sunnudagur, 30. nóvember 2008

Shaolin Devil & Shaolin Angel

Svo ég taki mér smá pásu á að fjalla um risastórar Hollywood ofurhetjumyndir ætla ég að fjalla um þessa low-budget kung-fu mynd sem ég sá fyrir nokkru. Ég held ég geti útskýrt áhuga minn á kung-fu myndum í þremur orðum: Wu-Tang Clan. Rappgrúppan Wu-Tang hefur alltaf verið að reppa kung-fu myndir, nöfnin á öllum röppurunum í genginu eru tekin úr kung-fu myndum (Ghostface Killah, Ol’ Dirty Bastard, Raekwon etc.), þeir nota ósjaldan kung-fu myndlíkingar í textunum sínum og sampla ósjaldan klippur úr gömlum kung-fu myndum í lögin sín. Titillinn á fyrstu plötunni þeirra, Enter the Wu-Tang (36 Chambers), er fenginn af láni úr myndinni The 36th Chamber of Shaolin sem kom út árið 1978 (hún er líka þekkt undir nafninu Master Killer, en einn rapparinn í Wu-Tang kallar sig einmitt Masta Killa). Þessa mynd hef ég séð og hún er virkilega góð og kannski ég splæsi í eina færslu um hana einhvern tímann seinna en núna ætla ég að skrifa um aðra kung-fu mynd sem ég er nýbúinn að sjá og hún er, því miður, ekki næstum því eins góð.

Með “ekki næstum því eins góð” meina ég eiginlega “léleg”, en þar sem maður horfir svo sjaldan á svona myndir þá er alltaf gaman þegar maður gerir það, jafnvel þó það sem maður er að horfa sé algjört sorp. Maður skemmtir sér við hlæja að lélegri talsetningu, skelfilegri myndatöku, ofleiknum röddum, asnalegum karakterum, illa skrifuðum samtölum og svo framvegis. Ég bjóst reyndar alveg við að myndin yrði svona þegar ég ákvað að horfa á hana, hulstrið á spólunni (hulstrið á spólunni sem ég var með var mun kjánalegra en það sem er fyrir ofan) og titillinn Shaolin Devil & Shaolin Angel (sorrí, enginn imdb linkur því hún er ekki á imdb!) er nógu kjánalegur til þess að eyða öllum væntingum um vandaða og heilsteypta mynd. Ég veit ekki hvort ég eigi reyna að gera grein fyrir plottinu sem var, mjög vægast sagt, torskilið. Þeir sem nenna ekki að lesa um það mega byrja á næstu efnisgrein. Ég a.m.k. skildi það þannig að það var einhver rosa assassin að drepa alla í bænum og einhver gaur sem átti rosa mikilvægan pabba ákvað að læra kung-fu til þess að hefna föður síns. Síðan var annar gæi sem var leigumorðingi og var alltaf að chilla á hóruhúsum á milli þess sem hann drap vonda gaura. Það var þannig að hann fór inn í herbergi með hóru og hún fór úr að ofan og þá voru einhverjir kínverskir stafir á bakinu hennar, sem ég auðvitað skildi ekkert í því þar sem þetta var döbbuð mynd og kínverskir stafir eru aldrei textaðir, en þetta átti sem sagt að vera nafnið eða nöfnin á næstu gaurum sem leigumorðinginn átti að drepa, eitthvað sem ég fattaði þegar myndin var alveg að vera búin. Inn í þetta blandaðist einhver gella sem var geðveikt góð í kung-fu og hún og leigumorðinginn urðu ástfangin, en leigumorðinginn hataði konur því mamma hans yfirgaf hann þegar hann var barn, síðar meir hittir hann mömmu sína og hún segir honum að drepa þennan assassin sem er að drepa alla því það var fyrrverandi eiginmaður hennar sem var er víst geðveikt vondur og á þessum tímapunkti fattaði ég að leigumorðinginn og strákurinn sem fer að læra kung-fu til að hefna föður síns eru bræður. Bræðurnir fara þá til lærimeistarans og læra einhverja aðferð til að drepa vonda kallinn og eftir ógeðslega langan bardaga ná þeir að drepa hann og svona 15 sekúndum eftir það kemur THE END á skjáinn. Ekki mikið verið að eyða tíma í hnýta lausa enda eða neitt svoleiðis. Síðan var hellingur af öðru sjitti sem ég er búinn að gleyma og/eða ég fattaði ekkert í sem ég ætla ekki að fara út í.

Þrátt fyrir marga vankanta þá var ýmislegt sem mér þótti mjög töff. Í einu atriði var leigumorðinginn búinn að rista nöfnin á fjórum mönnum á fjóra legsteina og síðan koma einmitt þeir fjórir menn sem eiga nöfnin sem eru á legsteinunum og leigumorðinginn rústar þeim. Frekar töff. Einn vondi kallinn notaði snáka sem hans weapon of choice. Mjög töff. Flest bardagaatriðin voru góð, þó þau voru mjög svipuð, endirinn á síðasta bardagaatriðinu var hápunkturinn (að sjálfsögðu), ég þó séð betri bardaga atriði í kung-fu myndum en þessari. Mæli ég með þessari mynd? Nei. Mæli ég með að fólk tékki á smá kung-fu? Já, algjörlega. Ef þið hafið aldrei séð kung-fu mynd þá ættuð þið virkilega að hugleiða að spekka eina slíka. Það skiptir ekki öllu hvaða mynd verður fyrir valinu þar sem svona myndir halda manni alveg við skjáinn sama hvað þær eru lélegar einfaldlega vegna þess að þær eru svo öðruvísi en þær myndir sem maður sér venjulega. Ef þetta væri 100. Kung-fu myndin sem ég horfi á mundi ég örugglega skrifa virkilega harðorða gagnrýni á hana og hvað hún er illa skrifuð og þannig, en þar sem ég hef bara séð 5 eða 6 þá er gimmick-faktorinn ekki búinn að skolast af kung-fu myndum fyrir mér (svipað og með blaxploitation sem ég fjallaði um í þessari færslu). Það er takmarkað hversu mikið hægt er að hlæja að lélegri talsetningu og öllu því, en í fyrstu skiptin sem maður horfir á þessar myndir er það ennþá fyndið, og með “þessar myndir” á ég við lélegu myndirnar, það er hellingur af góðum, vel leiknum og vönduðum kung-fu myndum, eins og fyrrnefnd The 36th Chamber of Shaolin.

Svo ég taki þetta saman.
Lélegar kung-fu myndir: Skemmtilegar.
Góðar kung-fu myndir: Geðveikar.

Þannig að það varla hægt að klikka með góðri kung-fu flick í tækinu og örbylgjunúðlum á kantinum.

Bónus: Haraldi finnst að Colin Farrel eigi skilið einhver töffarastig fyrir Daredevil hér að neðan, það má svo sem athuga það...

laugardagur, 29. nóvember 2008

Ofurhetjumynda-extravaganza, fyrsti hluti

Um daginn var ég að hugsa um hvaða myndir ég var búinn að horfa upp á síðkastið og tók eftir því að ég hafði horft á slatta af ofurhetjumyndum og ákvað þá upp á djókið að sjá allar ofurhetjumyndir sem hafa verið gerðar. Það er alls ekki ómögulegt verkefni þar sem það eru ekkert til það mikið af ofurhetjumyndum. Það væri annað ef ég ætlaði að sjá allar kung-fu myndir sem gerðar hafa verið eða allar film noir myndir sem gerðar hafa verið (þó Siggi Palli hefði eflaust meira gaman að því), enda eru ofurhetjumyndir ekki beint genre út af fyrir sig heldur eiga þær bara allar það sameiginlegt að fjalla um ofurhetjur. Myndir þurftu að standast ákveðnar kröfur frá mér til þess að ég taldi þær með sem ofurhetjumyndir. Grínmyndir voru ekki taldar með eins Orgazmo (frá höfundum South Park þáttana) eða Superhero Movie (Er skelfingin Scary Movie hryllingsmynd? Nei.). Teiknimyndir voru ekki taldar með heldur, eins og hin stórgóða Batman: Gotham Knight sem fjallar um atburði sem gerast á milli Batman Begins og The Dark Knight. Síðan leyfði ég mér að telja sumar myndir sem ofurhetjumyndir og sumar ekki eins og mér sýndist, ég beilaði t.d. á Barb Wire með Pamelu Anderson í aðalhlutverki því hún hefur enga ofurkrafta og engin af megin einkennum ofurhetja og eina ástæðan fyrir að telja hana með sem ofurhetjumynd er vegna þess að hún er byggð á myndasögukarakter, en taldi The Punisher með jafnvel þó hann sé alveg jafnlítil ofurhetja og Barb Wire, en hann er gefinn út af Marvel sem er einn af tveimur myndasögurisunum (hinn er DC Comics) þannig að hann fær að fljúga með. Hvort að myndin sé byggð á myndasögu eða ekki skipti mig líka máli, myndir eins og Hancock og Darkman fjalla um menn með ofurmennska krafta en eru ekki byggðar á myndasögum, ég tel þær þó alveg með sem ofurhetjumyndir. Ég ætla samt ekki að fjalla um þær í þessari færslu, en það er aðeins öðruvísi að gagnrýna þær þar sem leikstjórinn þurfti ekki að vera trúr neinum fyrirfram sköpuðum aðalkarakter. Í þessari færslu ætla ég þó að einblína á myndir sem gerðar voru á þessum áratug þar sem það er að mörgu leyti ósanngjarnt að bera saman myndir sem voru gerðar fyrr þar sem ofurhetjumyndir snúast svo mikið um tæknibrellur. Það er líka hentugt að miða við X-Men sem kom út árið 2000 og má segja að hún hafi hrundið af stað flóði ofurhetjumynda á fyrsta áratug þessarar aldar sem stendur enn yfir og ekkert virðist lát á vinsældum manna í glans-búningum á hvíta tjaldinu.

