föstudagur, 22. ágúst 2008

Myndir sem ég vil sjá (og af hverju)

Margar myndir eru svo umtalaðar að það að vera ekki búinn að sjá þær getur hamlað samtöl um kvikmyndir eða gert snjallar kvikmyndatilvísanir að engu. Sérstaklega er leiðinlegt þegar gert er grín að myndum eða vísað í þær á einhvern hátt í sjónsvarpsþáttum eins og The Simpsons og maður fattar ekki djókið því maður hefur ekki séð myndirnar. Ég er ekki frá því að ef ég mundi klippa saman allar þær tilvísanir í 2001: A Space Oddyssey eða Citizen Kane sem ég hef séð í hinum ýmsu þáttum eða myndum þá væri ég kominn með myndirnar í heild sinni. Ég tel mig hafa séð mjög margar myndir sem taldar eru með þeim allra bestu, áhrifamestu, vinsælustu en umfram allt, elskuðustu sem gerðar hafa verið. Þó eru nokkrar títtnefndar myndir sem ég hef heyrt svo oft um að ég kann jafnvel allan söguþráðinn og/eða kannast við ákveðnar persónur eða atriði úr myndinni án þess að hafa séð hana. Hérna ætla ég drepa á nokkrum stórvirkjum og nokkrum költ myndum sem ég hálfskammast mín fyrir að vera ekki búinn að sjá.

The Big Lebowski

Þetta er mynd sem er alveg út-í-hött að vera ekki búinn að sjá. Þessi mynd sló engin aðsóknarmet þegar hún kom út en hefur sankað að sér aðdáendum alveg síðan. Haldin eru keilumót til heiðurs myndarinnar víða um heim og jafnvel hér á Íslandi var haldið Lebowski keilumót fyrir ekki svo löngu síðan þar sem fólk klæddi sig upp sem uppáhalds persónan sín úr myndinni og spilaði keilu. Það sem ég hef heyrt um myndina er að hún byggist aðallega á eftirminnilegum samtölum, sem er algjörlega eitthvað sem ég kann að meta. Ég man eftir því þegar eldri bræður mínir horfðu á þessa mynd þegar ég var yngri, ég held meira að segja að þeir áttu hana á spólu, en ég nennti aldrei að horfa á hana vegna titils myndarinnar, mér fannst hann frekar fráhrindandi. Þessa mynd verð ég pottþétt búinn að sjá áður skólaárið er á enda.

Godzilla

Neibb, ekki þarna Hollywood myndin með þarna gæjanum sem lék líka í Independence Day, hvað hét hann aftur, er með gleraugu, sjúklega nettur, bíðið ætla að tékka á internytjunni… hmm, kemur í ljós að meistarinn Jeff Goldblum lék EKKI í Godzilla myndinni sem kom út 1998. Mér fannst það einhvern veginn. Jæja, ég er sem sagt ekki að tala um þá Godzillu mynd, heldur þá japönsku sem kom út 1954. Ég held að aðalástæðan að ég vil sjá þessa mynd er út af öllum framhaldsmyndunum. Mig langar að vera költ nölli. Eins og til dæmis að vita hvenær King Ghidaroh kom inn í Godzillu seríuna og hvernig sonur Godzilla varð til og þannig. Ég held þegar maður tekur einhverri költ seríu ástfóstri þá getur maður jafnvel elskað lélegu myndirnar. Mér líður þannig með suma af upprunalegu Star Trek þáttunum (ég fer betur út í þá í annarri færslu), jafnvel þó að einhver þáttur sökki og er hundleiðinlegur finnst mér samt “gaman” að horfa. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að útskýra hvers vegna þannig ég fer ekki með þetta lengra. Sem sagt, ef ég fíla upprunalegu Godzillu myndina ætla ég að horfa á allar hinar í tímaröð.

Star Trek V og VI

Þetta eru síðustu tvær myndirnar þar sem castið úr upprunalegu þáttunum er í aðalhlutverki. Sjálfur William Shatner leikstýrir þeirri fimmtu og það verður áhugavert að sjá hvernig það tókst til (á myndinni til hliðar má sjá meistarann iðinn við kolann að leikstýra, í Enterprise búningnum að sjálfsögðu), en Leonard Nimoy, sá sem leikur Spock, leikstýrði myndum 3 og 4 og stóð sig með prýði.

Shichinin no samurai

Eða “Hinir sjö samúræjar” er rosalega áhrifamikil mynd og allar hasarmyndir hafa nýtt sér kvikmyndatökuna í þessari mynd á einhvern hátt...eða eitthvað. Það er allavega búið að hæpa þessa mynd mjög mikið fyrir mér og þegar hæpið er komið á ákveðið stig verður maður að sjá myndina. Þangað til ætla ég bara að trúa á orð Flavor Flav úr Public Enemy: “Don’t Believe the Hype!”.

