstu mynd sem á að leysa ráðgátuna um hinn dularfulla Number 9 Man.

The Machine Girl
Ókei, þessi mynd er í einu orði AAAAAAWWWWEEEESSSSOOOOOMMMMME. Japönsk mynd um stelpu sem hefur misst alla þá sem henni þykir vænt um, ásamt einum handlegg, og hún ætlar að hefna sín. Ofbeldi og blóðútshellingar eru keyrðar alveg í botn í þessari mynd og það er gert með svo teiknimyndalegum hætti að maður getur ekki annað en hlegið. Þessi mynd í rauninni snýst bara um gore-ið, það er ekkert verið að gera mann hræddan, engin bregðuatriði, engin sérstaklega góð samtöl, bara blóðblóðblóð og ofbeldi og oft á tíðum mjög frumlegt ofbeldi. Svöl mynd sem er awesome.

Ég held að boðskapur myndarinnar sé að reita ekki stelpu til reiði sem er með fokking hríðskotabyssu í staðinn fyrir handlegg.

Bónus: Glöggir hafa kannski tekið eftir því að topp "5" listinn til hliðar hafi breyst, en ég ákvað að skella Suspiria og 12 Angry Men strax á hann því mér fannst þær svo góðar og droppa Goodfellas þar sem hún var nokkurn veginn uppfylliefni til þess að ná allavega fimm myndum, mér finnst t.d. efstu fimm myndirnar á 2008-listanum betri en hún, þó hún sé alveg frábær. Þær sex myndir sem eru núna á topp listanum mínum finnst mér vera í hærri klassa en allar aðrar myndir sem ég hef séð...held ég.

mánudagur, 12. janúar 2009

Er 2000-2009 besti áratugur kvikmyndasögunnar?

Ég vil byrja á að taka fram að það er ekkert skýrt markmið með þessari færslu, bara vangaveltur um hitt og þetta. Í nóvember birti Jóhanna lista yfir “20 bestu myndir að mati Frakka” (og fékk heil tvö stig fyrir!) og athygli vekur að enginn mynd á listanum er yngri en 45 ára. Ekki veit ég hvaðan hún koppípeistaði listann en alveg er ég þó viss um að hann endurspegli ekki smekk allra Frakka, heldur örfárra kvikmyndaspekúlanta. Spurðu 1000 Frakka hvað Rio Bravo er og kannski einn muni segja “vestri leikstýrður af Howard Hawks”, kannski munu tveir segja “uppáhalds barinn minn”, restin mun ekki hafa hugmynd. Þessi listi er ekkert einsdæmi, oftast þegar gagnrýnendur gera lista yfir bestu myndir allra tíma er ekki algengt að þeir setji mikið af myndum frá síðustu 20 árum eða svo á listann, sjá t.d. þennan lista úr enska tímaritinu Time Out (endilega tékkið neðst til að sjá hinn mjög sérstaka lista Gus Van Sant). Hins vegar eru svipaðir listar þar sem tekið er mið af áliti fólksins allt öðruvísi en þegar gagnrýnendur eru spurðir, það sést bersýnilega á hinum alræmda Top 250 á imdb. Þar þurfa myndir ekkert sérstaklega að hafa staðið tímans tönn eða reynst vera áhrifamiklar, fólk einfaldlega gefur myndum einkunn eftir því hversu góðar það finnst þær. Þannig eiga glænýjar myndir greiða leið á listann, sem er ekkert nema gott, að mínu mati að minnsta kosti.

Rio Bravo: Vestri eða hommabar?

Þegar The Dark Knight kom út skaust hún beint í fyrsta sætið á imdb-listanum, þegar þetta er skrifað er hún nýbúin að detta úr fjórða sætinu í það fimmta. Það hefur örugglega fengið marga gagnrýnendur til þess að hrista hausinn. Þessi mynd um mann sem dressar sig sem leðurblöku getur ekki verið betri en klassísk meistaraverk á borð við Casablanca eða Citizen Kane, er það?! Mér persónulega finnst The Dark Knight vera betri en Citizen Kane en ekki Casablanca. Hype-ið var auðvitað það rosalegt þegar The Dark Knight kom út og þegar fólk sá að hún stóð undir því rauk það beint heim úr bíóinu til þess að gefa henni 10. Síðast þegar mynd var hæpuð jafn mikið og The Dark Knight var árið 1999 þegar The Phantom Menace kom út, en fólk hraunaði yfir hana eins og hún væri versta mynd allra tíma því hún stóð ekki undir hype-inu, persónulega finnst mér hún fín. Þetta er ákveðið forskot sem nýjar myndir hafa á gamlar þar sem flestar myndirnar á listanum er löngu búið að sýna í kvikmyndahúsum og því geta þær ekki grætt á því ef æði grípur sig. Ég gæti ímyndað mér ef imdb hefði verið til á sjöunda áratugnum að A Hard Day’s Night hefði skotist beint upp í fyrsta sætið árið 1964 og verið þar næstu árin. Forskotið sem gömlu myndirnar hafa á þær nýju er að með tímanum geta þær talist áhrifamiklar eða “klassískar”.

Fimmti, sjöundi, áttundi og níundi áratugurinn eru allir með svipað margar myndir á imdb-listanum.

