föstudagur, 29. ágúst 2008

Shorts & Docs: Mini Panorama stuttmyndir

Þar sem ég hafði ekki séð neina Shorts & Docs mynd og síðasti sýningardagur rann upp varð ég að skella mér í bíó til að fylla í tveggja mynda kvótann. Ég fór á Mini Panorama stuttmyndirnar í félagsskap þriggja heiðursmanna og var það hin ágætasta skemmtun. Síðan ætla ég, Héthod Man og Breki Fernandes á leynisýningu á Pétri og úlfinum á morgun þannig að þetta reddast allt saman. Stuttmyndirnar sem ég sá í dag voru fimm, allar sænskar, og af mismunandi gæðum eins og gengur og gerist.

Flatmates

Þegar við félagarnir spjölluðum saman um myndirnar eftir sýninguna ásamt lærimeistaranum Sigga Palla hafði hann orð á því að þessi mynd hafi verið sú versta. Ég er algjörlega á öðru máli og mér fannst þessi mynd vera sú besta af öllum fimm. Þessi mynd var látlausasta myndin á sýningunni, enda var credit listinn á henni stystur, en aðeins voru þrír leikarar og ein sviðsmynd. Myndin fjallar um bestu vini sem eru ný orðnir herbergisfélagar. Þar sem þessi mynd verður ekki sýnd aftur ætla ég að leyfa mér að koma með spoilera (þetta á við um allar myndirnar í þessari færslu). Einn vinurinn kemur með beibís heim af djamminu eftir að hinn gæjinn nennti ekki, hann er nefnilega skápahommi og ástfanginn af vini sínum, og þau (vinurinn og beibís) byrja á einhvers konar ástarsambandi á meðan skápahomminn horfir á úr fjarlægð. Síðan endar myndin á að vinurinn með gelluna kemur heim einn og blindfullur og skápahomminn fylgir honum í rúmið hans og joinar hann síðan og klæmax myndarinnar (nánast í bókstaflega) er þegar skápahomminn rúnkar drukknum og hálfdauðum vini sínum.
Það sem ég fílaði við þessa mynd var hversu raunsæ hún var, karakterarnir voru mjög venjulegir og samtölin sem þeir áttu voru mjög raunveruleg líka, mjög hversdagsleg reyndar. Mér fannst hvernig spennan á milli þeirra var byggð upp heppnast mjög vel, en tónlistin, sem mér þótti til fyrirmyndar, spilar inn í það og hvernig það rennur smá og smá fyrir manni að einn af þeim væri ástfanginn af hinum, en fyrst hélt ég að skápahomminn vildi ekki á djammið því hann var að jafna sig á öðru sambandi eða eitthvað. Síðasta atriðið, sem gerist daginn eftir rúnkið, fannst mér líka mjög vel höndlað. Í staðinn fyrir að annar hvor þeir mundi segja eitthvað álíka klisjukennt og “við þurfum að tala saman um gærkvöldið”, þá segir þeim sem var rúnkað “varstu að þrífa hérna?” og homminn svarar “nei” og gaurinn segir “ok, það er eins og þú hafir verið að þrífa, það er allt hreint”, eftir nokkurra þögn rýkur hann út og segir "þetta er ekki að ganga, Lars!" (eða hvað sem homminn hét). Ég veit ekki, en mér fannst þetta mjög raunsætt samtal, ef þetta hefði verið bandarískur unglingaþáttur hefði samtalið verið allt öðruvísi og mun meira djúsí, en ekki næstum því eins raunsætt. Annars mundu handritshöfundar bandarískra unglingaþátta aldrei hafa kjark til að skrifa semi-nauðgunar-rúnk á milli tveggja karlmanna í þættina sína. Ekki það að ég hafi eitthvað á móti bandarískum unglingaþáttum, hver veit nema ég skelli inn færslu um Gossip Girl við tækifæri.

