Ég veit að ég á að skrifa um annað hvort topp 10 listann minn eða Shorts & Docs en þar sem ég er ekkert búinn að fara í bíó og ég legg ekki í topp 10 listann alveg strax ætla ég aðeins að skrifa um myndirnar sem ég er búinn að horfa á þessa helgi, sem voru mjög margar miðað við meðaltal (sem er líklega eitthvað í kringum 0,25 hjá mér, þannig að þessi áfangi er strax farinn að hafa áhrif). Fyrst ætla ég að skrifa um þá mynd sem greip mig hvað mest, mynd sem heitir
Glengarry Glen Ross
Tékkið á youtube myndbandinu, í alvöru. Ég sá þetta myndband fyrir tilviljun á youtube og horfði á það nokkrum sinnum í röð eftir að ég sá það fyrst, svo rosalegt fannst mér það. Þetta er eitt af fyrstu atriðunum í myndinni og er því engan veginn spoiler eða neitt slíkt. Alec Baldwin fer á kostum í einni bestu, ef ekki allra bestu, kvikmyndaræðu sem ég hef séð. Í staðinn fyrir vitna eitthvað í ræðuna þá ættirðu frekar bara að tékka myndbandinu, þú munt ekki sjá eftir því. Plottið í myndinni, ef "plott" skildi kalla, er að fjórir fasteignasalar berjast um að halda vinnu sinni þar sem tveir söluminnstu sölumennirnir verða reknir þegar vikan er á enda. Hljómar kannski ekki eitthvað rosalega spennandi, enda skiptir plottið ekki öllu. Myndin gerist á aðeins tveimur dögum og snýst öll um það sem ég elska mest í kvikmyndum: vel skrifuðum og vel leiknum samtölum. Leikararnir í þessari mynd (sem eru allir karlmenn, ég spottaði ekki eina einustu konu alla myndina) komust virkilega í feitt að fá að gæða þessum texta líf því einhvern veginn finnst mér hann raunsær, þessi samtöl gætu allt eins hafa átt sér stað í raunveruleikanum, svo vel eru þau skrifuð. Blótorðin eru ekki spöruð (eins og má sjá í klippunni að ofan) enda eru flestar persónurnar í myndinni að farast úr örvæntingu. Allir leikararnir standa sig mjög vel en uppúr stendur kappi að nafni Jack Lemmon sem leikur hinn örvæntingafulla Shelley Levine, en Lemmon lék ásamt Tony Curtis og Marylin Monroe í hinni margrómuðu Some Like It Hot þremur áratugum fyrir Glengarry Glen Ross. Karakterinn hans minnti mig strax á Gil úr Simpsons þáttunum og eftir smá wikipedia rúnk komst ég að því að Gil var einmitt byggður á karakter hans úr Glengarry Glen Ross.
Þetta er ein af þessum myndum þar sem “ekkert gerist”, það eru bara tvær leikmyndir, skrifstofa og bar, og aldrei kemur neitt shocking plot twist sem fær mann til að gapa af undrun. Ekki veit ég mikið um fasteignabransann en ef þessi mynd gefur rétta mynd af honum vil ég aldrei verða fasteignasali. Hvernig Jack Lemmon breytir sér úr áhyggjufullum gömlum manni í smeðjulegan fasteignasala er bæði mjög aðdáunarvert og dálítið óhugnandi. Myndinni var vel tekið af gagnrýnendum á sínum tíma, árið 1992, en var ekki mjög grimm í miðasölunni (enda hljómar hún ekki mjög spennandi, “fasteignadrama”?) og rétt svo náði ekki að borga budgetið sem var 12 milljónir dollara. Leikararnir í myndinni höfðu þó svo mikinn áhuga á að leika í myndinni að þeir samþykktu að fá mjög hógværar upphæðir miðað við það sem þeir eru vanir, t.d. tekur Al Pacino venjulega 6 millur fyrir mynd en hann samþykkti að leika í Glengarry Glen Ross fyrir “aðeins” 1,5 milljónir. Pacino kallinn var meira að segja tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir leik í aukahlutverki, en tapaði fyrir Gene Hackman úr Unforgiven (Al Pacino fór þó ekki tómhentur heim því hann vann fyrir besta leik í aðalhlutverki í myndinni Scent of a Woman). Sem sagt, frábær mynd, ég er ekki mikið fyrir að skella stjörnum á hitt og þetta, en Glengarry Glen Ross fær mín hæstu meðmæli.
