föstudagur, 24. október 2008

Titanic

Ég á það til, á þessu bloggi, að skrifa ekki um það sem ég ætti að skrifa um, heldur eitthvað annað. Það er bara ein færsla hérna sem fjallar um mynd eða myndir sem við áttum að sjá, og síðan er ein færsla um stuttmyndina góðu. Ég gæti alveg skrifað um hitt og þetta sem við höfum séð í faginu þetta haust en þegar ég virkilega vil skrifa um eitthvað legg ég mun meiri metnað í það. Í dag ætla ég að skrifa um myndina sem allir elskuðu árið 1997 en smátt og smátt fór hróður hennar minnkandi og í dag er hún orðin hálfgert punchline. Ég er auðvitað að tala um Titanic, hans James Cameron. Þessi mynd var dýrasta mynd sem framleidd hafði verið þegar hún kom út og er talin þriðja dýrasta mynd allra tíma ef tekið er tillit til verðbólgu (í fyrsta sæti er Cleopatra frá 1963). Það er ekkert grín, enda er þessi mynd stór, mjög stór, hún er reyndar FOKKING HUGE. Þetta er engin indie arthouse mynd, þessi mynd var sköpuð til þess að græða milljónir á milljónir ofan og maður verður dálítið að vera meðvitaður um það þegar maður nýtur hennar.

Ég sá Titanic í bíó með allri familíunni þegar hún kom út, þá var ég 9 ára, og fannst hún mjög góð, síðan keypti mamma spóluna og ég held ég hafi horft á hana einu sinni, líklega í kringum 1998. Eftir það hafði ég ekki horft á hana í heil tíu ár þangað til ég ákvað að skella henni í tækið þegar ég fann spóluna niðri í kjallara. Þar sem ég er nú tiltölulega ungur að árum ennþá, þá hef ég ekki oft haft tækifæri til þess að horfa aftur á myndir sem ég hef ekki séð í áratug eða meira þannig að ég var spenntur að sjá hvort mér mundi enn finnast hún góð eða hvort ég mundi sjá hversu mikil væmin klisja hún væri, þar sem ég væri nú orðinn þroskaðri núna. Eftir að hafa horft á hana fannst mér hún ekki bara góð, heldur frábær. Hún er vissulega væmin, en það er dáldið svona “I know that going in”-dæmi. Þetta er epísk ástarsaga sem gerist á Titanic. Duh! Þetta er eins og að kvarta yfir spennu í spennumyndinni Speed, Titanic er bara ein af þessum myndum sem er dæmd til að vera væmin. Það er ekkert stórslys væmnara en Titanic, skipið sem “gat ekki sokkið” sem sökk í sinni eigin jómfrúarferð. Og það er ekki eins og James Cameron hafi allt í einu dottið á einhverja milljón dollara hugmynd með því að gera mynd um Titanic. Það höfðu verið gerðar ótal myndir um Titanic áður en Terminator leikstjórinn góðkunni ákvað að gera það. Það er meira að segja til ein nasista áróðurs mynd um Titanic, dýrasta mynd Þýskalands á sínum tíma og leikstjórinn var tekinn af lífi (!) vegna einhvers ágreinings á meðan það var enn verið að skjóta hana, mér langar mjög mikið að sjá hana.

Ástarsagan í Titanic er líka klisja, hvað sem það nú er. Hástéttarstúlka hittir lágstéttarstrák og þau verða ástfangin. Enginn að finna upp á hjólinu hérna. En ég skil ekki hvað fólk hefur á móti klisjukenndum söguþráðum, klisjur eru til því að sum minni eru svo góð og bjóða upp á svo góða sögu að þau eru notuð aftur og aftur þangað til þau verða að klisju og ég sé ekkert af því. Fólk hefur sagt sögur í þúsundir ára og nokkurn veginn allar helstu útlínur að söguþræði hafa verið dregnar áður. Ólafur Jóhannesson er t.d ekkert að fela það að nýjasta myndin hans, The Amazing Truth about Queen Raquela, er undir áhrifum frá Öskubusku, enda stendur á plakatinu af myndinni “A Cindarella story…”, ekkert að því. Þó að grunnurinn að ástarsögunni í Titanic er klisja þarf hún sjálf ekki endilega að vera klisja. Ég vil meina að tíminn hafi gert hana að klisju meira en allt annað. Það þekkja allir atriði eins og “I can fly!” atriðið og “I’m the king of the world!” atriðið og það að fólk hafi séð ótal paródíur af einhverju (Ég var einu sinni nörd, einhver!), jafnvel áður en það sér uppruna þeirra, gerir það alvöru atriðin máttlausari, það verður t.d. enginn hissa þegar Darth Vader segir Luke að hann sé faðir hans í dag, einmitt út af þessu. Þegar ég horfði á Titanic um daginn reyndi ég að horfa á hana eins og ég væri að sjá hana í fyrsta sinn og vissi ekkert um hana.