Den Store Trollkarlen

Slappasta mynd dagsins og Haraldur Unnsteinn Þórir Alfons Proppé Möller Hugosson Thors var mér sammála um það. Fjallar um galdrakall sem vinnur sem… einhvers konar póst skrifstofumaður skildist mér. Síðan kemur frænkan hans í heimsókn sem er voða vond við hann en hann má ekki láta hana komast að því að hann sé galdrakall. Þó hún hafi verið slappasta mynd dagsins þá var hún sú metnaðarfyllsta, 40-50 leikarar, mikið lagt í búningana og útlitið á leikmyndunum og meira að segja smá tæknibrellur skutu upp kollinum. En þegar sagan er leiðinleg þá er fátt sem getur lagað það. Allar línur myndarinnar voru sagðar af sögumanni sem gaf myndinni ákveðinn ævintýrabókablæ. Léleg mynd engu að síður og fær ½ stjörnu frá undirrituðum.

Situation Frank

Næstbesta mynd dagsins. Þessi mynd er um mann sem kemur að látinni konunni sinni eftir að hún hafði framið sjálfsmorð og fjallar um hvernig hann kópar við missinn og vin hans sem reynir að hressa hann við. Ég veit ekki hvað meira ég get sagt en að ég hafði gaman að myndinni en hún byggist aðallega á nokkuð spaugilegum atriðum þar sem vinur mannsins reynir að hressa hann við með misjöfnum árangri og einmanalegum atriðum með manninum. Maðurinn drukknar næstum í baðkarinu þegar hann dettur óvart í það en síðan kemur draumkennt atriði þar sem hann hittir látna konu sína og sannfærist þá að lífið er þess virði að lifa því og þegar hann gengur út úr kirkjunni eftir jarðaför konu sinnar finnur maður að hann hefur sætt sig við andlát hennar og er bjartsýnn á framhaldið. Þannig túlkaði ég þetta að minnsta kosti. Fallegur endir.

Love and War

Án efa sérstakasta mynd dagsins. Stop motion brúðuópera á ítölsku um ást í stríði. Myndin fjallar um ástarsamband bangsa og kanínu á stríðstímum, líklega seinni heimsstyrjöldinni, og myndin endar á að bangsinn er drepinn á vígvellinum. Sagan sjálf var nokkuð falleg en þar sem þetta voru allt brúður gerði það útkomuna nokkuð fyndna, þ.e.a.s. að sjá einhverja tilfinningaþrungna og vel sungna óperu kom út úr munninum á bangsabrúðu. Myndin var mjög vel gerð og allt útlit var til fyrirmyndar (smellið á myndina til hliðar til að sjá svipmyndir úr myndinni). Myndin var öll á tungumáli óperunnar, ítölsku, og það var enginn texti þannig að ég skildi ekki hvað var verið að syngja en ég held að það hafi samt ekkert skemmt fyrir. Niðurstaða: Ég hafði alveg gaman að myndinni en þegar allt kemur til alls er þetta mynd sem byggist á gimmicki og slíkar myndir snerta mann sjaldan...og þó.

Medan Tid År

Í Shorts & Docs bæklingnum stóð að fjórða myndin átti að vera The Walk, en hún var ekki sýnd af einhverjum ástæðum (skv. Magga var enginn texti á myndinni) og í staðinn var þessi mynd sýnd í lokin. Myndin fannst mér byrja nokkuð skemmtilega, tvær eldri konur að spjalla saman um hvað það sé leiðinlegt að vera ein í ellinni og síðan fara þær að surfa stefnumótasíður til að leita sér að félagsskap. Myndin var byggð upp eins og heimildarmynd en ég er nokkuð viss um að hún sé leikin, allavega eitthvað af henni. Þegar líða fór á myndina fór mér að leiðast dálítið og mér fannst myndatakan gera mig ringlaðan og samtölin sem voru í gangi voru ekkert spennandi. Gamlar fjölskyldumyndbandsupptökur voru sýndar á milli atriða og í miðjum atriðum og það braut aðeins upp á myndina. Endirinn fannst mér hins vegar voða sætur og ég er búinn að vera með Fly Me to the Moon á heilanum síðan.