Sin City
Ein af myndunum sem ég nefndi í fyrstu færslunni minni. Ég hef verið “á leiðinni” að sjá þessa mynd alveg síðan hún kom út árið 2005 og loksins lét ég verða að því. Það fyrsta sem maður tekur eftir þegar maður er að horfa á hana er lúkkið, það er óaðfinnanlegt. Allt gert á grænskjá, að sjálfsögðu. Myndasögunum var kirfilega fylgt eftir (eins og má sjá á meðfylgjandi mynd), enda höfundar þeirra titlaður sem leikstjóri ásamt Robert Rodriguez. Ekki er lagt mikið upp úr raunsæi í myndinni, öll samtölin og mónólógin eru eins töffaraleg og mögulega hægt er og aðal söguhetjurnar geta greinilega lifað af hvaða fjölda af byssukúlum sem er, en persónulega er mér drullusama um óraunsæi í kvikmyndum, ef fólk vill raunsæi þá ætti það bara að fara í göngutúr eða fara í heimsókn á Hrafnistu eða eitthvað (ég geri mér grein fyrir því að þetta er algjörlega á skjön við það sem ég skrifaði um Glengarry Glen Ross). Af öllum sjö Sin City bókunum finnst mér The Big Fat Kill vera lélegust og því er leiðinlegt að hún hafi komist í bíómyndina, söguþráðurinn í henni er ekki mjög spennandi og karakterarnir ekkert sérstaklega áhugaverðir (limlestingar og byssukúluregn bæta það þó að mestu). Marv úr The Hard Goodbye er hins vegar frábær karakter og ég gæti endalaust horft á hann drepa einhverja low lifes með tilheyrandi beinbrotshljóðum og blóðsúthellingum. Svo ég orðlengi þetta ekki meira þá er þetta toppmynd í alla staði og gaman að sjá leikstjóra sem hefur virkilega ást á upprunalegu myndasögunum sem hann byggir myndina á. Mér eru minnistæð orð Tim Burtons sem leikstýrði fyrstu tveimur Batman myndunum: “þeir sem þekkja mig vita að ég mundi aldrei lesa myndasögubækur”.
Futurama: Bender’s Big Score og The Beast With a Billion Backs
Ég er mjög mikill Futurama aðdáandi og ég loksins lét verða að því að horfa á fyrstu tvær af fjórum beint-á-dvd Futurama myndunum eftir að hafa heyrt misjafna hluti um þær. Ég verð að segja að mér fannst þær báðar alveg prýðilegar, sérstaklega Bender’s Big Score. Það verður þó að segjast að 22 mínútna þáttur hentar Futurama mun betur 90 mínútna kvikmynd. Ég skil ekki alveg af hverju þeir framleiddu bara ekki aðra seríu af þáttunum í staðinn fyrir fjórar myndir í fullri lengd. Kannski var það vegna þess að þættirnir gengu svo vel í dvd-sölu og einhver “sleppum tengiliðinum”-pæling var í gangi með því sleppa sjónvarpssýningum og skella þessu bara beint á dvd. Ég veit ekki, en ég er þó þakklátur að meira af Futurama skuli hafa verið framleitt, eitthvað sem ég bjóst ekki við þegar þættirnir hættu á sínum tíma. Grínið er ekki alveg á pari við það sem var þáttunum, en þó mjög fyndið á köflum. Ég ætla ekki að fara út í plottið en fyrri myndin snýst um tímaflakk og hin um alheimaflakk. Ég skrifaði að ofan að það sem ég elska mest við kvikmyndir eru vel skrifuð samtöl, það er þó eitt annað sem ég elska jafn mikið, það eru ógeðslega flókin plott (ég á enn eftir að sjá mynd sem sameinar þessar tvær ástir mínar) og Bender’s Big Score a.m.k. býður upp ótrúlega flókið tímaflökkunarplott sem skemmti mér mjög mikið burtséð frá öllum bröndurunum, það var jafnvel dálítið tilfinningaríkt stundum.
Fínustu myndir, gott snakk, þó mundi ég ekki mæla með þeim fyrir þá sem vilja kynnast Futurama þar sem þættirnir eru á hærra kalíberi.
Planet Terror
Ein af tveimur Grindhouse myndunum sem Robert Rodriguez og Quentin Tarantino gerðu á síðasta ári. Þessi mynd er titluð á Rodriguez og stóð undir öllum væntingum sem ég hafði. Væntingarnar voru eitthvað á þessa leið: mikið af blóði, limlestingar, ógeð og töffaraskapur. Ég er svo lítill hryllingsmynda-maður að ég er ekki frá því að þetta hafi verið fyrsta zombie myndin sem ég hef séð alveg út í gegn, og ég vissi ekki einu sinni að þetta væri zombie mynd þegar ég ákvað að horfa á hana. Mikið er lagt í grindhouse-upplifunina og það er eins og verið sé að spila mjög rispaða og gamla filmu alla myndina, það eru sýnishorn úr bíómyndum sem eru ekki til á undan myndinni (það á þó að gera einn af trailerunum að alvöru mynd skilst mér, Machete) og í einu atriði myndinni kemur allt í einu "Reel missing", sem er skemmtileg leið til að sleppa öllu blaðri og leiðindum og skella sér beint í hasarinn. Plottið er samt sagt, eins og í öllum zombie myndum býst ég við, faraldur brýst út sem breytir fólki í uppvakninga sem éta annað fólk og örfáir þraukarar reyna að lifa af og flýja. Ég horfði á þessa mynd fyrir tveimur dögum og ég man ekki einu sinni hvernig hún endaði, ég man hins vegar eftir helling af svölum atriðum. Þetta segir kannski meira en margt um myndina, því hún snýst aðallega um að horfa á megabeibið stúta heiladauðum uppvakningum með fótariflinum sínum og fjandi er það gaman!
Bónus: Mynd sem ég sá fyrir nokkrum dögum síðan: Ninja Cheerleaders. Ef titillinn og sú staðreynd að George Takei leiki í henni kveikir ekki áhuga þinn ertu róbóti
sunnudagur, 24. ágúst 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Flott færsla. 8 stig.
Klippið úr Glengarry er auðvitað snilld, og ég er sammála því að Jack Lemmon er rosa flottur í henni.
Sin City fannst mér alveg geggjuð. Ég var líka svo ánægður að sjá einhvern nota greenscreen og tölvubrellur á jafn skapandi og stílfærðan hátt.
Skrifa ummæli