Eins og ég var búinn að nefna þá er ofurhetjumyndin ekki beint sér genre sem gerir myndirnar ansi ólíkar, bæði að uppbyggingu og gæðum. Það mætti kannski gróflega skipta ofurhetjumyndum í tvo flokka, léttar ofurhetjumyndir og myrkar ofurhetjumyndir. Dæmi um létta ofurhetjumynd er Fantastic Four þar sem aðallega er lagt upp með að skapa skemmtilega afþreyingu, dæmi um myrka ofurhetjumynd er The Dark Knight (sjá titil) þar sem andrúmsloftið er þrungið og minna um létt grín og meira um þunga dramatík. Ég ætla að fjalla stuttlega um hverja mynd fyrir sig og gefa henni stig á nokkrum ákveðnum flokkum ásamt því að gefa henni heildareinkunn. Gaman hefði verið að hafa death count og aðra tölfræði en ég lagði ekki svo mikinn metnað þegar ég var að horfa á þessar myndir. Einkunnirnar eru gefnar á hinum klassíska skala 1-10 (ef mynd er of leiðinleg til þess að ég klári hana fær hún 0 stig en það á ekki við um neina mynd í þessari færslu). Flokkarnir eru:

Bullshit faktor: Þessi flokkur snýst um hversu vel maður “kaupir” það sem er verið að bjóða manni og hversu trúanlegir hlutirnir eru á bíómyndaskala (því annars væru myndirnar allar með 10 í bullshit faktor). Ég er með mjög háan þröskuld fyrir bullshiti í myndum en sumir hafa svo lágan þröskuld að þeir fá grænar bólur við að horfa á Star Wars.

Töffarastig: Lýsir sér sjálft.

Tryggðarstig: Stundum þarf að breyta hinu og þessu þegar verið er að færa annan miðil á kvikmyndaformið, myndirnar sem eru tryggastar upprunalegu myndasögunum skora hátt hér. Ég hef þó ekki lesið næstum því allar myndasögurnar sem myndirnar eru gerðar eftir þannig að ég get ekki alltaf gefið stig í þessum flokki með góðri samvisku.

Maggastig: Þið kannist nú öll við þau.

Einkunn: Það sem skiptir öllu.

Útgáfuár og útgáfa myndasagnanna sem myndirnar eru byggðar á eru í svigum.

X-Men (2000, Marvel)
Það mætti segja að þessi mynd hafi komið ofurhetjumyndaæðinu af stað. Þó væri líka hægt að skrifa það á Blade sem kom út tveimur árum áður, en hún er byggð á myndasögu (ég fjalla þó ekkert um Blade-trílógíuna í þessari færslu, þó þær myndir teljast til ofurhetjumynda, tæknilega séð). Í mynd eins og X-Men, sem fjallar um mjög margar aðalpersónur, er reynt að kynna sem flesta til sögunnar og gefa þeim einhvern karakter. Það tekst ágætlega til en stundum er ekki gefið nógu mikla innsýn í persónurnar til þess að skilja ákvarðanir þeirra og hugsunarhátt. Samband Magneto og Dr. X er áhugaverðast við þessa mynd, en þeir eru gamlir vinir sem verða síðan aðal góði og aðal vondi kallinn í stökkbreytingarsamfélaginu. Bardagasenurnar eru flottar (en verða þó flottari með hverri X-Men mynd) og handritið, þrátt fyrir nokkra vankanta, er ágætt. X-Men stendur sig ágætlega í að rýma veginn fyrir þær myndir sem áttu eftir að koma, en sem stök heild er hún bara fínasta skemmun.

Bullshit faktor: 6/10
Töffarastig: 3/10
Tryggðarstig: Pass
Maggastig: 3
Einkunn: 7/10

Spider-Man (2002, Marvel)
Fyrsta Spider-Man myndin af þremur og Tobey Maguire hefur samþykkt að leika í tveimur í viðbót, sem er skrýtið þar sem réttilega ætti nýr leikari að vera í hverri Spider-Man mynd því í myndasögunum er Peter Park eilíflega unglingur (eða allt að því). Í myndum þar sem uppruni ofurhetjna er útskýrður er stundum farið hálf hratt og brösulega að því en í Spider-Man er nánast allir fyrri hluti hennar tileinkaður hvernig Spider-Man verður að Spider-Man (og einnig hvernig Green Goblin verður að Green Goblin). Myndin er hress og skemmtileg og nær að blanda vel saman unglingadrama og hasar. Willem Dafoe er frábær sem illmennið, enda lítur hann út fyrir að vera frekar illur, kallinn, sama hvað hann er að leika (þó það sé oftar en ekki einhvers konar óþokki). Töff mynd og góður vísir fyrir það sem koma skyldi…

Bullshit faktor: 2/10 Allt mjög trúanlega útskýrt. Flott hvernig þeir létu köngulónna sem bítur Parker vera genabreytt en ekki stökkbreytt, sem er meira í takt við tíðarandann.
Töffarastig: 3/10
Tryggðarstig: Pass.
Maggastig: 09
Einkunn: 7/10

Daredevil (2003, Marvel)
Daredevil finnst mér mjög góður karakter og vel hægt að gera almennilega mynd um hann. Blindur maður sem getur “séð” með ofurheyrninni sinni og vinnur sem lögfræðingur á daginn. Daredevil er frekar myrk ofurhetja og jafnvel nokkurs konar anti-hero þar sem hann hikar ekki við að drepa óþokka, eitthvað sem Batman og Superman mundu aldrei aldrei gera. Þessi mynd nær samt engan veginn að gefa Dardevil því sem hann verðskuldar. Í fyrsta, öðru og þriðja lagi er allur leikur í myndinni alveg einstaklega lélegur og fer þar, hinn annars ágæti, Colin Farrell fremstur í flokki sem vondi kallinn Bullseye. Ben Affleck og Jennifer Garner eru líka mjög ósannfærandi og ekki hjálpar að handritið er glatað. Einnig tel ég ekki ráðlegt að casta stórstjörnur í ofurhetjumyndir því þá á maður til að hugsa “þarna er Ben Affleck í Daredevil búningi” en ekki “Þarna er Daredevil!”. Það gæti virkað að ráða einhvern sem er tiltölulega þekktur, eins og t.d. Tobey Maguire fyrir Spider-Man, en ekki A-List stjörnu eins og Ben Affleck. Lítið heillar við þessa mynd nema kannski Michael Clarke Duncan, sem stórlaxinn Kingpin, sem er eini leikarinn sem stendur sig með prýði.

Bullshit faktor: 3/10
Töffarastig: 5/10 Vil taka það fram að öll þessi stig skrifast á Michael Clarke Duncan (og eitt á Colin Farrell fyrir Harald), ekki Ben Affleck.
Tryggðarstig: 8/10 Engar major breytingar, nema bara að myndin sökkar og ekki myndasögurnar.
Maggastig: 3 1/2
Einkunn: 2/10

X2 (2003, Marvel)
Framhaldsmynd X-Men og er almennt talin meðal betri ofurhetjumynda, er t.d. með 87% á Rotten Tomatoes. Plottið er þannig að einhver gæji ætlar að útrýma öllum stökkbreytingum á jörðinni með græjunni hans Professor Xavier. Þessi mynd er ágæt, en skildi þó lítið eftir sig eftir allar 133 mínúturnar sem hún er. Nýr X-Maður er kynntur til sögunnar sem er frekar óáhugaverður og plottið í heild sinni fannst mér ekkert sérstakt. Þessi mynd rennur samt ágætlega í gegn og hasaratriðin eru vel af hendi leyst, sérstaklega eitt atriði sem gerist í sjálfu Hvíta húsinu þar sem forsetinn er næstum því drepinn. En eins og ég segi, fín mynd, ég sá samt ekki það sem allir elskuðu svona rosalega við hana.

Bullshit faktor: 7/10 Ég er ekki endilega að tala um konseptið um stökkbreytinga, heldur aðallega plottið sem mér fannst mjög langsótt.
Töffarastig: 2/10 Litlir töffarataktar hér á ferð, Jackman fær tvö.
Tryggðarstig: Pass.
Maggastig: 77
Einkunn: 6/10

Hulk (2003, Marvel)
Á þessu ári kom út myndin The Incredible Hulk sem er svokallað reboot, sem er svo vinsælt í dag (t.d. Batman Begins, Battlestar Galactica þættirnir og tilvonandi Superman og Star Trek myndir), á seríunni um Hulk og er ekki framhald af þessari mynd hér. Ég sá þessa mynd þegar hún kom í bíó og í minningunni var hún alveg ágæt og þegar ég hafði horft á nýju Hulk myndinna hugsaði ég “mér fannst nú Ang Lee myndin vera miklu betri”. Boy, was I wrong! Ég horfði á þessa mynd aftur til að lappa upp á minnið og það verður að segjast að hún er alveg skelfilega slök. Fyrstu hálftíminn er alveg ágætur en síðan fer myndin bara niður á við og sérstaklega er átakanlegur síðasti klukkutíminn eða svo því myndin heldur bara áfram og áfram og ÁFRAM og virðast engan endi taka. Þessi mynd er einfaldlega leiðinleg. Leikurinn er alveg ágætur, leikstjórnin fín, handritið er engin snilld en ég hef séð betri myndir með lélegri handrit, þessi mynd er bara svo leiðinleg einhvern veginn og það er ekki hægt að skrifa það á einhvern einn hlut. Klippingin er allsérstök, en hún reynir að viðhalda myndasögublænum með því að skipta skjánum stundum upp í ramma þannig að margir hlutir geta verið að gerast í einu eða í framhaldi af hvorum öðrum. Ég gef Ang Lee 10 fyrir viðleitni og stundum gengur þessi tilraun upp og stundum er hún fremur þvinguð. Þetta er mynd sem er léleg en langtfrá því að vera það léleg að hægt er að hafa gaman af henni. Bara leiðinleg og léleg mynd sem er leiðinleg.