Bónus: Ég horfði Casino Royale í vikunni og það var algjörlega þess virði þó það væri ekki nema bara til að heyra Bond svara “Do I look like I give a damn?” þegar hann var spurður hvort hann vildi vodka martiníð sitt hrist eða hrært.

sunnudagur, 24. ágúst 2008

Kvikmyndahelgi: Glengarry Glen Ross og fleira

Ég veit að ég á að skrifa um annað hvort topp 10 listann minn eða Shorts & Docs en þar sem ég er ekkert búinn að fara í bíó og ég legg ekki í topp 10 listann alveg strax ætla ég aðeins að skrifa um myndirnar sem ég er búinn að horfa á þessa helgi, sem voru mjög margar miðað við meðaltal (sem er líklega eitthvað í kringum 0,25 hjá mér, þannig að þessi áfangi er strax farinn að hafa áhrif). Fyrst ætla ég að skrifa um þá mynd sem greip mig hvað mest, mynd sem heitir

Glengarry Glen Ross



Tékkið á youtube myndbandinu, í alvöru. Ég sá þetta myndband fyrir tilviljun á youtube og horfði á það nokkrum sinnum í röð eftir að ég sá það fyrst, svo rosalegt fannst mér það. Þetta er eitt af fyrstu atriðunum í myndinni og er því engan veginn spoiler eða neitt slíkt. Alec Baldwin fer á kostum í einni bestu, ef ekki allra bestu, kvikmyndaræðu sem ég hef séð. Í staðinn fyrir vitna eitthvað í ræðuna þá ættirðu frekar bara að tékka myndbandinu, þú munt ekki sjá eftir því. Plottið í myndinni, ef "plott" skildi kalla, er að fjórir fasteignasalar berjast um að halda vinnu sinni þar sem tveir söluminnstu sölumennirnir verða reknir þegar vikan er á enda. Hljómar kannski ekki eitthvað rosalega spennandi, enda skiptir plottið ekki öllu. Myndin gerist á aðeins tveimur dögum og snýst öll um það sem ég elska mest í kvikmyndum: vel skrifuðum og vel leiknum samtölum. Leikararnir í þessari mynd (sem eru allir karlmenn, ég spottaði ekki eina einustu konu alla myndina) komust virkilega í feitt að fá að gæða þessum texta líf því einhvern veginn finnst mér hann raunsær, þessi samtöl gætu allt eins hafa átt sér stað í raunveruleikanum, svo vel eru þau skrifuð. Blótorðin eru ekki spöruð (eins og má sjá í klippunni að ofan) enda eru flestar persónurnar í myndinni að farast úr örvæntingu. Allir leikararnir standa sig mjög vel en uppúr stendur kappi að nafni Jack Lemmon sem leikur hinn örvæntingafulla Shelley Levine, en Lemmon lék ásamt Tony Curtis og Marylin Monroe í hinni margrómuðu Some Like It Hot þremur áratugum fyrir Glengarry Glen Ross. Karakterinn hans minnti mig strax á Gil úr Simpsons þáttunum og eftir smá wikipedia rúnk komst ég að því að Gil var einmitt byggður á karakter hans úr Glengarry Glen Ross.
Þetta er ein af þessum myndum þar sem “ekkert gerist”, það eru bara tvær leikmyndir, skrifstofa og bar, og aldrei kemur neitt shocking plot twist sem fær mann til að gapa af undrun. Ekki veit ég mikið um fasteignabransann en ef þessi mynd gefur rétta mynd af honum vil ég aldrei verða fasteignasali. Hvernig Jack Lemmon breytir sér úr áhyggjufullum gömlum manni í smeðjulegan fasteignasala er bæði mjög aðdáunarvert og dálítið óhugnandi. Myndinni var vel tekið af gagnrýnendum á sínum tíma, árið 1992, en var ekki mjög grimm í miðasölunni (enda hljómar hún ekki mjög spennandi, “fasteignadrama”?) og rétt svo náði ekki að borga budgetið sem var 12 milljónir dollara. Leikararnir í myndinni höfðu þó svo mikinn áhuga á að leika í myndinni að þeir samþykktu að fá mjög hógværar upphæðir miðað við það sem þeir eru vanir, t.d. tekur Al Pacino venjulega 6 millur fyrir mynd en hann samþykkti að leika í Glengarry Glen Ross fyrir “aðeins” 1,5 milljónir. Pacino kallinn var meira að segja tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir leik í aukahlutverki, en tapaði fyrir Gene Hackman úr Unforgiven (Al Pacino fór þó ekki tómhentur heim því hann vann fyrir besta leik í aðalhlutverki í myndinni Scent of a Woman). Sem sagt, frábær mynd, ég er ekki mikið fyrir að skella stjörnum á hitt og þetta, en Glengarry Glen Ross fær mín hæstu meðmæli.