Ég tók saman frá hvaða áratug myndirnar á topp 250 listanum eru frá og voru niðurstöðurnar mjög áhugaverðar, en niðurstöðurnar má sjá í formi grafs hér fyrir ofan. Í fyrsta lagi finnst mér merkilegt að sjö myndir frá árunum 1920-1929 eru á listanum, en það eru allt þöglar myndir. Allt í allt eru þöglu myndirnar tíu á listanum. Skemmtilegt að fólk geti ennþá haft gaman að þessum myndum þegar kvikmyndagerð hefur farið fram á eiginlega öllum sviðum síðan þær voru gerðar. Persónulega hef ég ekki mikla skoðun á þöglum myndum þar sem ég hef bara séð tvær. Mér fannst Birth of a Nation eiginlega það löng að ég meikaði ekki að horfa á hana alla, vissulega mjög áhugaverð og allt það, en samt sem áður úrelt og náði ekki að halda athygli minni til enda. Síðan var það The General sem er mun styttri og mun skemmtilegri, þó hún sé kannski ekki topp 10 kandídat í mínum augum… Ætli gamanmyndirnar frá þessum tíma eldist ekki betur þar sem líkamlegt grín verður aldrei þreytt og það er ekki hægt að gera það neitt sérstaklega betur núna en á þögla tímabilinu enda reiðir grínið sig ekki á samtöl.

Maggi unir sér vel í skammarkróknum ásamt rektorsfrúnni, en Maggi horfði einmitt á The General þaðan.

Í öðru lagi eru 38 frá sjötta áratugnum. Á þessum tíma var hin svokallaða gullöld Hollywoods í fullum gangi og þannig hafa flestar þessara mynda öðlast ákveðins “klassík”-stimpils. Hitchcock á þrjár af efstu sex frá sjötta áratugnum. Í þriðja lagi eru myndirnar frá áratugnum sem við lifum á heilar 52. Þetta er yfirburða margar myndir en á eftir kemur fyrrnefndur sjötti áratugur með 38 myndir og 2009 er bara rétt byrjað þannig að fleiri myndir munu líklegast bætast í hópinn. Þá má spyrja sig, er 2000-2009 besti áratugur kvikmyndasögunnar? Imdb-listinn að minnsta kosti bendir til þess. Hann er þó langt frá því að vera heilagur, þeir sem kjósa á imdb eru langflestir frá Vesturlöndunum og þá sérstaklega Bandaríkjunum enda sést það bersýnilega á myndunum sem eru á listanum. Ef við ráðfærum okkur við annan, og jafnvel marktækari, lista þá komumst við þó að sömu niðurstöðu, en ég er hér að tala um topp 10 lista Sigga Palla. En 5 af 10 myndum á honum eru frá 21. öldinni (og tvær frá 10. áratug 20. aldar). Síðan er líka hægt að líta til einhverja af topp 10 listunum hjá nemendum í áfanganum, en oftast eru myndir frá síðustu 10 árum ríkjandi þar.

Skemmtilega Paramount-laga graf frá They Shoot Pictures, Don't They? Hrapið frá áttunda til níunda áratugarins minnir dálítið á úrvalsvísitöluna frá 2007 til 2008.

Ef við skoðum síðan enn annan lista þá komumst við allt öðrum niðurstöðum. Listinn frá hinni ágætu vefsíðu “They Shoot Pictures, Don’t They?” vegur lista frá hinum ýmsu kvikmyndagagnrýnendum um bestu myndir allra tíma. Listinn er alveg 1000 mynda langur en ég tók bara mið af efstu 250 myndunum þar sem imdb-listinn er ekki lengri en það. Þar kemst 21. öldin ekki einu sinni á blað, en 2. áratugurinn er hins vegar með fjórar myndir, en það er engin mynd frá 2. áratugnum á imdb-listanum. Ef við skoðum grafið af gagnrýnendalistanum þá vex það þangað til það toppar á sjöunda áratugnum, svipað og hjá imdb, en síðan fellur það markvisst niður og endar í aðeins fjórum myndum frá 10. áratugnum, sem er allt annað en hjá imdb. Efsta myndin frá 21. öldinni er í 344. sæti en það er myndin Fa yeung nin wa sem er einmitt á topp 10 lista kennarans. Af þessu mætti gera ráð fyrir að kvikmyndagerðarmenn í dag eru í tómu tjóni og eiga ekkert í gömlu meistaranna sem voru að gera myndir fyrir 40-60 árum, þó það sé svolítið ósanngjörn ályktun þar sem allar myndir sem geta talist "bestu myndir allra tíma" verða að hafa staðist tímans tönn. Ég vil líka bæta við að það er gaman hvað gagnrýnendalistinn er fjölbreyttur þegar kemur að þjóðerni myndanna (þó að ca. helmingur myndanna eru frá Bandaríkjunum, þá er það mun minna hlutfall en á imdb-listanum).

Citizen Kane er besta mynd allra tíma samkvæmt lista sem vó lista frá 1825 gagnrýnendum.

Svo ég komi nú með eitthvað niðurlag á þessari óreiðukenndu færslu þá ætla ég að reyna að svara spurningunni sem ég set fram í titlinum, bara svona persónulega. Ég mundi segja að, já, fyrsti áratugur 21. aldar er besti áratugur kvikmyndasögunnar, ekkert endilega því það eru miklu betri leikstjórar núna en áður, ekki heldur því að tækni hafi fleytt svo mikið fram síðan á gullöldinni, heldur því kvikmyndagerðarmenn í dag tala okkar máli, ef svo mætti segja. Það er auðveldara að samsvara sig við myndir sem gerast og voru framleiddar í nútímanum en þær sem gerðar voru löngu áður en við fæddumst. En þegar allt kemur til alls, þá er enginn áratugur betri en annar, enda hafa verið gerðar heill hellingur af myndum, frábærum og skelfilegum, frá öllum áratugum.

Bónus: Af 100 efstu myndunum á imdb-listanum hef ég séð 58. Af 100 efstu myndunum á tspdt-listanum hef ég séð 16. Ég er greinilega maður fólksins frekar en spekúlantanna.