Bullshit faktor: 5/10
Töffarastig: 4/10
Tryggðarstig: Pass
Maggastig: 90°
Einkunn: 2/10

Hellboy (2004, Dark Horse)
Hellboy er ekki beint ofurhetja með double-identity og allt það. Hann er skratti sem komst til jarðar í gegnum víddarhlið (sem Rasputin opnaði) þegar hann var lítill og var alinn upp af góðum manni á bandarískum herbúðum og ákveður að nota “illu” krafta sína til góðs. Meginplottið í myndinni fannst mér frekar slappt, en hins vegar þýðir það ekki að handritið sé það. Samtölin í myndinni eru mörg hver fín og það kemur ágætlega út þegar kafað er aðeins í Hellboy sjálfan og hans tilfinningar, en hann er skotinn í mennskri gellu (sem reyndar getur kveikt í sér) sem bíður upp svona Beauty and the Beast aðstæður. Bardagaatriðin eru fín, ekkert sérstök, það besta við þau eru Hellboy sjálfur og one-linerar hans og einnig samband hans við fágaða kollega sinn, Abe Sapien, sem nokkurs konar fullkomin andstæða Hellboy. Ron Perlman finnst mér frábær sem Hellboy og leikurinn í myndinni er almennt góður. Lítil atriði eins og að leyfa Perlman að halda sinni venjulegu röddu jafnvel þó hann sé að leika djöful frá helvíti (einhverjir mundu detta í hug að dýpka röddina og gera hana óhugnarlegri) gerir Hellboy viðkunnarlegri og trúanlegri sem persónu. Flott mynd og fínasta upphitun fyrir seinni Hellboy myndinni sem er enn betri. (Eruði líka að tékka á þessu awesome Indiana Jones/Star Wars legu Hellboy plakati sem ég fann, fáránlega töff)

Bullshit faktor: 10/10 Rasputin á lífi 1943 að vinna með nasistunum, gæji sem er með tálkn, djöfull frá helvíti, gella sem stendur í ljósum logum þegar hún verður reið, verðskuldar alveg 10 í bullshit faktorinum.
Töffarastig: 9/10 Ó fokking já.
Tryggðarstig: Pass.
Maggastig: 8
Einkunn: 7/10

The Punisher (2004, Marvel)
Önnur óhefðbundin ofurhetja, í rauninni er hann ekkert ofurhetja, bara gæji sem er geðveikt reiður og á geðveikt mikið af vopnum. En Batman hefur nú ekki ofurmennska krafta heldur og The Punisher er gefinn út af Marvel þannig að hann fær að fljóta með. Þegar ég var að horfa á myndina hugsaði ég að þetta væri svona þrista mynd, en endirinn fannst mér alveg magnaður og hún hækkaði upp í fjarkann við það. Plottið er einfalt, vondir gæjar myrða alla fjölskyldu Punisher og hann ætlar að hefna sín. The Punisher sem persóna finnst mér lítið áhugaverður, það er ekkert gefið innsýn í hann (nema með cheesy flashback atriðum) og manni stendur eiginlega á sama um karakterinn. Það sem hífur myndina upp eru hasaratriðin sem eru nokkuð töff og hinn áðurnefndi endir. Ég ætla að spoila honum í hvítu letri, highlightið ef þið viljið lesa: hann sem sagt nær að plata gæjann sem lét drepa fjölskylduna hans (leikinn af John Travolta) til þess að myrða besta vin sinn og konuna sína, ég nenni ekki að fara út í hvernig hann gerði það, en talandi um að HEFNA sín almennilega. Vel gert, Punisher, vel gert. Síðan drepur hann gæjann með því að binda hann við bíl sem keyrir hægt áfram í gegnum skara af öðrum bílum sem sprengjast hver af öðrum á meðan hann fer framhjá og það kviknar síðan í honum og eitthvað. Frekar badass. En já, frekar slöpp mynd en sleppur fyrir horn.

Bullshit faktor: 4/10 Aðallega yfir því að einn gæji getur drepið svona ógeðslega marga án þess að deyja sjálfur.
Töffarastig: 3/10 Maður mundi halda að svona mynd biði upp á meiri töffaraskap, en Thomas Jane er bara ekkert góður sem Punisher og gefur honum lítinn töffarabrag.
Tryggðarstig: Pass
Maggastig: π
Einkunn: 5/10

Spider-Man 2 (2004, Marvel)
Önnur myndin í Spider-Man seríunni og hefur verið kölluð besta ofurhetjumynd allra tíma (áður en The Dark Knight kom út, reyndar). Ég sá hana fyrst í bíó þegar hún kom út og olli hún mér vonbrigðum eftir fyrstu myndina. Ég horfði síðan aftur á hana um daginn og fannst hún bara mjög góð. Það sem gerir þessa mynd áhugaverða er að aðalmálið í henni er Peter Parker, ekki Spider-Man. Hvað honum finnst um að vera Spider-Man og hvaða áhrif það hefur á lífið hans. Hann er auðvitað ástfanginn af Mary Jane en annað líf hans sem Spider-Man hindrar að hann geti gert eitthvað í því. Vondi kallinn í þessari mynd er brjálæði vísindamaðurinn með 8 útlimina, Doctor Octopus. Mér finnst Alfred Molina ekki sannfærandi sem óþokkinn Doc Ock, en hann er fínn sem vísindamaðurinn Dr. Octavius sem verður síðan Doc Ock, aðrir í myndinni standa sig með prýði. Bardagaatriðin eru mjög góð, húmorinn er sjaldan langt undan í myndinni og dramað er vel skrifað og trúanlegt og síðast en ekki síst er myndatakan algjörlega til fyrirmyndar og allt útlit á myndinni. Vel gert, Sam Raimi.

Bullshit faktor: 2/10
Töffarastig: 2/10 Spider-Man hefur aldrei verið sérstaklega svöl ofurhetja.
Tryggðarstig: Pass.
Maggastig: 21
Einkunn: 8/10

Catwoman (2004, DC)
Eins og Spider-Man 2 er ágætis leiðarvísir um hvernig eigi að gera góða ofurhetjumynd, er Catwoman leiðarvísir um hvernig á EKKI að gera ofurhetjumyndir eða kvikmyndir almennt. Í fyrsta lagi, þá er kattakonan sem myndin fjallar um ekki sú sem er í Batman myndasögunum og var túlkuð af Michelle Pfeiffer í Batman Returns. Þetta er ný kattakona með annan uppruna. Plottið er hrein skelfing en ég ætla að reyna að láta það meika sem mest sens: Patience Phillips vinnur sem auglýsingahönnuður hjá snyrtivörufyrirtæki. Einhvern tímann þegar hún átti að skila einhverri auglýsingahönnun þá fer hún í verksmiðjuna þar sem eigandinn var (af hverju sendi hún ekki bara tölvupóst, kann hún ekki að búa til pdf skjal?) og kemst að leyndarmáli að nýja byltingarkennda yngingar-húðkremið frá fyrirtækinu gerir konur ljótar ef þær hætta að nota það í smá tíma. Þeir taka eftir að hún lá á hleri og elta hana og hún fer í skolpleiðslunar og skolast í sjóinn og rekur á land þar sem helling af köttum eru og einn af þeim andar upp í hana og þá er hún allt í einu komin með katta-krafta. Síðan notar hún krafta sína til að stöðva snyrtivöruþrjótana og lokabardaginn er á milli hennar og Sharon Stone sem er illa eiginkona eiganda fyrirtækisins sem hefur notað húðkremið svo lengi að andlitið hennar er hart eins og stál. Bardaginn er skelfilegur, og alla myndina er ástarsaga í gangi á milli Patience og lögregluþjóns sem auðvitað reynir að klófesta Catwoman. Úff, hvað á maður að segja? Þetta er bara skelfing. Leikararnir standa sig undantekningalaust illa og Sharon Stone er sérstaklega léleg sem bitra eiginkonan. Það er ekkert lagt upp úr því að gefa persónunum einhverja dýpt, allir eru algjörlega bara með eina vídd og ekkert er sýnt hvernig Patience líður með að vera allt í einu með kattakrafta. Einnig er hinn tölvuteiknaða kattakona sem gerir ómennsku kattatilþrifin mjög illa gerð, lítur helst út eins og tölvuleikur þegar hún er að hoppa á milli húsþaka. Youtube myndbandið (fann það ekki í betri gæðum(ef embeddið virkar ekki þá er hægt að smella hér) sem fylgir finnst mér lýsa hugarfari þeirra sem gerðu myndina mjög vel. Það er eins og þeir hafi dottið á þá hugmynd að setja Halle Berry í þröngan leðurgalla og haldið að restin mundi bara sjá um sig sjálft. Tónlistin er líka algjör hörmung, einhvers konar R&B-rúnk eins og heyrist í myndbandinu. Mér finnst nefnilega kattakonan frábær karakter (eins og t.d. í myndasögunni Catwoman: When in Rome) og vel hægt að gera góða mynd þar sem hún er aðalpersónan ef metnaður og hæfileikar væru til staðar. Það er þó ekki um að ræða hér, lélegasta ofurhetjumyndin og almennt séð bara hörmuleg mynd. Halle Berry sá þó við sér að taka við Razzie verðlaununum sem versta leikkonan og kallaði hún myndina “piece of shit awful movie”, orð að sönnu.