Sin City

Ein af myndunum sem ég nefndi í fyrstu færslunni minni. Ég hef verið “á leiðinni” að sjá þessa mynd alveg síðan hún kom út árið 2005 og loksins lét ég verða að því. Það fyrsta sem maður tekur eftir þegar maður er að horfa á hana er lúkkið, það er óaðfinnanlegt. Allt gert á grænskjá, að sjálfsögðu. Myndasögunum var kirfilega fylgt eftir (eins og má sjá á meðfylgjandi mynd), enda höfundar þeirra titlaður sem leikstjóri ásamt Robert Rodriguez. Ekki er lagt mikið upp úr raunsæi í myndinni, öll samtölin og mónólógin eru eins töffaraleg og mögulega hægt er og aðal söguhetjurnar geta greinilega lifað af hvaða fjölda af byssukúlum sem er, en persónulega er mér drullusama um óraunsæi í kvikmyndum, ef fólk vill raunsæi þá ætti það bara að fara í göngutúr eða fara í heimsókn á Hrafnistu eða eitthvað (ég geri mér grein fyrir því að þetta er algjörlega á skjön við það sem ég skrifaði um Glengarry Glen Ross). Af öllum sjö Sin City bókunum finnst mér The Big Fat Kill vera lélegust og því er leiðinlegt að hún hafi komist í bíómyndina, söguþráðurinn í henni er ekki mjög spennandi og karakterarnir ekkert sérstaklega áhugaverðir (limlestingar og byssukúluregn bæta það þó að mestu). Marv úr The Hard Goodbye er hins vegar frábær karakter og ég gæti endalaust horft á hann drepa einhverja low lifes með tilheyrandi beinbrotshljóðum og blóðsúthellingum. Svo ég orðlengi þetta ekki meira þá er þetta toppmynd í alla staði og gaman að sjá leikstjóra sem hefur virkilega ást á upprunalegu myndasögunum sem hann byggir myndina á. Mér eru minnistæð orð Tim Burtons sem leikstýrði fyrstu tveimur Batman myndunum: “þeir sem þekkja mig vita að ég mundi aldrei lesa myndasögubækur”.