Myndin er nokkurn veginn tvískipt, fyrri helmingurinn er ástarsaga Jack og Rose og seinni helmingurinn snýr að Titanic slysinu sjálfu, meðfram því heldur ástarsagan auðvitað áfram, en hún fer frá því að verða gleðileg og verður átakanleg. Allt er þetta rammað inn með frásögn gömlu Rose sem gerist í nútímanum. Ég velti fyrir mér hvernig mögulega gæti verið hægt að gera betri mynd um Titanic. Það er auðvitað öll forsenda myndarinnar, að gera mynd um jómfrúarferð Titanic. Það fyrsta sem James Cameron datt í hug var “best að gera mynd um Titanic” en ekki “best að gera ástarsögu um Jack og Rose” og síðan að honum hafi dottið í hug að láta hana gerast á Titanic. Titanic slysið hefur verið svo rómantíserað alla tíð síðan það gerðist að það kemur ekkert annað til greina en að gera ástarsögu, og þá tragíska ástarsögu í stíl við slysið sjálft. Væri betra að gera ránsmynd sem gerist á Titanic? Slasher mynd? Nei (væri samt alveg til í að sjá það). Það að láta Rose segja söguna þegar hún er gömul gerir hana síðan einhvern veginn raunverulegri og maður trúir því frekar að þetta hafi allt gerst. Ég þarf síðan ekki að tala um hversu vel allur sjónræni hlutinn er leystur af hendi, enda lítið sparað í þeim efnum. Mikið er lagt upp úr því að myndin sé sögulega rétt, allt frá búningum og útliti skipsins að innanverðu (sjáið samanburð á screenshoti úr myndinni og ljósmynd frá alvöru Titanic hér til hliðar) til hvernig skipið sökk. Samtölin í myndinni eru flest ekki beint raunsæ, en mér finnst þau algjörlega virka í því sem þau eiga að gera. Það er ekki lagt upp með að gera raunsæa ástarsögu, því jú, þetta er saga. Í sögum gilda aðrar reglur en í raunveruleikanum og snýst umfram allt að halda athygli og áhuga áhorfandans. Þegar ekki var langt liðið á myndina var mér farið að þykja smá vænt um aðalpersónurnar og vildi að allt mundi fara á best veg fyrir þau, sem er nákvæmlega það sem mér átti að finnast, ergo, handritið er frábært, gæti ekki ímyndað mér hvernig betur hefði verið hægt að gera það. Allt þetta dæmi með demantinn er frekar tæpt, en ég meina, það er gott plot device.

Titanic er þó ekki gallalaus mynd. Aðal vondi gæjinn í myndinni er svo ótrúlega vondur að maður trúir því ekki að svona maður sé á Titanic yfirhöfuð og ekki bara í fangelsi. Maður finnur enga tengingu við hann og það er ekkert lagt upp úr því að sína að hann hafi einhverja aðra viðkvæmari hlið, hann er bara geðveikt vondur og algjört schmuck. Ég ætla ekki að fara að telja upp allt það illa sem hann gerir en það versta er örugglega þegar gellan sem hann ætlaði að giftast beilar á honum og hann dregur upp skammbyssu og byrjar að skjóta á hana. WTF! Annað atriði sem dregur niður Titanic, sem er þó ekki beint hluti af myndinni, er lagið með Celine Dion. Ég hef ekkert á móti laginu sem slíku, en það einhvern veginn dregur virkilega úr trúverðugleika myndarinnar að lag sem heitir My Heart Goes On hafi verið gefið út á sama tíma og myndin til þessa að promota hana og þar að auki kemur lagið líka þegar credit listinn rúllar. Cameron er hreinlega að bjóða fólki upp á það á silfurfati að kalla myndina sína væmna. En lagið varð algjör hittari og platan með soundtrackinu seldist í milljónum eintaka um allan heim þannig að þetta hefur allavega skilað inn aðeins fleiri milljónum í kassann. Leikurinn í myndinni finnst mér góður hjá flestum, sérstaklega Leonardo DiCaprio, en stundum finnst mér hann smá þvingaður hjá Kate Winslet, jafnvel þó hún hafi fengið Óskarstilnefningu en ekki hann. Kannski bara sérviska í mér.

Ég er dálítið farinn að sjá það sama gerast við Lord of the Rings þríleikinn og gerðist við Titanic. Fólk er farið að tala verr um myndirnar en það gerði upprunalega, það er einhvern veginn svo auðvelt að gagnrýna eitthvað sem er ótrúlega stórt, þó að þær muni líklega ekki vera á sama stalli og Titanic eftir nokkur ár. Ef hópur af fólki er að tala um hverjar væru bestur myndir allra tíma og einhverjir mundi segja “Titanic” mundi það örugglega uppskera hlátur. Þetta finnst mér leiðinlegt því að mínu mati er þetta frábær mynd. Ekki besta mynd sem ég hef séð kannski, en þó kemst hún örugglega alveg í topp 20 hjá mér, jafnvel topp 10, í alvöru. Hún náði algjörlega að halda athygli minni alla þrjá tímana sem hún stóð yfir. Og þegar Jack og Rose voru bæði í sjónum í lok myndarinnar og Rose er upp á flekanum og Jack heldur í hann gat ég bara hugsað “Af hverju þarf hann að deyja! AF HVERJU!”, og þegar kvikmynd nær að framkalla alvöru tilfinningar um uppskáldaðar persónur, þá hlýtur að vera um góða mynd að ræða.

Bónus: Mad Men eru geðveikir þættir.

3 ummæli:

Siggi Palli sagði...

Glæsileg færsla. 10 stig.

Ég er nú samt ekki beint sammála mörgu. Ég sá Titanic í bíó á sínum tíma og mér hefur sjaldan leiðst jafn mikið og síðasta hálftímann...

andri g sagði...

ÞAÐ ER BESTI PARTURINN!

En já, ég viðurkenni að hafa hæpað hana dálítið mikið í þessari færslu, tek til baka að þetta sé meðal allra bestu mynda sem ég hef séð, en stend algjörlega við það að gefa henni fullt hús stiga.

Gísli Guðlaugsson sagði...

Þú ert alltaf með svo epískar færslur maður! Flottur