Bullshit faktor: 10/10 Húðkrem? Eruði að grínast eða?
Töffarastig: 1/10
Tryggðarstig: 1/10
Maggastig: 14-5
Einkunn: 1/10

Elektra (2005, Marvel)
Spinoff mynd frá Daredevil, en Elektra var kvonfang Daredevils sem dó í örmum hans í myndinni. En no prob, hún var bara endurlífguð af einhverjum sensei meistara. Elektra fannst mér þó miklu betri en Dardevil og Jennifer Garner er mikið betri í þessari mynd en fyrirrennanum. Elektra sjálf er töff karakter sem var sköpuð af sjálfum Frank Miller, höfundi Sin City bókanna og 300 og er búinn að leikstýra sinni fyrstu mynd, The Spirit, sem kemur í kvikmyndahús 2. janúar. Mér fannst fyrsti hálftími myndarinnar vera mjög góður þar sem meginplott myndarinnar var ekki byrjað og maður fær aðeins að gægjast inn í Elektru karakterinn, en hún er kaldrifjaður leigumorðingi sem smátt og smátt fær samvisku. Síðan byrjar plottið sem er ekki upp á marga fiska og samanstendur af misspennandi bardagaatriðum og óþokkum, sem margir hverjir eru ekki mjög vel leiknir. Útlitið á myndinni er þó flott og Garner heldur myndinni uppi. Það pirraði mig samt að það var reynt að troða einhverri ástarþvælu inn í myndina sem þjónaði nákvæmlega ENGUM tilgangi á neinn hátt og dýpkaði hvorki persónurnar né bjó til einhverja konflikta á handritinu. Týpískt af Hollywood að þurfa að bæta við einhverri svona ástarþvælu bara vegna þess að það er kona í aðalhlutverki, Elektra sjálf varð bara minna töff fyrir vikið. Ellen Ripley hefði t.d. verið miklu minna töff ef hún hefði verið að standa í einhverjum óþarfa væmnum kossaatriðum. En í heildina er Elektra sæmileg og betri en ég bjóst við.

Bullshit faktor: 10/10 Kona deyr. Kona lifnar við. Maður verður að skella tíunni í bullshittið, svo ekki sé minnst á fáránlega vondu kalla í myndinni.
Töffarastig: 7/10
Tryggðarstig: 5/10
Maggastig: P=NP
Einkunn: 5/10

Constantine (2005, DC)
John Constantine í myndasögunum er kaldhæðinn ljóshærður breti. Í myndinni er búið að breyta honum í dökkhærðan bandarískan fýlupúka, leiknum af Keanu Reeves í þokkabót. Þannig að það gaf auga leið áður en ég sá myndina að hún mundi ekki ná að fanga snilld John Constantine úr myndasögunum. Þar að auki nefndi góðvinur minn, Arnar Már Ólafsson, Constantine sem eina af tíu verstu myndum sem hann hafði séð. Þegar myndin byrjaði fannst mér hún þó lofa góðu, Keanu Reeves var hæfilega svalur og framleiðendur myndarinnar höfðu leyft Constantine að halda keðjureykingareinkenni sínu. Atriði með særingu í upphafi myndar var nokkuð töff en eftir það er leiðin bara niður á við. Plottið snýst um, hvorki meira né minna, að sonur Satans ætlar að koma til jarðar og taka yfir heiminum. Fáránlega fjarstæðukennt, en eitthvað sem má alveg búast við þegar kemur að ævintýrum John Constantine. Það sem mér fannst leiðinlegast við myndina er hvað John Constantine er leiðinlegur. Hann á að vera hnyttinn og töff og alltaf með one-linera tilbúna upp í erminni, en í staðinn er hann alvarlegur og einsleitur. Keanu Reeves er einmitt dálítið þannig leikari sem getur bara leikið Keanu Reeves, eins og Valdís Óskarsdóttir talaði um þegar hún kom til okkar.

Bullshit faktor: 10/10
Töffarastig: 6/10
Tryggðarstig: 2/10
Maggastig: 9^0,4
Einkunn: 3/10

Framhald síðar..., en mér fannst við hæfi að byrja seinni hlutann á fyrstu ofurhetjumyndinni sem er virkilega virkilega góð, en það er Batman Begins. Síðan kem ég með einhvers konar niðurlag á þessu öllu saman og raða síðan öllum myndunum á lista eftir því hvað þær eru góðar.

Bónus: Fyrsta ofurhetjumyndin var The Adventures of Captain Marvel frá árinu 1941

þriðjudagur, 25. nóvember 2008

Sjónvarpsþættir

Ég horfi nánast ekkert á sjónvarp, sjónvarpið mitt er ekki einu sinni tengt við loftnetið eins og er, bara PS2 og NES tölvunar mínar og videoið, en það þýðir ekki að ég hafi ómætur á sjónvarpsefni. Í þessari færslu ætla ég að fjalla um nokkra (eða reyndar alla) sjónvarpsþætti sem eru í framleiðslu núna sem ég fylgist með. Engar áhyggjur, það eru engir spoilerar sem sjást.

Battlestar Galactica

Þegar ég tala um aðdáun mína á BSG við fólk þá á það til að tengja það við aðdáun mína á Star Trek. Kannski að mörgu leyti skiljanlegt, bæði sci-fi, gerast út í geim, og þættirnir eiga báðir dyggan og traustan aðdáendahóp, en ég set ekkert samansemmerki á milli þessara þátta, í rauninni finnst mér það eina sem þeir eiga sameiginlegt vera þessi þrjú atriði sem ég taldi upp fyrr í þessari setningu. Grunnplottið í BSG er nokkuð einfalt: Vélmenni sköpuð af manninum gera uppreisn og gjöreyða nánast öllu mannkyninu á einu bretti. Tæplega 50,000 manns komast af á geimskipinu Battlestar Galactica (og minni nágrannageimskipum) og þau hefja leit að goðsagnakenndu plánetunni “Earth” svo þau geti endurbyggt mannkynið meðfram því að vera alltaf á flótta frá vélmennunum illu, hin svokölluðu “cylons”. Hljómar spennandi? Allavega finnst mér það. Til þess að auka enn á spennuna þá geta cylonarnir litið út nákvæmlega eins og menn, þannig að enginn getur verið viss um hver sé cylon og hver sé maður! Þættirnir eru svokallað re-imagining (lesist: remake) af gömlu BSG þáttunum frá áttunda áratugnum, en orðið “remake” hefur fengið á sig slæma merkingu með fjölda misheppnaðra remake-mynda á síðastliðnum árum. Þegar tveir félagar mínir voru að lofsama þessa þætti einhvern tímann hló ég að þeim því ég hélt að þetta væru glataðir þættir bara út af titlinum og andúð Frank Zappa á upprunalegu þáttunum. Sem betur fer hafði ég rangt fyrir mér.

Þættirnir eru framleiddir af Sci-Fi Channel í Bandaríkjunum og það kom mér á óvart hversu rosalega vel gerðir þeir eru. Allar brellur eru alveg tipp topp og í rauninni öll tæknilega atriði í þáttunum. Tónlistin er eins ó-sci-fi-leg og um getur, en hún hefur mikinn “heimstónlistar” blæ yfir sér og mikið er um tribal trommur, en ekki cheesy syntha eins og sci-fi tónlist er kannski þekktust fyrir. Leikararnir finnst mér líka vera virkilega góðir og þar stendur erkitöffarinn Edward James Olmos fremstur í flokki sem Commander Adama. Þó að þættirnir séu titlaðir sem sci-fi og eru framleiddir af Sci-Fi Channel, þá eru þeir fyrst og fremst drama þættir. Karakterarnir í þáttunum eru langt frá því að vera fullkomnir og vita alltaf hvað gera skal (svona eins og Captain Kirk), en mörg klassísk minni má sjá þegar litið er yfir helstu persónur: Gamlan mann með áfengisvandamál, feðgar sem talast ekki á, uppreisnargjörn strákastelpa, ástarþríhyrningur, kona með banvænt krabbamein, sjálfhverfur snillingur, tælandi femme fatale (sjá mynd)… allt er þetta efniviður í topp drama með hasar og sci-fi ívafi. Sci-fi-ið er í rauninni rammi utan um sögu persónanna, vísindaskáldskapurinn fer ekki að kikka inn að neinu viti fyrr en í seinni hluta annarrar seríu.

Segjum að þættirnir snerust um fólk í spænskum skipaflota á 18. öld sem er að flýja land til Bandaríkjanna á meðan sveitir konungs eru sífellt að elta það. Kannski nokkrir skósveinar konungs séu dulbúnir sem alþýðufólk í skipaflotanum? Þá er maður kominn með basic plottið af BSG án þess að það tengist sci-fi á nokkurn hátt! Ástæðan fyrir því að ég legg svona mikið úr því að tala um að þetta séu fyrst og fremst drama þættir er því fólk er svo fljótt að afskrifa það sem er stimplað sci-fi því það fílar ekki Star Trek eða Star Wars (ekki það að Star Wars sé sci-fi þó ég ætli ekki að fara lengra út í það) eða eitthvað. Núna er fjórða og síðasta serían í gangi, en þættirnir hætta ekki vegna dræms áhorfs heldur vegna þess að sagan er einfaldlega að klárast, eitthvað sem handritshöfundar Prison Break ættu kannski að fara pæla í, ég meina, hversu oft er hægt að brjótast út úr fangelsi? Battlestar Galactica eru frábærir þættir sem halda manni hooked, enda kunna handritshöfundar BSG að búa til góða cliffhangera.

