miðvikudagur, 17. september 2008

Topp...5 listinn

Eftir að hafa lesið nokkur blogg um topp 10 listana hjá fólki, bæði frá hópnum í fyrra og núna, þá virðast flestir eiga í vandræðum með að velja einungis tíu myndir til þess að setja á listann sinn og nefna venjulega ótal myndir sem eru "við þröskuldinn". Hjá mér er það akkúrat öfugt, ég á í stökustu vandræðum að finna tíu myndir sem ég tel eiga heima á á topp 10 listanum mínum. Mér finnst mjög margar myndir vera góðar og jafnvel frábærar en fáar eru í sérstöki uppáhaldi. Ég er ekki mikið fyrir að horfa á myndir aftur, ef mig langar að horfa á mynd á annað borð þá kýs ég frekar að horfa á mynd sem ég hef ekki séð áður. Það sem fjórar af fimm myndunum á listanum eiga sameiginlegt er að pabbi eða bræður mínir hafa átt þær allar á spólur í langan tíma og þar af leiðandi hef ég horft á þær mjög oft þar sem þær hafa alltaf verið til staðar og ég horfði á þær allar í fyrsta sinn fyrir a.m.k. átta árum þannig að þær hafa átt langan tíma að meltast. Þetta segir án efa mikið um af hverju einmitt þessar myndir eru á listanum mínum. Það er nefnilega oft þannig með myndir, t.d. leyfi ég mér að fullyrða að ef Birta hefði séð Rocky Horror í fyrsta sinn í gær væri hún ekki í efsta sæti á listanum hennar, ef hún væri á listanum hennar yfir höfuð. Það sama gæti ég sagt um Mallrats fyrir mig.

Mér finnst ég ekki geta sett mynd á listann sem ég hef bara séð einu sinni. Það koma nokkrar myndir upp í hugann sem gætu átt heima á listanum sem ég hef bara séð einu sinni, eins og 2001: A Space Oddyssey, Belle de jour og Citizen Kane. Við munum horfa á Citizen Kane á föstudaginn og ég skal sjá til hvort hún fái inngöngu á listann eftir að ég hef horft á hana í annað skiptið, en þangað til ætla ég að bíða með það. Með þessum lista er ég ekki að segja að þetta séu bestu myndir allra tíma, ekki einu sinni endilega bestu myndir sem ég hef séð, en þær eru mest í uppáhaldi hjá mér og ég er alltaf til í að horfa á þær, t.d. akkúrat núna.

5. Goodfellas
Þessi mynd er svona semi filler á þessum lista verð ég að segja þó mér finnist hún vera algjört meistaraverk þá er hún ekki í jafn miklu uppáhaldi og hinar fjórar. Þessi mynd er byggð á sönnum atburðum um gangstera í New York og spannar heil þrjátíu ár eða svo. Það eru reyndar búin að líða tvö eða þrjú ár síðan ég sá þessa mynd síðast, jafnvel meira, þannig að ég get ekki sagt meira en að allt við þessa mynd er gott. Leikurinn er frábær, handritið sömuleiðis (ef ég man rétt var þessi mynd með flest “fuck” þegar hún kom út), og snillingurinn Martin Scorsese hefði átt að fá Óskarinn fyrir leikstjórn en tapaði á móti Kevin Costner (!). Myndatakan er virkilega góð eins og má sjá á þessu atriði. Ég pældi ekki mikið í þessu tiltölulega látlausa atriði þegar ég sá þessa mynd fyrst þegar ég var svona 13, en með tímanum fer maður að meta svona góða og skemmtilega myndatöku.