Dr. Strangelove (or How I learned to Stop Worrying and Love the Bomb)

Stanley Kubrick. Þau tvö orð eru í raun næg ástæða til þess að horfa á þessa mynd. Þar að auki eru takmörk fyrir því hversu oft er hægt að sjá homage til kjarnorkjusprengju atriðisins (þarna þar sem gaurinn er að ríða á sprengjunni) án þess að hafa séð upprunalega atriðið. Þetta er einnig uppáhalds mynd David X. Cohen, einn af sköpurum Futurama og handritshöfundur hjá the Simpsons, mjög fyndinn náungi, enda hef ég horft á hvern einasta Futurama þátt með audio commentary oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.

Indiana Jones þrí...eh, FJÓRleikinn

Hef ekki séð eina einustu Indiana Jones mynd, sem er alveg fáránlegt.

Die Hard

Ég er ekki að grínast. Ég er EKKI að grínast. Ég hef ekki séð Die Hard. Hvað þá Die Hard 2, With a Vengeance eða 4.0. Ég VERÐ að sjá Die Hard. Ég ætla að horfa á hana í jólafríinu, jafnvel allan þrí...FJÓRleikinn, því hún gerist víst á jólunum. Yippie Kah-Yay!

Alien

Annar skylduáhorfs þríleikur (fimmleikur? man ekki hvað þær eru margar) sem ég hef ekki séð. Reyndar sá ég eina af þeim þegar ég var svona 12 ára, en ég man bara eftir lokaatriðinu.

Plan 9 from Outer Space

Af mörgum talin versta mynd allra tíma. Slíka mynd VERÐ ég að sjá. Hafandi séð hina stórgóðu Tim Burton ræmu, Ed Wood, langar mér að sjá þessa mynd enn frekar. Í Seinfeld þættinum “The Chinese Restaurant” er Jerry að fara að sjá þessa mynd í bílabíói. Sagan á bakvið þessa mynd og hvernig hún kom til er líka mjög merkileg, en leikararnir þurftu að láta skíra sig í einhverja kirkju svo að hún yrði fjármögnuð.

Kung Fu From Beyond the Grave

http://www.youtube.com/watch?v=R2LjkvbKwpQ
Ég ætla að setja mér það persónulega markmið að sjá þessa mynd áður en skólaárið er á enda. Sjáið bara til.

Blade Runner

Ég spilaði tölvuleikinn sem kom út fyrir 11 árum og kláraði hann næstum því (mjög góður leikur, hulstrið á honum má sjá á meðfylgjandi mynd), þannig að ég veit um hvað þessi mynd fjallar. Ég elska sci-fi og þessi er talin eins sú allra besta í þeim flokki þannig að ég verð sjá hana sem fyrst. Þegar ég var að spila tölvuleikinn, 9 ára, ákvað ég að horfa á myndina árið 2019, því myndin gerist þá, en ég held ég brjóti þetta loforð sem ég gaf sjálfum mér á þeim tíma þar sem ég er of forvitinn núna. Ég get alveg horft á hana aftur árið 2019 þannig að ég get alveg staðið við þetta loforð tæknilega séð.

Sin City

Ég hef lesið allar Sin City bækurnar eftir Frank Miller og notið þeirra allra, og ég tel eina af þeim vera ein besta myndasaga sem ég hef lesið (The Hard Goodbye fyrir þá sem vilja vita það). Það er furðulegt að ég hef aldrei látið verða að því að sjá myndina þar sem ég tel 100% líklegt að ég muni fíla hana. Þessi myndasögumynd er talin fylgja upprunalegu bókunum mjög strangt eftir, eitthvað sem gleður alltaf myndasögunörda sem telja það guðlast að breyta einhverju úr upprunalegu sögunum til að henta kvikmyndamiðlinum betur (From Hell einhver!!!). Solid leikarar í öllum hlutverkum, ekkert nema góðir hlutir sem ég hef heyrt um hana = ég verð að sjá hana.

Evil Dead

Költ mynd dauðans, í bókstaflegri merkingu næstum því. Ég er ekki alveg með hreinu hvernig plottið er, en ég veit að það er hellingur af blóði, sem er gott. Ég þarf líka að fara að manna mig í hryllingsmyndafræðum, en ég hef verið lítið gefinn fyrir slíkar myndir hingað til, en mig langar að kanna þann kvikmyndaheim frekar og sjá til hvort þetta sé eitthvað sem ég gæti elskað, alveg eins og gerðist með metall hjá mér fyrir ekki svo löngu síðan. En metall er nokkurn veginn tónlistarhliðstæða hryllingsmynda.