Dexter

Þættirnir sem allir voru að missa sig yfir í kvikmyndagerð í fyrra. Þættirnir fjalla um raðmorðingja sem drepur aðeins fólk sem á “skilið” að deyja, sem sagt aðra morðingja. Dexter vinnur síðan sem blóðslettufræðingur hjá rannsóknarlögreglunni þar sem hann eltist við morðingja og glæpamenn. Núna er þriðja sería í gangi en maður þorir varla að segja neitt um hana sem gæti spoilað hinum tveimur. Formið á þáttunum er nokkurn veginn þannig að í hverri seríu er rannsóknarlögreglan að eltast við einhvern raðmorðingja og í hverjum þætti finnur Dexter eitthvað fórnarlamb sem hann telur að eigi skilið að deyja. Tónlistin er viðeigandi létt latínó tónlist enda gerast þættirnir í Miami. Ég var alveg að missa mig yfir þessum þáttum þarsíðasta sumar og áhuginn minn á þeim hafa aðeins dvínað síðan þannig að ég nenni eiginlega ekki að skrifa meira um þessa þætti, þið verðið bara að trúa mér að þeir eru geðveikir, sjón er sögu ríkari. Ég læt klippu af upphafsatriði þáttaraðarinnar fylgja með það sem mér finnst það það flottasta sem ég hef séð (kannski á eftir Simpsons). Magnað hvernig hversdagslegir hlutir eru gerðir gróteskir og truflaðir, svona eins og Dexter Morgan sjálfur.



Gossip Girl

Þessir þættir eru svo heitir núna að þeir standa nánast í ljósum logum. Meira að segja Surtur úr Völuspá mundi segja “ónei, of heitt fyrir mig”. Ég verð þó að segja að af þeim fjórum þáttum sem ég nefni í þessari færslu finnst mér Gossip Girl slakastir, þeir eru samt awesome. Þættirnir fjalla um ástir og örlög nemenda við fínan einkaskóla í Manhattan. Þessi “gossip girl” sem þættirnir draga nafn sitt af er nafnlaus slúðurbloggari sem skrifar einmitt um ástir og örlög nemendanna sem þættirnir fjalla um. Það sem er skemmtilegast við þessa þætti er nokkurn veginn það sem er skemmtilegast við allar aðrar unglingasápur, að þola ekki einn karakter, að finnast annar karakter vera geðveikur, að finnast enn annar karakter vera asnalegur, að finnast að þessi ætti að vera með þessari og hin ætti að hætta með hinum og svo framvegis. Það gerist stundum við svona unglingasápur að alvarleiki dramans stigmagnast með vísivaxtartölu með hverri seríu. Hver man t.d. ekki eftir því þegar Dylan McKay verður algjör dópisti í Beverly Hills 90210? Eða þegar Marissa skaut einhvern gæja í bakið í The O.C.? Ég hef aldrei horft á One Tree Hill en það sem ég hef séð af honum þá er alltaf einhver að fara í fangelsi og einhver að setja sifelis-veiru í morgunmat föður síns og þannig. Einnig eru ódýrar leiðir til þess að auka dvínandi áhorf klassískar í svona þáttum, eins og þegar áðurnefnd Marissa úr The O.C. gerðist lesbía á fullu tungli. Í Gossip Girl er alvarleiki dramans ekki svona rosalegur og þar af leiðandi eru þetta mun léttari þættir og skemmtilegri áhorfs. Það er mikilvægt að allt sé hipp og kúl og ferskt í svona þáttum þannig að allar persónur eru alltaf stíliseraðar frá toppi til táar í flottustu fötum norðan Suðurpóls. Einnig er alltaf bombað inn einum góðum indie hittara í lok eða byrjun hvers þáttar svo það fari ekki á milli mála að þessi þáttur sé fyrir fólk sem er with-it. Leikarahópurinn er að mestu leyti fínn, enginn að taka við kyndlinum af Sir Lawrence Olivier hérna, en þó enginn sem er áberandi lélegur. Handritshöfundarnir eru auðvitað raunverulegar stjörnur þáttarins og oftast nær ná þeir að halda þáttunum skemmtilegum, þó að stundum púlli þeir eitthvað sem lætur mann hugsa “kommon, grínast í mér eða?”, því plot-twistin eiga það til að sveiflast á milli “snilld meistaraverk snilld” og “ha?”, oftast eru þau þó í ætt við hið fyrra. En allt þetta með ***SPOILER*** hvernig Serena og Dan hættu saman lét mig halda um andlitið yfir því hvað það var átakanlega kjánalegt á köflum ***SPOILER LOKIÐ*** (highlightið ósýnilega textann til að sjá hann)

Eftirfarandi efnisgrein mega þeir sem ekki hafa séð Gossip Girl sleppa að lesa, það eru samt engir spoilerar, bara tilgangslausar pælingar. Ég hef eytt allt of miklum tíma í að velta fyrir mér Gossip Girl slúðurdrósinni sjálfri. Þetta er alveg fín pæling, t.d. þegar eitthvað merkilegt gerist í þáttunum fer það beint á Gossip Girl og þar af leiðandi í gemsana hjá öllum krökkunum í þáttunum og þá vita allir strax hvað gerðist. Gossip Girl þjónar líka sem sögumaður í þáttunum og hefur hent út úr sér dásamlega skemmtilegum pun-um sem mundu gera Carrie Bradshaw sjálfa græna af öfund, “there is no we in summer, only u and me” kemur til hugar. Það er gefið sterklega í skyn að það sem Gossip Girl segir sem sögumaður er lesið beint af bloggsíðunni hennar. Ég keypti það alveg í byrjun þáttanna en þegar líða fór á fyrstu seríu fór hún alltaf segja hluti sem væri fáránlegt að blogga um á einhverri slúðursíðu. Eins og ef einhver persóna fær sms með einhverjum sjokkerandi upplýsingum þá kemur um leið mynd af persónunni á GG bloggsíðunni með síma í hendi og Gossip Girl veit einhvern veginn að sms-ið var rosalega sjokkerandi og segir eitthvað eins og hún viti hvað var í því. Þetta meikar engann sens! Líka þegar Chuck og einhver melur voru í veggjatennis þá birtist mynd af þeim á GG-síðunni með einhverri frétt um hvað þeir eru góðir vinir. Hver er í stake-outi í fokking veggjatennis-gymi til þess að taka myndir af einhverjum ríkum menntaskólakrökkum?! Og hver nennir að lesa það! Ég hef líka stundum pælt í því hvort Gossip Girl bloggi um einhverja aðra krakka líka sem við áhorfendur fáum ekki að vita um. Því ef hún er alltaf að skrifa um þessa sömu 5-6 þá er það alveg semi-psychopatchic-perralegt. Ef Jóhann Björn mundi taka upp á því að blogga undir nafninu Slúður-kjeppzinn um líf Haraldar, Björns Ívars, Héðins, Birtu, Helgu og Írisar á einhverri slúðursíðu yrði þau ekki alveg apeshit? Þegar líða fer á fyrstu seríu er alltaf gert minna og minna úr því að Gossip Girl er einhver slúðurbloggari sem fólk er alltaf að lesa og hún var orðin frekar eins og hlutlaus sögumaður, þá var ég farinn að halda að höfundar þáttanna gerðu sér grein fyrir hvað þetta var orðið óraunsætt og reyndu að draga úr vægi Gossip Girl. En strax í byrjun annarrar seríu var gert heilmikið úr því að GG væri vinsæll slúðurbloggari, t.d. var Dan að lesa þráð á GG-síðunni um sjálfan sig og Serenu. Mér fannst það dálítið eins og það var verið að gæla við að brjóta fjórða vegginn, eins og það kallast. Ef það verður einhvern tímann uppljóstrað hver Gossip Girl er í raun og veru ætla ég að hætta að horfa á þættina því þá eru handritshöfundarnir greinilega komnir í þrot. Því það er engin raunveruleg Gossip Girl þetta er bara sniðugt plot device, ekkert annað. Afsakið allt þetta raus en þetta hefur stundum heltekið mig þegar ég horfi á þættina sem er fáránlegt þar sem ég ætti frekar að vera heltekin af öllu fallega fólkinu sem leikur í þáttunum.

Ótrúlega töff titilspjald (e. titlecard).

Án efa, svölustu þættir sem ég hef séð. Þættirnir fjalla um fjölskyldulíf og raunir manna sem vinna á auglýsingastofu í New York. Hljómar ekki beint spennandi. Bætum núna við “á fyrri hluta sjöunda áratugar” við lýsinguna og þá er maður kominn með eitthvað gott. Það skemmtilegasta við þessa þætti er einmitt þetta tímabil. Það fyrsta sem maður tekur eftir er að ALLIR reykja ALLTAF ALLSSTAÐAR. Síðan eru þeir alltaf að drekka viskí í vinnunni, konurnar eru auðvitað bara heima að sjá um heimilið, en karlarnir hika ekki við að halda framhjá þeim þegar tækifæri gefst. Svertingjar vinna aðallega sem hurðaopnarar og lyftuþjónar, Tískan er auðvitað allt önnur, tónlist, bílar, hárgreiðslur, arkitektúr, húsgögn, talmáti, allt er þetta virkilega vel gert og hannað að maður heldur nánast að þetta hafi verið tekið upp árið 1960. Auðvitað er þetta ekkert endilega 100% sagnfræðilega rétt mynd af þessu tímabili en það skiptir ekki öllu. Það er líka gaman að vita betur en persónur í þáttunum, t.d. voru allir á auglýsingastofunni harðir Nixon-menn og töldu Kennedy ekki eiga séns í kosningunum 1960. Í einum þættinum voru nokkrir karakterar að hlusta á einhverja plötu sem einn af þeim hafði nýkeypt, en það var engin önnur plata en Kind of Blue með Miles Davis sem kom út 1959. Ég elska poppkúltúrs tilvísanir og í þessum þætti er hellingur af þeim, sem er ekkert nema gott mál, fyrir mig a.m.k.. Nafnið á þáttunum er dregið af óformlegu starfsheiti mannana, þ.e.a.s. ad men, þetta fattaði ég bara fyrr í dag.