Futurama: Bender’s Big Score og The Beast With a Billion Backs

Ég er mjög mikill Futurama aðdáandi og ég loksins lét verða að því að horfa á fyrstu tvær af fjórum beint-á-dvd Futurama myndunum eftir að hafa heyrt misjafna hluti um þær. Ég verð að segja að mér fannst þær báðar alveg prýðilegar, sérstaklega Bender’s Big Score. Það verður þó að segjast að 22 mínútna þáttur hentar Futurama mun betur 90 mínútna kvikmynd. Ég skil ekki alveg af hverju þeir framleiddu bara ekki aðra seríu af þáttunum í staðinn fyrir fjórar myndir í fullri lengd. Kannski var það vegna þess að þættirnir gengu svo vel í dvd-sölu og einhver “sleppum tengiliðinum”-pæling var í gangi með því sleppa sjónvarpssýningum og skella þessu bara beint á dvd. Ég veit ekki, en ég er þó þakklátur að meira af Futurama skuli hafa verið framleitt, eitthvað sem ég bjóst ekki við þegar þættirnir hættu á sínum tíma. Grínið er ekki alveg á pari við það sem var þáttunum, en þó mjög fyndið á köflum. Ég ætla ekki að fara út í plottið en fyrri myndin snýst um tímaflakk og hin um alheimaflakk. Ég skrifaði að ofan að það sem ég elska mest við kvikmyndir eru vel skrifuð samtöl, það er þó eitt annað sem ég elska jafn mikið, það eru ógeðslega flókin plott (ég á enn eftir að sjá mynd sem sameinar þessar tvær ástir mínar) og Bender’s Big Score a.m.k. býður upp ótrúlega flókið tímaflökkunarplott sem skemmti mér mjög mikið burtséð frá öllum bröndurunum, það var jafnvel dálítið tilfinningaríkt stundum.
Fínustu myndir, gott snakk, þó mundi ég ekki mæla með þeim fyrir þá sem vilja kynnast Futurama þar sem þættirnir eru á hærra kalíberi.

Planet Terror

Ein af tveimur Grindhouse myndunum sem Robert Rodriguez og Quentin Tarantino gerðu á síðasta ári. Þessi mynd er titluð á Rodriguez og stóð undir öllum væntingum sem ég hafði. Væntingarnar voru eitthvað á þessa leið: mikið af blóði, limlestingar, ógeð og töffaraskapur. Ég er svo lítill hryllingsmynda-maður að ég er ekki frá því að þetta hafi verið fyrsta zombie myndin sem ég hef séð alveg út í gegn, og ég vissi ekki einu sinni að þetta væri zombie mynd þegar ég ákvað að horfa á hana. Mikið er lagt í grindhouse-upplifunina og það er eins og verið sé að spila mjög rispaða og gamla filmu alla myndina, það eru sýnishorn úr bíómyndum sem eru ekki til á undan myndinni (það á þó að gera einn af trailerunum að alvöru mynd skilst mér, Machete) og í einu atriði myndinni kemur allt í einu "Reel missing", sem er skemmtileg leið til að sleppa öllu blaðri og leiðindum og skella sér beint í hasarinn. Plottið er samt sagt, eins og í öllum zombie myndum býst ég við, faraldur brýst út sem breytir fólki í uppvakninga sem éta annað fólk og örfáir þraukarar reyna að lifa af og flýja. Ég horfði á þessa mynd fyrir tveimur dögum og ég man ekki einu sinni hvernig hún endaði, ég man hins vegar eftir helling af svölum atriðum. Þetta segir kannski meira en margt um myndina, því hún snýst aðallega um að horfa á megabeibið stúta heiladauðum uppvakningum með fótariflinum sínum og fjandi er það gaman!

Bónus: Mynd sem ég sá fyrir nokkrum dögum síðan: Ninja Cheerleaders. Ef titillinn og sú staðreynd að George Takei leiki í henni kveikir ekki áhuga þinn ertu róbóti

föstudagur, 22. ágúst 2008

Myndir sem ég vil sjá (og af hverju)

Margar myndir eru svo umtalaðar að það að vera ekki búinn að sjá þær getur hamlað samtöl um kvikmyndir eða gert snjallar kvikmyndatilvísanir að engu. Sérstaklega er leiðinlegt þegar gert er grín að myndum eða vísað í þær á einhvern hátt í sjónsvarpsþáttum eins og The Simpsons og maður fattar ekki djókið því maður hefur ekki séð myndirnar. Ég er ekki frá því að ef ég mundi klippa saman allar þær tilvísanir í 2001: A Space Oddyssey eða Citizen Kane sem ég hef séð í hinum ýmsu þáttum eða myndum þá væri ég kominn með myndirnar í heild sinni. Ég tel mig hafa séð mjög margar myndir sem taldar eru með þeim allra bestu, áhrifamestu, vinsælustu en umfram allt, elskuðustu sem gerðar hafa verið. Þó eru nokkrar títtnefndar myndir sem ég hef heyrt svo oft um að ég kann jafnvel allan söguþráðinn og/eða kannast við ákveðnar persónur eða atriði úr myndinni án þess að hafa séð hana. Hérna ætla ég drepa á nokkrum stórvirkjum og nokkrum költ myndum sem ég hálfskammast mín fyrir að vera ekki búinn að sjá.