4. Oldboy
Þessi mynd sker sig úr hópnum þar sem ég sá hana fyrst fyrir svona tveimur eða þremur árum. Það sem ég elska við þessa mynd er plottið. Ótrúlegt og yndislega flókið plott sem hefði aldrei verið greenlightað af kvikmyndavers-týröntunum í Hollywood. Burtséð frá plottinu er margt við þessa mynd sem skilur mann eftir dolfallinn. Ofbeldið er einstaklega grafískt og eitt ofbeldisatriðið sem er allt í einni töku er eitt rosalegasta atriði sem ég hef séð í bíómynd fyrr og síðar. Choi Min-sik kallinn fer á kostum sem hinn örvæntingafulli og vitfirrti Oh Dae-su sem er blindaður af hefndarþorsta eftir að hafa verið innilokaður í 15 ár. Þessi mynd er miðjumyndin í svokölluðum hefndarþríleik leikstjórans Park Chan-wook, en fyrsta myndin er Sympathy for Mr. Vengeance og sú síðasta Sympathy for Lady Vengeance. Ég hef aðeins séð byrjunina á fyrri myndinni en ætla mér að horfa á þær báðar á næstunni, kannski ég skrifa eina feita færslu um þríleikinn, hver veit?

3. Eyes Wide Shut
Þegar fólk talar um bestu mynd Stanley Kubrick koma nokkrar til greina, t.d. Dr. Strangelove, 2001, The Shining, Spartacus, Full Metal Jacket eða A Clockwork Orange. Aldrei er þó nefnd mín uppáhalds mynd eftir meistarann (og ég hef séð allar ofantaldar myndir), síðasta myndin sem hann náði að klára, Eyes Wide Shut sem kom út 1999. Ég skil ekki af hverju þessi mynd er ekki talin vera á pari við bestu verk hans, skv. wikipedia greininni voru þrjú atriði sem gagnrýnendur voru ekki að fíla:
1) Myndin var of hæg. Ég get alveg kvittað undir þetta, en ég sé það alls ekki sem einhvern galla, þannig er myndin bara. Það mætti jafnvel segja að það er það sem gerir myndina að því sem hún er. Það er eytt miklum tíma í að byggja upp spennu og myndin lallar voða mikið áfram en þegar lallið er vel framkvæmt, af hverju að vera þá að flýta sér með hlutina? Grunnplottið í myndinni væri alveg hægt að afgreiða í einni 30 mínútna stuttmynd, en þessi mynd snýst ekki um plottið. Ég man að ég var skíthræddur við þetta píanó stef sem kemur nokkrum sinnum fyrir í myndinni og þegar leikstjóri fær mann til þess að vera hræddan við píanóstef veit maður að hann er að gera eitthvað rétt.
2) New York lítur ekki út eins og New York. Þetta er eitthvað sem mér gæti ekki verið meira sama um. Ég hef aldrei farið til New York og bandarískar stórborgir líta nokkurn veginn eins út fyrir mér hvort sem er. Ég hafði t.d. ekki hugmynd um að Seinfeld þættirnir væru allir teknir upp í Los Angeles fyrr en einhver sagði mér það.
3) Ritskoðun. Þetta er líka eitthvað sem kemur bara Bandaríkjamönnum við. Myndin inniheldur nokkuð mikið af kynlífsatriðum og til þess að sleppa við 17+ aldurstakmark í kvikmyndahúsum voru einhvers konar tölvugert fólk bætt í myndinni til þess að blokkera grófustu kynlífsathafnirnar. Þetta finnst mér einstaklega fyndið og trúði þessu varla þegar ég las þetta, sérstaklega þar sem Kubrick hefur aldrei verið hræddur við há aldurstakmörk, en myndin kom út tveimur mánuðum eftir dauða hans sem gerir þessa ritskoðun kannski aðeins skiljanlegri. Sem betur fer var Evrópu útgáfan óbreytt, en stundum rata bandarískar ritskoðanir því miður til Evrópu eins og t.d. Kill Bill, en í japönsku útgáfunni af Kill Bill Vol. 1 er allt atriðið þar sem Brúðin er að rústa Crazy 88 genginu í lit ásamt því að nokkur atriði sem voru talin of gróf fyrir bandarískan markað (og þar af leiðandi líka evrópskan) fengu að njóta sín í japönsku útgáfunni.