Takið eftir hvað allt lúkkar flott, sjáið líka að þrír af fjórum körlunum halda á viskíglasi.

Aðalpersónan í þáttunum er hin ótrúlega svali Don Draper (sjá myndaseríu). Hann er helsti hugmyndasmiður auglýsingastofunnar, í fyrsta þáttinum finnur hann t.d. upp á “It’s toasted” slagorðinu fyrir Lucky Strike sígaretturnar. Fortíð hans er ráðgáta og eftir því sem líður á þættina fáum við vita meira og meira um dularfulla fortíð hans og sjáum manninn á bakvið spaðann. Ásamt Draper eru fjölmargar aukapersónur, allar með sína eigin djöfla að draga og sögur að segja og fá allir nægan skjátíma svo þetta komist allt til skila. En, eins og áður hefur verið sagt, þá finnst mér tímabilið sem þættirnir gerast í það skemmtilegasta við þá. Pólitísk réttsýni er víðs fjarri í Mad Men og það er alltaf gaman svona einu sinni og einu sinni. Ég ætla að ljúka umfjöllunina á Mad Men á nokkrum myndum af ofurtöffaranum og margfalda meistaranum Don Draper.

Don Draper með vindil.

Don Draper með kveikjara.

Don Draper að slaka.

Don Draper með eiginkonunni.

Don Draper með vinnufélögunum.

Endum þetta síðan á hinni stórglæsilegu Joan Holloway.

Bónus: Ég taldi þær myndir sem ég hafði séð í bókinni "1001 Movies You Must See Before You Die", þær voru 92.

miðvikudagur, 19. nóvember 2008

Handritsverkefnið: Pulp Fiction

Jæja, best að drífa sig í að gera þessa skyldufærslu. Myndin sem ég ákvað að velja var Pulp Fiction. Mitt eintak af Pulp Fiction má sjá hér til hliðar, skemmtileg þýðing á titlinum, þó ég mundi kjósa að þýða hana sem Á tæpasta vaði. Ástæðurnar fyrir því að ég valdi Pulp Fiction til þess að fjalla um eru nokkrar:
  • Þetta er uppáhalds myndin mín
  • Það er lítið mál að finna handritið af henni á netinu
  • Langflestir hafa séð þessa mynd þannig að þessi færsla er skemmtilegri aflestrar fyrir þá
  • Ég fæ tækifæri til þess að slá tvær flugur í einu höggi með því að afgreiða þessa skyldufærslu og fjalla um Pulp Fiction í sömu færslunni, en ég fjallaði ekkert um Pulp Fiction í Topp-5 færslunni minni.
Víst að ég er nú að fara að horfa á Pulp Fiction á milli þess sem ég fer í tölvuna og les handritið datt mér í hug að hafa þessa færslu sem “beina” textalýsingu, þ.e. ég skrifa hlutina um leið og ég upplifi þá. Ég les í handritinu á tíu mínútna fresti, en ég ætla ekki að taka það fram í hvert sinn í textalýsingunni. Pælingar varðandi handritið koma síðan í hornklofum hér og þar í textalýsingunni. Ég geri ráð fyrir að lesendur hafi séð myndina og þekkji plottið, annars væri alltof erfitt að vera alltaf að útskýra söguframvindu meðfram því að koma pælingum til skila. Ég þarf ekki að taka fram að það er allt morandi í spoilerum hérna. Sjáum hvernig þetta fer.

-05:00 - Búinn að ýta á play. Reservoir Dogs trailerinn byrjar. Þetta er eldgömul spóla og það heyrist á hljóðinu og sést á myndinni, en það er bara stemmari. Hef horft á þessa sömu spólu fáránlega oft. Endirinn er semi spoilaður í trailerinum.

-03:00 - Annar trailer. Spóla alltaf yfir hann. Einhver mynd með Jack Nicholson.

-02:00 - Varúlfamynd.

-01:27 – Myndin heitir Wolf. Áhugavert.

-01:00 – Enn annar trailer.

-00:15 – Stargate! This fall!

00:00 – Myndin byrjuð.

00:52 – Þegar þjónustustúlkan hellir í kaffibollann hjá Honey Bunny þá segir Honey Bunny “Thank you” með alveg ótrúlega mikilli gæsku og góðmennsku, en í handritinu stendur ekkert um hvernig hún á að segja það. Greinilega eitthvað sem leikkonan hefur fundið upp á sjálf eða Tarantino hefur leiðbeint henni að gera.

02:00 – Í handritinu stendur “portable phone” en Tim Roth segir “cellular phone”, skiljanleg breyting. Myndin var gerð áður en allir áttu gemsa.

Tim Roth sem "Pumpkin", eða Ringo eins og Jules kallar hann.

03:49 – Eina ofleikna línan í myndinni að mínu mati er þegar Honey Bunny segir “Pretty smart!”, en í handritinu stendur (into it) fyrir aftan hana. Finnst hún samt vera aðeins of mikið into it, en Honey Bunny (eða Yolanda eins og við munum síðar komast að að hún heitir) er mjög tilfinningaríkur karakter og ofleikinn má kannski skrifa á það.

04:17 – Línan sem kemur rétt fyrir title cardið kemur tvisvar fyrir í myndinni en er þó ekki alveg eins í bæði skiptin. Í handritinu er línan sem kemur seinna í myndinni í upphafsatriðinu.

[Lýsingin á staðsetningu og persónum í handritinu er óformlegri en ég bjóst við. T.d. er persóna Tim Roth sögð “smokes cigarettes like they’re going out of style”. Samtali persónanna er sögð vera í “rapid pace “His Girl Friday” fashion. Merkilegt.]

04:40 – Ég elska hvernig PULP FICTION cardið kemur bara upp og minnkar síðan og minnkar. Það þarf ekki alltaf flókið upphafs credit svo það sé flott.

06:00 – Atriði sem ég kann utan að er alveg að fara að koma.

"Royale with cheese", Jules að fíla söguna hans Vincent.

07:16 – Vincent Vega (John Travolta) er með eyrnalokk. Hef aldrei pælt í því hingað til.

08:09 – Eitt af einkennum QT: skot tekið upp frá bílsskotti.


08:50 – “But you are aware that there’s an invention called a television?” Frábær lína.

09:21 – “Nigga got a weight problem, what’s he gonna do? He’s Samoan.” Dæmi um tilvísun sem ég fatta ekki (þ.e.a.s. Samoan) en finnst samt fáránlega fyndin.

12:00 – Þriggja mínútna samtal um fótanudd, allt í einu skoti. Mjög töff.

12:55 – Í handritinu er sérstaklega tekið fram að íbúðin sem þeir fara í sé númer 49, en það er ekkert númer á hurðinni í myndinni.

[Hið fræga “Royale with cheese” samtal Vince og Jules er nánast alveg eins og það er í handritinu. Það er talað um að þeir voru í löngum og síðum frökkum yfir jakkafötunum sínum. Góð ákvörðun hjá QT (Quentin Tarantino) að sleppa þeim.]

14:26 “Hamburgers! The cornerstone of any nutrious breakfast.” Svo dásamlega kaldhæðnislegt.

15:00 – Nærmyndin af hamborgaranum áður en Jules (Samuel L. Jackson) bítur í hann gerir mikið fyrir að sýna að þetta er "tasty burger".

16:02 – Elska hvað Jules er mikið að skemmta sér yfir því hvað þeir eru allir skíthræddir við hann.

16:07 – “You, Flock of Seagulls…”, það er svo mikið af góðum línum í þessari mynd að öll þessi færsla gæti samanstaðið af upptalningu.

"Vincent, we happy?", skjalataskan dularfulla heldur áfram að vera ráðgáta

17:22 – Hvernig Brett situr í stólnum í gegnum allt atriðið lætur Jules hafa valdið. Jafnvel þegar hann ætlar að standa upp, lætur Jules hann sitjast aftur.

18:12 – “English motherfucker do you speak it!”

"When I lay my vengeance upon thee!", greyið hann Brett deyr.

19:11 – Ezekial 25:17 ræðan er dæmi um eitthvað sem mér fannst svalast við myndina þegar ég sá hana fyrst en núna eru hellingur af hlutum sem koma til greina.

[Það er mjög algengt að línur eru ekki nákvæmlega eins í handritinu og í myndinni og í nánast öll skiptin finnst mér þær flottari í myndinni en í handritinu. Líklega út af því að ég er búinn að sjá hana svo oft að ég á erfitt með að ímynda mér hvernig einhver lína sé öðruvísi. “Jules has got style.” stendur í handritinu eftir að hann skýtur “Flock of Seagulls” gæjann, alveg rétt lýsing.]

20:09 – Medium shot! Maður veit hvað þetta þýðir núna þökk sé Kvikmyndagerð. Enda er þetta algjörlega medium shot atriði eins og stendur í handritinu. Marcellus Wallace að tala við Butch Coolidge (Bruce Willis). Það stendur í handritinu að Butch eigi að vera 26 ára (!). Samtalið er líka mun styttra í handritinu.

Butch Coolidge á meðan Marcellus útskýrir fyrir honum dílinn.

21:28 – Frábært lag, “Let’s Stay Together” með Al Green spilast í gegnum samtalið.

21:56 – Hvernig Marcellus heldur í umslagið rétt áður en hann réttir Butch það er eitt af þessum smáatriðum sem gera Pulp Fiction svo góða. Smáatriði sem þjóna í rauninni engum tilgangi en dýpka einhvernveginn atriðin.