The Big Lebowski

Þetta er mynd sem er alveg út-í-hött að vera ekki búinn að sjá. Þessi mynd sló engin aðsóknarmet þegar hún kom út en hefur sankað að sér aðdáendum alveg síðan. Haldin eru keilumót til heiðurs myndarinnar víða um heim og jafnvel hér á Íslandi var haldið Lebowski keilumót fyrir ekki svo löngu síðan þar sem fólk klæddi sig upp sem uppáhalds persónan sín úr myndinni og spilaði keilu. Það sem ég hef heyrt um myndina er að hún byggist aðallega á eftirminnilegum samtölum, sem er algjörlega eitthvað sem ég kann að meta. Ég man eftir því þegar eldri bræður mínir horfðu á þessa mynd þegar ég var yngri, ég held meira að segja að þeir áttu hana á spólu, en ég nennti aldrei að horfa á hana vegna titils myndarinnar, mér fannst hann frekar fráhrindandi. Þessa mynd verð ég pottþétt búinn að sjá áður skólaárið er á enda.

Godzilla

Neibb, ekki þarna Hollywood myndin með þarna gæjanum sem lék líka í Independence Day, hvað hét hann aftur, er með gleraugu, sjúklega nettur, bíðið ætla að tékka á internytjunni… hmm, kemur í ljós að meistarinn Jeff Goldblum lék EKKI í Godzilla myndinni sem kom út 1998. Mér fannst það einhvern veginn. Jæja, ég er sem sagt ekki að tala um þá Godzillu mynd, heldur þá japönsku sem kom út 1954. Ég held að aðalástæðan að ég vil sjá þessa mynd er út af öllum framhaldsmyndunum. Mig langar að vera költ nölli. Eins og til dæmis að vita hvenær King Ghidaroh kom inn í Godzillu seríuna og hvernig sonur Godzilla varð til og þannig. Ég held þegar maður tekur einhverri költ seríu ástfóstri þá getur maður jafnvel elskað lélegu myndirnar. Mér líður þannig með suma af upprunalegu Star Trek þáttunum (ég fer betur út í þá í annarri færslu), jafnvel þó að einhver þáttur sökki og er hundleiðinlegur finnst mér samt “gaman” að horfa. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að útskýra hvers vegna þannig ég fer ekki með þetta lengra. Sem sagt, ef ég fíla upprunalegu Godzillu myndina ætla ég að horfa á allar hinar í tímaröð.

Star Trek V og VI

Þetta eru síðustu tvær myndirnar þar sem castið úr upprunalegu þáttunum er í aðalhlutverki. Sjálfur William Shatner leikstýrir þeirri fimmtu og það verður áhugavert að sjá hvernig það tókst til (á myndinni til hliðar má sjá meistarann iðinn við kolann að leikstýra, í Enterprise búningnum að sjálfsögðu), en Leonard Nimoy, sá sem leikur Spock, leikstýrði myndum 3 og 4 og stóð sig með prýði.

Shichinin no samurai

Eða “Hinir sjö samúræjar” er rosalega áhrifamikil mynd og allar hasarmyndir hafa nýtt sér kvikmyndatökuna í þessari mynd á einhvern hátt...eða eitthvað. Það er allavega búið að hæpa þessa mynd mjög mikið fyrir mér og þegar hæpið er komið á ákveðið stig verður maður að sjá myndina. Þangað til ætla ég bara að trúa á orð Flavor Flav úr Public Enemy: “Don’t Believe the Hype!”.