Það mætti líka nefna meira sem gæti hafa átt þátt sinn í að Eyes Wide Shut hafi ekki verið tekið sérstaklega vel þegar hún kom út. Hún kom heilum 12 árum eftir síðustu mynd Kubricks á þessum tíma og þegar svona mikill tími líður á milli mynda hjá eins virtum leikstjóra og Kubrick fer hæpið upp úr öllu valdi. Entertainment Weekly kallaði Eyes Wide Shut “THE SEXIEST MOVIE EVER MADE” (titill sem ég, persónulega, mundi mun frekar gefa hinni áðurnefndu Belle de jour) áður en hún kom út en þrátt fyrir alla nektina og kynlífsatriðin þá snýst þessi mynd alls ekki um kynlíf heldur um afbrýðissemi, siðblindu og örvæntingu. Maður gleymir meira að segja að Tom Cruise sé snargeðveikur vísindakirkjubrjálæðingur þegar maður horfir á myndina, en hann og þáverandi konan hans, Nicole Kidman, standa vel fyrir sínu í aðalhlutverkunum.

2. Mallrats
Myndin sem Kevin Smith gerði á undan þessari, Clerks, er oftast talin vera hans besta og ein besta independent mynd sem hefur verið gerð. Á sínum tíma voru gerðar miklar væntingar til Kevin Smith og Mallrats og litu sumir á að hún mundi verða hans Pulp Fiction. Allt kom þó fyrir ekki og það mætti segja að Mallrats sé eins konar poppuð útgáfa af Clerks, meira sprell, ýktari karakterar og myndin í lit og annað slíkt. Ég sá þessa mynd fyrst af öllum myndunum á listanum mínum og hef elskað hana mjög lengi. Hún gerist öll á einum degi, deginum áður en Clerks á að gerast víst, og byggist aðallega á samtölum milli skemmtilegra karaktera sem eru að hanga í hverfismollinu (þaðan kemur titill myndarinnar) á milli þess sem tvíeykið ódauðlega Jay & Silent Bob brjóta upp myndina með plönum sínum um að eyðileggja svið á stefnumótaþætti sem á að vera tekinn upp í mollinu seinna um daginn. Margir af helstu leikurum Smiths koma fram í myndinni, eins og Jason Lee og Ben Affleck, en þetta var fyrsta mynd Jason Lee, sem margir kannast við úr þáttunum My Name Is Earl, og fer hann algjörlega á kostum í henni. Myndin er uppfull af poppmenningar tilvísunum, eitthvað sem ég elska í kvikmyndum, og þá sérstaklega myndasögutilvísunum. Auglýsingaplakatið fyrir myndina sem má sjá hér til hliðar er einmitt sett upp eins og myndasögublað og finnst mér það vera eitt flottasta kvikmyndaplakat sem ég hef séð og ég mundi ekki hata að eiga það upp á vegg. Myndin endar síðan á laginu sem er með mest play count í itunes hjá mér, Susanne með Weezer, ekki slæmt það. Eins og ég hef nefnt áður þá væri þessi mynd örugglega ekki á listanum mínum ef ég hefði séð hana í fyrsta sinn í gær, en allar slíkar vangaveltur skipta engu, það er mörg önnur atriði sem spila inn í hvort við líkum einhverja mynd eða ekki en bara myndin sjálf, t.d. með hverjum við horfðum á hana, hvar við horfðum á hana, hvenær o.s. frv.. Þetta er frábær mynd og næst uppáhalds myndin mín í heiminum.

1. Pulp Fiction
Þessi mynd á skilið að fá sína eigin færslu sem ég legg ekki alveg í í augnablikinu. Þangað til, njótið screenshotsins.