23:09 – Plásturinn frægi aftan á Marcellus. Kenningar varðandi það sem er í skjalatöskunni tengjast þessum plástri.

23:16 – Jules og Vincent koma inn á staðinn, en í handritinu er Jules ekkert í atriðinu.

"You ain't my friend, Palooka", Butch fær ekki hlýjar kveðjur frá Vincent

24:46 – Butch fær sér Red Apples sígarettur sem er uppskáldað vörumerki eins og Big Kahuna Burgers.

[Ég tek eftir að stórir stafir eru notaðir í handritinu þegar talað er um hvað kameran á að gera, eins og OUT OF FRAME og WE DOLLY INTO CU. Einnig eru stórir stafir á persónum þegar þær eru fyrst kynntar til sögunnar]

26:00 – Vincent að kaupa heróín.

26:44 – Pepsi challenge tilvísun. Alltaf gaman að poppkultúrs tilvísunum.

28:07 – Vincent dregur upp seðlabúnt sem er lýst sem “could have choke a horse to death”. QT heldur áfram að vera óformlegur í lýsingum.

28:47 – Vincent sprautar sig með heróíni, en í handritinu sprautar hann sig á meðan hann talar við Lance. Frábært atriði, sérstaklega þegar blóðið spýst inn í sprautuna og síðan sprautar hann því aftur inn í sig með heróíninu. Ég og félaginn minn gerðum einu sinni stuttmynd þar sem við vísuðum í þetta atriði með því að setja rautt Kool-Aid duft í flösku af vatni (eins og maður á að gera þegar maður blandar Kool-Aid) og með sömu tónlist undir og síðan var nærmynd af þegar skrúfað var lokið af sykurstaukinum eins og nærmyndin þegar nálin er skrúfuð á sprautuna. Góðir listamenn fá að láni, sannir listamenn stela.

30:25 – Uma Thurman er látin lesa upp það sem stendur á miðanum frá Miu til Vincent, í staðinn fyrir að láta áhorfandann lesa það.

Miðinn frá Miu til Vincent

30:40 – Það tók mig alveg þónokkur skipti að sjá hversu ótrúlega high Vincent er í þessu atriði þar sem hann er að bíða eftir Miu. Sérstaklega þegar hann segir “ok” í telecomið. Leikur þetta vel.

31:21 – “Warmer…warmer…disco”. Annað smáatriði sem gerir Pulp Fiction frábæra. Að segja disco í staðinn fyrir bingo þ.e.a.s..

32:48 – “Don’t be a [square]”. Það er vísað í þetta atriði í Kill Bill. Ferningurinn brýtur skemmtilega upp á atriðið, maður býst ekki við honum.

34:23 – QT hefur örugglega skemmt sér yfir því að velja kvikmyndaplakötin sem eru á Jackrabbit Slims.

35:00 – Steve Buscemi leikur Buddy, þjóninn. Finnst það alltaf fyndið. Tók mig nokkur skipti að taka eftir því.

35:48 – Vincent hneykslast yfir 5 dollara mjólkurhristingi. Fyndið þar sem sjeik á Íslandi kostar einmitt u.þ.b. 5 dollara núna.

38:22 – “What a gyp”. Skemmtilegt orð, gyp.

38:40 – Núna koma rosalegar myndtruflarnir, en spólan er eitthvað rispuð á þessum stað þannig að þetta er eiginlega bara orðinn hluti af myndinni fyrir mér.

39:21 – “Why do we feel it's necessary to yak about bullshit in order to be comfortable?”, hef alltaf fundist Mia hitta naglann á höfuðið hérna.

41:00 – Hinar konurnar á salerninu kippa sér ekkert upp við það að Mia sé að sniffa kókaín. Ætli þetta sé ekki einhvers konar ádeila á eitthvað, hef aldrei almennilega fattað þetta.

44:37 – Twist atriðið er að fara að byrja.

Magnað atriði, enda unnu þau twist keppnina.

45:42 – Mjög flott atriði. John Travolta er svo góður dansari. Dansmúvið sem hann tekur á tánum er rosalegt.

Dansmúvið sem hann tekur á tánum. Á dansgólfinu...

46:46 – John Travolta tekur “Batusi” sem er danshreyfing sem varð til í upprunalegu Batman þáttunum frá sjöunda áratugnum, gaman að því.

48:23 - Í handritinu blastar Mia ekki “Girl, You’ll Be a Woman Soon” á risastóru reel-to-reel segulbandstæki, heldur geislaspilara. En segulbandstækið er miklu flottara og voldugra en geislaspilari.

Svona fer fyrir ykkur krakkar, ef þið neytið heróíns.

51:31 – Hvernig Mia tekur um nefið eftir að hafa sniffað heróínið er lýst þannig eins og nefið stæði í ljósum logum, og mér finnst Thurman hafa púllað það mjög vel.

53:32 – “I’m in big fucking trouble, I’m coming to your house”, þetta er ekki það sem maður vill heyra þegar maður tekur upp símann sinn.

54:11 – Vincent klessir á húsið hans Lance, finnst það alltaf jafn fyndið.

57:10 – “I gotta stab her three times?” Klassík.

58:22 – Virkilega sannfærandi hvað Mia og Vincent eru helluð í útliti þegar Vincent er að skutla henni aftur heim.

1:00 – Mia segir tómatabrandarann. Þessi brandari er svo rosalega algengur, ég veit ekki hvort hann varð svona “vinsæll” eftir Pulp Fiction eða hann hafi alltaf verið svona vinsæll og þess vegna komist í myndina. Það er allavega á hreinu að hann minnkaði ekki í vinsældum eftir Pulp Fiction. (Hér eftir eru tímasetningarnar í forminu klst:mín)

[Ég tek eftir fyrstu línunni sem er í handritinu en ekki í myndinni sem mér finnst alveg eiga skilið að vera í myndinni, þegar Mia finnur heróínið hans Vincent og segir “Disco! Vince, you little cola nut, you’ve been holding out on me”. Það er líka skemmtilegt hvernig QT lýsir einu atriðinu svona: “Vincent moves like greased lightning to Mia's fallen body.” þar sem hann fékk sjálfan Danny Zuko til þess að leika Vincent. Kannski hann hafi verið búinn að casta hann þegar hann skrifaði þetta. Klippingin í atriðinu þar sem Vincent gefur Miu adrenalínsprautuna er mjög nákvæmlega lýst í handritinu.]

Christopher Walken heldur ræðuna um úrið.

1:01 – Christopher Walken flytur “The Watch” söguna frægu. Skemmtilegt að jafngóður leikari og Christopher Walken sé fenginn til þess að leika svona lítið hlutverk.

1:03 – Skyttan í sögunni heitir Winocki, finnst það skemmtilegt, hann hefði getað heitið Johnson.

1:05 – Þjálfari Butch sem segir þrjú orð í myndinni er kallaður Klondike í handritinu.

Marcellus og Paul as in "I'm Paul and this is between ya'll"

1:07 – Marcellus er svo geðveikt skemmtilegur karakter. Væri til að sjá spinoff mynd um hann. “If Butch goes to Indo-China, I want a nigger hidin' in a bowl of rice, ready to pop a cap in his ass.”

1:09 – “I’m American honey, our names don’t mean shit”. Í handritinu útskýrir Esmeralda, leigubílsstýran, hvað nafnið hennar þýðir, en það komst ekki í myndina.

1:10 – Við dollyum í kringum Butch á meðan hann talar í símann í símaklefa.

1:13 – Mér hefur alltaf fundist samtal Butch og Fabienne vera frekar skrýtið. Ætli það sé ekki pointið.

1:16 – Fabienne hvíslar að sjálfri sér á frönsku “Butch, ævintýrið okkar er rétt að byrja”. Ég hef aldrei tekið eftir þessari línu fyrr en núna þegar ég les handritið. En Butch átti að segja sömu línu við sjálfan sig, líka á frönsku (nema hann mundi segja “Fabienne” fyrir “Butch”) en það komst ekki í myndinni. Það stendur líka að enskur texti átti að fylgja með línunum báðum.

1:19 – QT laumar inn kvikmynd, The Loser, sem hann heldur greinilega upp á inn í Pulp Fiction.

1:22 – “You believe so?! What the fuck does that mean?! You either did or you didn’t!”, það er búið að byggja upp alla söguna með úrið svo vel að maður trúir því alveg að Butch skuli trompast svona þegar hann sér að Fabbienne hefur gleymt að pakka því niður.

1:23 – Bruce Willis fer í nettasta outfit í heimi, gallabuxur, hvítur bolur og brúnn rúskinnsjakki.

1:24 - Núna byrjar mjög langt atriði þar sem Butch er að labba í átt að íbúðinni sinni. Allt umhverfi og umhverfishljóð eru tiltölulega vel útskýrð í handritinu, þó ekki sé nákvæmlega farið eftir þeim í myndinni. Auglýsingin frá Jackrabbit Slim’s hljómar örstutt í bakgrunninum þannig maður heyrir það varla. Ég tók ekki eftir þessu fyrr en ég horfði á myndina með enskum texta fyrir heyrnalausa. Dæmi um skemmtilegt lítið smáatriði sem PF er svo full af.

Butch sér hver í fokkanum var að nota klósettið hans

1:27 – Butch og Vincent horfast í augu áður en Butch skýtur hann í spað. Þeir horfðust einmitt í augu á barnum hans Marcellus og voru einmitt frekar óvinveittir hvor öðrum.