Dr. Strangelove (or How I learned to Stop Worrying and Love the Bomb)

Stanley Kubrick. Þau tvö orð eru í raun næg ástæða til þess að horfa á þessa mynd. Þar að auki eru takmörk fyrir því hversu oft er hægt að sjá homage til kjarnorkjusprengju atriðisins (þarna þar sem gaurinn er að ríða á sprengjunni) án þess að hafa séð upprunalega atriðið. Þetta er einnig uppáhalds mynd David X. Cohen, einn af sköpurum Futurama og handritshöfundur hjá the Simpsons, mjög fyndinn náungi, enda hef ég horft á hvern einasta Futurama þátt með audio commentary oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.

Indiana Jones þrí...eh, FJÓRleikinn

Hef ekki séð eina einustu Indiana Jones mynd, sem er alveg fáránlegt.

Die Hard

Ég er ekki að grínast. Ég er EKKI að grínast. Ég hef ekki séð Die Hard. Hvað þá Die Hard 2, With a Vengeance eða 4.0. Ég VERÐ að sjá Die Hard. Ég ætla að horfa á hana í jólafríinu, jafnvel allan þrí...FJÓRleikinn, því hún gerist víst á jólunum. Yippie Kah-Yay!

Alien

Annar skylduáhorfs þríleikur (fimmleikur? man ekki hvað þær eru margar) sem ég hef ekki séð. Reyndar sá ég eina af þeim þegar ég var svona 12 ára, en ég man bara eftir lokaatriðinu.

Plan 9 from Outer Space

Af mörgum talin versta mynd allra tíma. Slíka mynd VERÐ ég að sjá. Hafandi séð hina stórgóðu Tim Burton ræmu, Ed Wood, langar mér að sjá þessa mynd enn frekar. Í Seinfeld þættinum “The Chinese Restaurant” er Jerry að fara að sjá þessa mynd í bílabíói. Sagan á bakvið þessa mynd og hvernig hún kom til er líka mjög merkileg, en leikararnir þurftu að láta skíra sig í einhverja kirkju svo að hún yrði fjármögnuð.

Kung Fu From Beyond the Grave

http://www.youtube.com/watch?v=R2LjkvbKwpQ
Ég ætla að setja mér það persónulega markmið að sjá þessa mynd áður en skólaárið er á enda. Sjáið bara til.

Blade Runner

Ég spilaði tölvuleikinn sem kom út fyrir 11 árum og kláraði hann næstum því (mjög góður leikur, hulstrið á honum má sjá á meðfylgjandi mynd), þannig að ég veit um hvað þessi mynd fjallar. Ég elska sci-fi og þessi er talin eins sú allra besta í þeim flokki þannig að ég verð sjá hana sem fyrst. Þegar ég var að spila tölvuleikinn, 9 ára, ákvað ég að horfa á myndina árið 2019, því myndin gerist þá, en ég held ég brjóti þetta loforð sem ég gaf sjálfum mér á þeim tíma þar sem ég er of forvitinn núna. Ég get alveg horft á hana aftur árið 2019 þannig að ég get alveg staðið við þetta loforð tæknilega séð.

Sin City

Ég hef lesið allar Sin City bækurnar eftir Frank Miller og notið þeirra allra, og ég tel eina af þeim vera ein besta myndasaga sem ég hef lesið (The Hard Goodbye fyrir þá sem vilja vita það). Það er furðulegt að ég hef aldrei látið verða að því að sjá myndina þar sem ég tel 100% líklegt að ég muni fíla hana. Þessi myndasögumynd er talin fylgja upprunalegu bókunum mjög strangt eftir, eitthvað sem gleður alltaf myndasögunörda sem telja það guðlast að breyta einhverju úr upprunalegu sögunum til að henta kvikmyndamiðlinum betur (From Hell einhver!!!). Solid leikarar í öllum hlutverkum, ekkert nema góðir hlutir sem ég hef heyrt um hana = ég verð að sjá hana.