Bónus: Vil benda Sigga Palla á að ég fékk engin stig fyrir Shorts & Docs færsluna mína.

miðvikudagur, 10. september 2008

Suttmyndamaraþon: Á tæpasta vaði ;)

Þemað “stríð” er áskorun þegar maður hefur einn dag og ekkert budget. Á mánudagsmorgun hafði ég ekki hugmynd um hvernig stuttmyndin ætti að vera. Ég, Kristján og Birta (en hinir í hópnum voru Haraldur, Héðinn og Björn Ívar) ræddum lítillega um hvernig myndin gæti verið í hádegishléinu en við fengum enga almennilega niðurstöðu. Ég fór heim úr skólanum og ætlaði að reyna að sofa smá þar sem ég hafði verið vakandi síðan klukkan 14 daginn áður en ég náði lítið að sofna þar sem Haraldur og Héðinn hringdu sífellt í mig til þess að fá mig til að vera með í hugmyndavinnunni í hópnum, þegar ég loksins drjólaðist til þeirra voru þau búin að útleggja hvernig myndin ætti að vera og ég var fenginn í hlutverk herforingja þar sem ég á þannig búning. Ég gaf þó myndinni titil, Á tæpasta vaði ;), sem ég er mjög stoltur af.
Ég er mjög ánægður með hvernig við náðum að framfylgja þemanu. Við settum okkar tvær tiltölulega fastar skorður, 1) myndin gerist í fortíðinni og 2) myndin er hljóðlaus. Kannski sú staðreynd að við horfðum á The General fyrr um daginn hafði áhrif. Það að hafa myndina hljóðlausa leysti ýmis vandamál og skapaði önnur. Við þurftum ekki að hafa neinar áhyggjur af hljóðnemum og öðru slíku en ég las í öðru bloggi að einn í hópnum þurfti að taka það að sér að vera hljóðmaður, sem hljómar eins og ekkert nema vesen. Annar kostur við að hafa myndina hljóðlausa er að við gátum sleppt öllum samtölum, en það er venjulega mesti löstur á áhugamanna stuttmyndum, enda tekur tíma að skrifa gott og raunsætt samtal og ekki er á allra færi að spinna, eða leika yfir höfuð. Dæmi um vandamál sem skapaðist var að láta einhvern veginn áhorfandann vita hvað væri í gangi án þess að nota mælt mál. Við leystum það með því að nota spjöld (sem Birta hélt á eins og hún væri að halda á gullna reyfinu) sem þjónuðu sem nokkurs konar sögumaður, einnig var allur leikur frekar ýktur til að undirstrika hvað gengi á. Hljóðlausar myndir eru þó ekki algjörlega hljóðlausar þar sem þær hafa flestar tónlist undir en ég fer nánar út í það seinna í færslunni.
Haraldur Alfons Prypja var sá eini sem ekki var með hlutverk í myndinni en hann tók að sér að vera á kamerunni með dyggri aðstoð Stjána. Það kom ekkert annað til greina en að setja á “epic war movie” stillinguna úr glærusýningunni, enda vorum við að gera epíska stríðsmynd. Það kom fljótt í ljós að ég vildi vinna þessa mynd á annan hátt en Haraldur og Kristján þar sem ég taldi þá vera fullmilka fullkomnunarsinna a la Peter Jackson á meðan ég var nokkurn veginn sáttur með öll atriði ef þau náðu að klárast a la Ed Wood. Það var þó kannski fyrir bestu að þeir fengu sínu framfylgt enda öll myndataka