The Sound of Music

Uppáhalds mynd mömmu og ég held ég hafi aldrei séð hana alveg í gegn. Ég ætla mér að sjá hana sem fyrst til að gleðja þá gömlu.

Sleuth

Uppáhalds myndin hans pabba (held ég). Hann sá hana í bíó 1972 og það sem ég veit um hana hljómar mjög áhugavert. Tveir leikarar, þrjú hlutverk, ein ráðgáta og það engir smá leikarar, Michael Caine og Sir Laurence Olivier.

Battlefield Earth

Ég ætla mér að sjá þessa mynd á þessu skólaári og vonandi skrifa um hana feita færslu. Er hún óóóóóóógeðslega léleg? Misskilið meistaraverk? Hlakka til að komast að því. Ég hef lesið wikipedia greinina um þessa mynd (sem er, nota bene, featured article og er mjög góð og áhugaverð lesning) og langar rosalega að sjá hana.

Blaxploitation mynd

Ég veit lítið um blaxploitation kvikmyndastefnuna og get því ekki nefnt nákvæmlega hvaða mynd ég vil sjá. Blaxploitation (black + exploitation) eru myndir frá áttunda áratugnum með svertingjum í aðalhlutverkum og ýta undir staðalímyndir svartra. Gettó, pimpar, hórur, eiturlyf, fönk, afró og heimskir hvítingjar eru víst það sem einkennir þessar myndir og sú blanda er eitthvað sem vekur upp áhuga minn til þess að sjá þær. Screenshotið til hliðar er úr ónefndri blaxploitation mynd.

The Wizard of Oz

Ég hef aldrei skilið söguþráðinn í þessari sögu almennilega, enda hef ég aldrei séð neina mynd eða lesið neina bók með þessari víðfrægu sögu. Það er nauðsynlegt að sjá þessa mynd til þess að ná öllum þeim tilvísunum sem hafa verið gerðar í hana. Síðan þarf auðvitað ekki að nefna að “Over the Rainbow” er eitt fallegasta dægulag 20. aldarinnar.

Metropolis

Mér skilst að þetta sé skylduáhorf í þessum áfanga, sem er mjög hentugt þar sem mig langar mjög mikið að sjá þessa mynd, sérstaklega í ljósi frétta um uppgötvun löngu glataðra atriða í Buenos Aires. Rándýr mynd á sínum tíma, semi floppaði, svarthvít, þögul, byltingarkennd, vísindaskáldskapur, goðsagnakennd mynd í alla staði. Það verður gaman að sjá hvað fuzzið er um.

Bruce Lee mynd

Hef aldrei séð Bruce Lee mynd. Verð að sjá einhverja.

Það eru margar fleiri myndir sem mig langar til að sjá en ég læt mér duga að nefna þessar. Ég ætla mér að nýta kvikmyndafræði-áfangann með því að horfa á sem flestar af þessum myndum (helst allar) og með því að skrifa þær hér upp í minni fyrstu færslu er ég að leggja ákveðna pressu á mig um að drífa mig í að bomba þessum ræmum í tækið (eða downloada þeim, en það hljómar ekki jafn töff).

Bónus: Mynd sem ég hef ekki séð og langar aldrei að sjá: Teeth.

4 ummæli:

birta sagði...

alltaf. allsstaðar.

Magnús Örn Sigurðsson sagði...

Skemmtileg færsla. Já. Úff. Þú verður að sjá Dr.Strangelove, þú myndir fíla hana. Höfum við ekki öll eitthvað svona að fela. Ég hef ekki séð The Shawshank Redemtion, sem er algjör skandall.

Siggi Palli sagði...

Nokkuð skemmtileg færsla. 8 stig.

Það er nú bara afrek að hafa ekki séð Indiana Jones mynd!

Metropolis er rosalega flott, en sagan er kannski engin rosa snilld. Gæti verið gaman að horfa á hana og Blade Runner með stuttu millibili, því hún hafði mikil áhrif á designið á Blade Runner.
En með Blade Runner er spurningin hins vegar hvaða útgáfu maður á að sjá: upprunalegu, director's cut frá '92 eða nýju útgáfuna. Kannski verður komin enn ein útgáfan 2019.

Varðandi Blaxploitation þá er Shaft örugglega frægasta myndin. Sweet Sweetback's Baadassssss Song þykir líka góð. En þær eru margar frægar að endemum. Blacula anyone?

Siggi Palli sagði...

Mér datt eitt í hug: þú getur nálgast blaxploitation, bruce lee myndir og meira að segja Kung Fu From Beyond the Grave á cinemageddon.org. Ég held að þeir séu með opið signup...