Evil Dead

Költ mynd dauðans, í bókstaflegri merkingu næstum því. Ég er ekki alveg með hreinu hvernig plottið er, en ég veit að það er hellingur af blóði, sem er gott. Ég þarf líka að fara að manna mig í hryllingsmyndafræðum, en ég hef verið lítið gefinn fyrir slíkar myndir hingað til, en mig langar að kanna þann kvikmyndaheim frekar og sjá til hvort þetta sé eitthvað sem ég gæti elskað, alveg eins og gerðist með metall hjá mér fyrir ekki svo löngu síðan. En metall er nokkurn veginn tónlistarhliðstæða hryllingsmynda.

The Sound of Music

Uppáhalds mynd mömmu og ég held ég hafi aldrei séð hana alveg í gegn. Ég ætla mér að sjá hana sem fyrst til að gleðja þá gömlu.

Sleuth

Uppáhalds myndin hans pabba (held ég). Hann sá hana í bíó 1972 og það sem ég veit um hana hljómar mjög áhugavert. Tveir leikarar, þrjú hlutverk, ein ráðgáta og það engir smá leikarar, Michael Caine og Sir Laurence Olivier.

Battlefield Earth

Ég ætla mér að sjá þessa mynd á þessu skólaári og vonandi skrifa um hana feita færslu. Er hún óóóóóóógeðslega léleg? Misskilið meistaraverk? Hlakka til að komast að því. Ég hef lesið wikipedia greinina um þessa mynd (sem er, nota bene, featured article og er mjög góð og áhugaverð lesning) og langar rosalega að sjá hana.

Blaxploitation mynd

Ég veit lítið um blaxploitation kvikmyndastefnuna og get því ekki nefnt nákvæmlega hvaða mynd ég vil sjá. Blaxploitation (black + exploitation) eru myndir frá áttunda áratugnum með svertingjum í aðalhlutverkum og ýta undir staðalímyndir svartra. Gettó, pimpar, hórur, eiturlyf, fönk, afró og heimskir hvítingjar eru víst það sem einkennir þessar myndir og sú blanda er eitthvað sem vekur upp áhuga minn til þess að sjá þær. Screenshotið til hliðar er úr ónefndri blaxploitation mynd.

The Wizard of Oz

Ég hef aldrei skilið söguþráðinn í þessari sögu almennilega, enda hef ég aldrei séð neina mynd eða lesið neina bók með þessari víðfrægu sögu. Það er nauðsynlegt að sjá þessa mynd til þess að ná öllum þeim tilvísunum sem hafa verið gerðar í hana. Síðan þarf auðvitað ekki að nefna að “Over the Rainbow” er eitt fallegasta dægulag 20. aldarinnar.

Metropolis

Mér skilst að þetta sé skylduáhorf í þessum áfanga, sem er mjög hentugt þar sem mig langar mjög mikið að sjá þessa mynd, sérstaklega í ljósi frétta um uppgötvun löngu glataðra atriða í Buenos Aires. Rándýr mynd á sínum tíma, semi floppaði, svarthvít, þögul, byltingarkennd, vísindaskáldskapur, goðsagnakennd mynd í alla staði. Það verður gaman að sjá hvað fuzzið er um.

Bruce Lee mynd

Hef aldrei séð Bruce Lee mynd. Verð að sjá einhverja.

Það eru margar fleiri myndir sem mig langar til að sjá en ég læt mér duga að nefna þessar. Ég ætla mér að nýta kvikmyndafræði-áfangann með því að horfa á sem flestar af þessum myndum (helst allar) og með því að skrifa þær hér upp í minni fyrstu færslu er ég að leggja ákveðna pressu á mig um að drífa mig í að bomba þessum ræmum í tækið (eða downloada þeim, en það hljómar ekki jafn töff).

Bónus: Mynd sem ég hef ekki séð og langar aldrei að sjá: Teeth.