í myndinni til fyrirmyndar að mínu mati. Ég hef stundum kallað Héðinn Hédda Chaplin enda tel ég hann vera einstaklega laginn við látbragð og annað slíkt sem silent-film leikarar eru góðir í og þessir hæfileikar hans fengu virkilega að skína í fyrri hluta myndarinnar. Mikið vesen var að, og ég er nokkuð viss um að allir munu nefna þetta í færslunum sínum um stuttmyndamaraþonið, þurfa alltaf að spóla til baka til að taka upp atriði aftur, og það sem var verra, að ýta á stop á nákvæmlega þeim stað sem maður vill byrja að taka upp. Það gerðist oftar einu sinni hjá okkur að þurfa að taka upp atriði sem heppnaðist vel aftur því að við höfðum óvart tekið smá yfir endann á því eftir að hafa spólað örlítið of langt til baka. En við þessu öllu saman mátti búast þar sem engin klippiforrit og annað slíkt var leyfilegt.
Við kláruðum upptökur í kringum hálfellefu um kvöldið og vorum öll mjög ánægð með árangurinn og vorum öll sammála um að myndin varð miklu betri en við bjuggumst við áður en við hófumst handa, sérstaklega þar sem myndin okkar er mjög opin til túlkunar og það má jafnvel sjá ákveðna ádeilu í henni. Við vorum þó ekki alveg kláruð með hana því að audiodöbbið var eftir. Það kom í minn hlut og Haralds að reyna að plögga þessu og eftir um 20 mínútna fikt var ég engu nær um hvernig ég ætti að gera, nema að ég vissi hvar audio dub takkinn var og ég ýtti á hann þó nokkrum sinnum vonandi að eitthvað mundi gerast í hvert skipti. Haraldur hringdi síðan í mig og sagði mér að tékka á bæklingnum sem var með vélinni, en ég var bara með slædsjóvið sem sýndi ekki neitt nema bara staðsetningu takkans á vélinni, og þá fattaði ég loksins hvernig þetta virkaði. Næsta vandamál var að finna gatið til að stinga jackinu í, það var falið á bakvið einhverju loki sem Haraldur fann eftir langa stund. Síðan var að finna snúru sem passaði í gatið, það tók um það bil 10 mínútur og þá gátum loks byrjað. Í byrjun myndarinnar vildum við hafa píanó tónlist eins og tískan er í gömlum hljóðlausum myndum og við ákvöddum að hafa ekki týpíska og létta píanó tónlist heldur fremur melónkólíska (frá smiðju Theolonious Monk) til þess að setja tóninn fyrir það sem koma skyldi. Í “stríðsatriðinu” stakk Haraldur upp á því að hafa annan hluta verksins Carmina Burana (ekki hinn ofnotaða og mun frægari fyrsta hluta) eftir Carl Orff og við lögðum mikið upp úr því að láta lagið enda á sama tíma og atriðið. Loks var það síðasta lagið sem ég hafði hugsað að gæti passað vel við atriðið fyrr um daginn, Some Mother's Son með The Kinks. Þá var myndin tilbúin.
Ég er að flestu leyti mjög sáttur hvernig myndin kom út. Við lærðum á vélina og almennt skemmtum við okkar bara mjög vel að skjóta myndina. Björn Ívar sagðist samt hata okkur öll og neitaði að mæta nema til að vera í einu 10 sekúndna atriði, en það er önnur saga.