1:28 – Eftir að Butch hefur drepið Vincent í sinni eigin íbúð þá einfaldlega þrífur hann byssuna sem hann skaut hann með og fer. Maður mundi halda að einhver nágranni hans skuli hafa heyrt í byssuskotunum eða þá reykskynjaranum sem fór í gang. Þá væri frekar einfalt fyrir lögregluna að átta sig á að Butch hefði drepið hann, sem gerir hann að flóttamanni og það er ekki séns að hann kæmist til S-Ameríku eins og hann ætlar sér. En þetta er nú einu sinni bara bíó þannig að maður ætti ekki að vera að velta þessu fyrir sér.

1:31 – Marcellus ætlar að skjóta Butch en skýtur óvart saklausa konu í síðuna. Hann hefði getað einfaldlega skotið eitthvað framhjá, en nei, hann varð að skjóta einhvern saklausan vegfaranda. Skemmtilegt.

[Mér sýnist af handritinu að QT ætlaði að reyna sína að Fabienne og Butch hafa verið lengi saman, en Butch á að segja “Sacre Bleu” þegar Marcellus byrjar að skjóta að honum. Þetta er ekki fyrsta franska línan sem Butch segir í handritinu]

1:32 – “Get your foot off the nigger.” QT er ekkert að spara N-orðið í myndunum sínum. Svertingjar nota það við aðra svertingja og líka hvítingja og hvítingjar nota það við hvítingja og líka svertingja.

Marcellus og Butch eru tvær flugur í vefi köngulóarinnar

1:34 – Zed mætir í kjallarann. Það er eins og hann sé með augnskugga, sem gerir hann enn ógeðslegri og perralegri.

1:35 – Gimpið mætir. “Gimp” er orðið að slangri á meðal íslenskra ungmenna þökk sé Pulp Fiction. Áhrifamikil mynd, vissulega. Það er nákvæmlega ekkert sagt um gimpið í myndinni, hvort hann sé þarna sjálfviljugur eða nauðugur eða hversu lengi hann hefur verið þarna. Allt þetta er undir áhorfandanum komið að ímynda sér. Það er kannski gefið í skyn að Butch eigi að verða gimp því gimpið hlær að honum og bendir á hann og síðan á sig.

Zed og gimpið. Zed er að gera úllen dúllen doff um hvorn hann ætli að nauðga fyrst.

1:38 – Butch ákveður að bjarga Marcellus. Klassískt atriði þar sem hann fer í gegnum vopnin, örugglega áætlað sem homage til hinna ýmissu mynda sem eru í uppáhaldi sjá QT. Hann endur á að velja samúræjasverð og talað er um í handritinu að sverðið sé Takakura Kenstyle.

Butch íhugar að nota vélsög, en endar á að velja katana sverð. Góð ákvörðun.

1:41 – “Aaaaatta boyyy!” þegar Zed ætlar sér að ná í skammbyssuna. Verst að hann var skotinn í klofið með haglabyssu nokkrum sekúndum síðar.

1:42 – “You okay?” “Nah man, I’m pretty fucking far from okay.” Marcellus er svo mikill töffari. Mjög óraunsær karakter, en ótrúlega skemmtilegur það litla sem maður fær að sjá af honum.

1:44 – Í handritinu þá faðmast Butch og Marcellus þegar þeir kveðjast. Góð ákvörðun að sleppa því.

1:46 – “Zed’s dead, baby, Zed’s dead” og það er síðasta línan í söguframvindu myndarinnar, en hún er auðvitað ekki í réttri tímaröð.

1:47 – Við fáum að heyra Ezekiel 25:17 ræðuna aftur. Gæjinn inn á klósettinu er svo mikill lúser, það sést bara á honum. Laxableik peysa og asnaleg klipping hjálpar ekki.

Fjórði maðurinn kemur út úr baðherberginu.

1:48 – Hann dritar á Vince og Jules en hittir ekkert og þá byrjar rifrildi Jules og Vincent um guðdómlegu verndarhönd Guðs. Ég er algjörlega á máli með Vincent í þeirri rökræðu þó hún sé alveg áhugaverð, sérstaklega á milli þessa tveggja skósveina-gangstera.

1:50 – Vincent talar um atriði sem hann sá í sjónvarpsþáttinum COPS. En fyrr í myndinni segist hann ekki horfa á sjónvarp. Hann sagði það örugglega til þess að lúkka kúl.

1:51 – Vincent skýtur óvart Marvin. Í handritinu skýtur hann Marvin í hálsinn en ekki í heilann þannig að Marvin deyr ekki strax þannig að hann þarf að skjóta hann aftur í höfuðið svo hann deyji. Það hefði alveg verið (svört) kómísk viðbót við þetta atriði.

1:53 – QT mættur í hlutverki Jimmie. Quentin er fínn leikari og getur púllað það vel að leika svona lúsera eins og Jimmie. Í Death Proof leikur hann meiri töffara og mér fannst það ekki alveg nógu sannfærandi. Kannski bara vegna þess að maður er búinn að venjast honum sem lúser. Sérstaklega er “dead nigger storage” djókið mjög leim, fullkomið fyrir QT.
Quentin Tarantino sem Jimmie með góða gourmet kaffið sitt.

1:55 – Við fáum að sjá Marcellus tala við Jules í símann. Ég hef aldrei almennilega áttað mig á hvort þetta sé Mia í sundbolnum með honum. En hún er með sundhettu og sundgleraugu fyrir andlitinu.

1:57 – Winston “The Wolf” Wolf mætir á svæðið. Ótrúlega svalur náungi og algjör andstæða við Jimmie. Maður hatar ekki Harvey Keitel.

1:58 – “Lotsa cream, lotsa sugar”.

Winston Wolf að gera það sem hann gerir best: að leysa vandamál

1:59 – The Wolf leysir vandamál. Þetta vandamál samt felst aðallega í að þrífa og að breiða lök yfir bílsæti, sem er nokkuð fyndið miðað við hvað Wolf er alvarlegur.

2:02 – “You an oak man?”. Eik er töff.

2:03 – “Well I’m a mushroom cloud laying motherfucker, motherfucker!” síðan fylgja þrjár poppkúltúrstilvísanir sem ég fatta ekki=snilld.

2:04 – Skemmtilegt að sjá hvað Vincent og Jules eru stoltir af verkinu sínu þegar þeir eru búnir að þrífa bílinn. Alblóðugir í ódýru jakkafötunum sínum.
Jules og Vincent ekki sáttir með fötin sem þeir fengu

2:07 – “Would you like to have breakfast with me?” spyr Vincent einskærri einlægni að Jules. Finnst þetta sýna að þeir eru ágætis vinir þrátt fyrir allt.

2:08 – Svínasamtalið góða. “Personality goes a long way”, tilvísunin í Arnold úr Green Acres (ég þurfti að googla þetta til þess að fatta tilvísunina) var upprunalega “he’d have to be like the Cary Grant of the pigs”, ég mundi fatta þá tilvísun, en mér finnst samt þessi sem er í myndinni betri, hún er sniðugri.

2:10 – “Like Caine in Kung Fu”, síðar fékk QT sjálfan Caine til þess að leika Bill í Kill Bill myndunum.

2:12 – Pumpkin og Honey Bunny taka yfir veitingastaðinn.

Pumpkin og Honey Bunny að ræna veitingastaðinn sem Jules og Vincent eru á

2:14 – Fáum að sjá hvað Jules er ógeðslega svalur þegar hann talar við Pumpkin.

2:15 – “Ok, Ringo, you win.”, ég hef stundum pælt af hverju hann kallar Pumpkin Ringo, kannski vegna þess að hann er breskur, kannski því hann taldi upp að þremur (eins og trommarar gera).

2:16 – Við fáum í annað skiptið að sjá ljósið sem kemur upp úr dularfullu skjalatöskunni. Hvað er í henni? Hver veit? Ég held þó að það sé ekki neitt spes, þetta er bara plot device hjá QT.

2:19 – Mér langar geðveikt mikið í veski sem stendur á “Bad motherfucker”, það er pottþétt til.

Jules með Bad Mother Fucker veskið sitt

2:20 – Ezekiel 25:17 í þriðja sinn. Þetta er í raun ekki bein tilvitnun í biblíuna, enda skiptir það engu máli, þetta hljómar töff.

2:22 – Vincent Vega og Jules Winnfield, tveir algjörir badasses, ganga rólegir út úr veitingastaðnum á meðan allir á svæðinu vita ekkert hvað er í gangi. Þeir setja skammbyssurnar sínar í buxnastrenginn á stuttbuxunum sínum og fara út um dyrnar á meðan lagið “Surf Rider” spilast undir. FIN
Fann ekki betri mynd af lokaskotinu en þetta.

Jæja, þessi færsla tók aðeins lengri tíma að skrifa en ég áætlaði, en samt gaman að þessu. Frábær mynd og frábært handrit. Ýmislegt varðandi myndina komst ekki til skila þar sem ég var oftast að skrifa jafnóðum og myndin var í gangi. Ég tók eftir því að það eru alveg svona 100 línur í þessari mynd sem mér finnast verðugar til þess að vitna í. Ég tala líka ekki mikið um það sem skiptir máli og einbeiti mér frekar að litlu atriðunum í þessari færslu. Ég tók líka eftir að það er mjög sjaldan að lýst er hvernig línur eru sagðar, en það er hlutverk leikstjórans og leikaranna sjálfra. Einnig tók ég eftir hvað Quentin Tarantino er fáránlega mikill kvikmyndanörd, hann hikar ekki við að segja að eitthvað eigi að vera eins og í einhverri mynd í lýsingunum í handritinu. Hann er líka frekar óformlegur í máli, kannski það hefði verið öðruvísi ef hann væri ekki að skrifa handritið fyrir sjálfan sig, enda er hann einnig leikstjóri myndarinnar. Í gamla daga býst ég við að handritin voru með formlegri hætti.

Bónus: Ef þið eruð að velta því fyrir ykkur þá er þessi færsla 3780 orða löng (með bónusnum).