Bónus: Það hefur gerst fjórum sinnum í þessari viku að ég hafi byrjað að horfa á mynd og ekki náð að klára hana af hinum ýmsu ástæðum. Myndirnar voru Casablanca (ég eyddi óvart downloadinu og nennti ekki að byrja aftur), The Godfather II (man það ekki, hef samt séð hana áður), El Orfanato (þurfti að fara að audiodöbba þessa stuttmynd) og Sympathy for Mr. Vengeance (of þunnur).

mánudagur, 1. september 2008

Boss Nigger


Ég held að Siggi Palli hafi skotið sig í fótinn með því að benda mér á b-mynda torrentsíðuna cinemageddon.com því að ég þegar ég renn yfir úrvalið þar eru svo margar myndir sem mér langar til þess að sjá og mun það eflaust tefja fyrir mér að horfa á aðrar "mikilvægari" myndir eins og þær sem eru á 102 listanum. Þar sem ég var búinn að nefna blaxploitation myndir í fystu færslunni minni ákvað ég að horfa á eina slíka. Ég hafði úr um 100 myndum að velja, þó að sá listi takmarkaðist talsvert þar sem sumar myndir höfðu mjög fáa eða enga seeders. Ég ákvað að horfa á myndina Boss Nigger frá 1974, aðallega vegna titilsins og mjög töff plakats sem má sjá hér til hliðar. Boss Nigger er ekki týpísk blaxploitation mynd þar sem hún er vestri, á meðan flestar blaxploitation myndir gerast í samtímanum í Harlem eða álíka hverfum (reyndar tók ég eftir mörgum öðrum blaxploitation myndum með öðruvísi twisti, t.d. sá ég eina zombie blaxploitation mynd og aðra kung-fu blaxploitation mynd). Eftir að hafa lesið mér aðeins til um myndina þá hef ég komist að því að hún er talsvert meiri vanilla en aðrar blaxploitation myndir, það er mjög lítið blóð og ofbeldið er ekki mjög gróft, það er lítil sem engin nekt og ekki mikið um blótsyrði fyrir utan orðið “nigger” sem er örugglega sagt svona 100 sinnum í myndinni.
Myndin fjallar um nafnlausan kúreka sem kallast Boss (hmm, minnir mann dálítið á Blondie gamla úr öðrum aðeins þekktari vestra) sem kemur í spilltan bæ ásamt félaga sínum og gerir sjálfan sig að sheriff og vin sinn að debuty. Síðan fjallar myndin um almenn spaðalæti þeirra í bænum (þeir á koma svokölluðum “black law” í bænum sem bannar t.d. að tala illa um svertingja og fleira í þeim dúr) og síðan er lítilli ástarsögu bætt inn á milli og seinni hluti myndarinnar snýst aðallega um stríð á milli Boss Nigger og Jed Clayton sem er algjör bad ass hvítingi sem bæjarstjórinn borgar til að losna við Boss Nigger. Fred Williamson sem leikur Boss skrifaði einnig handritið og meðframleiddi myndina. Fred er fyrrverandi amerísk fótboltastjarna og ein stærsta blaxploitation stjarna áttunda áratugarins, kannski lesendur hafi séð hann í From Dusk Till Dawn þar sem hann lék stóra svertingjann sem breyttist síðan í vampíru.
Sumt við Boss Nigger var að virka, sumt ekki. Reynt var að blanda húmor í myndina með misjöfnum árangri, en t.d. allt útlit á myndinni var mjög flott, sérstaklega miðað við b-mynd, og Boss Nigger sjálfur var alveg jafn ógeðslega svalur og Fred Williamson skrifaði sjálfan sig. Á einum tímapunkti náði myndin að byggja upp smá alvöru spennu, allavega varð ég smá spenntur í einu atriðinu. Tónlistin var mjög góð, þó hún hafi ekki verið mjög vestraleg, svalt instrumental fönk en hægt er að hlusta á titillagið í youtube klippunni að ofan, en ég mæli algjörlega með því, gott lag og textinn frekar áhugaverður (í myndinni er klippt út orðið “nigger” í laginu (mjög illa) sem mér finnst frekar skrýtið þar sem það er ekkert verið að spara orðið í myndinni, en í youtube klippunni er titillagið óklippt). Einnig var endirinn nokkuð óvæntur, en ég hefði haldið að svona myndir mundu enda á eins týpískan hátt og hægt er. Bardagasenurnar voru ekkert sérstakar, kannski voru þær góðar á sínum tíma en maður er svo góðu vanur úr nýrri myndum eins og The Matrix og fleiri bardaga extravaganza myndum að svona gamaldags kýlu slagir (með tilheyrandi óraunsæum sound effectum) finnst manni frekar óspennandi.
Ef ég ætti að gefa þessari mynd stjörnur mundi ég skella á henni hálfu húsi, en þó hélt hún mér við efnið allan tímann, ekkert endilega því þetta er svo góð mynd, heldur því þetta var eitthvað sem ég hafði aldrei séð áður og á meðan gimmickið yfir því að horfa á blaxploitation mynd er ennþá til staðar mun ég njóta hennar. Ég býst ekki við því að verða einhver blaxploitation nörd, en mér langar samt að sjá fleiri, allavega stefni ég á að sjá týpískari blaxploitation mynd sem gerist in tha hood.

Bónus: Orðið "blaxploitation" kemur fram 11 sinnum í þessari færslu.